21.12.1937
Efri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

126. mál, raforkuveita á Akureyri

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég vil ekki láta þetta mál fara út úr d. án þess að segja um það nokkur orð.

Ég hefi nokkra sérstöðu í þessum rafmagnsmálum. Ég lít svo á., að með því að veita stórum bæjarfélögum þannig leyfi til að virkja stór fallvötn til afnota fyrir sig, sé útilokað, að mikill hluti af þeim sveitum, sem uppland eiga að þeim stóru vötnum, geti um ófyrirsjáanlega framtið notað sér þá möguleika, sem til staðar eru til þess að fá rafmagn frá þessum stöðum. Þess vegna álít ég, að þessi rafmagnsmál séu meira og minna misráðin. Ég hefi litið svo á, að það fyrsta, sem eigi að gera, sé að skipta landinu í viss svæði, utan um þau fallvötn, sem þau geta fengið rafmagnið ódýrast frá. Og þegar væri búið að skipta landinu þannig í hverfi og reikna út, hvað rafmagnið þyrfti að kosta að meðaltali, þegar búið væri að leiða það um það allt, þá ætti að selja það með því verði yfir allt svæðið. Með þessu móti hefði t. d. Reykjavík fengið sitt rafmagn líklega ? ódýrara en nú, en þá hefði líka mátt koma því á hvern bæ í Rangárvallasýslu, Mýrasýslu, Árnessýslu. Borgarfjarðarsýslu og Gullbringu- og Kjósarsýslu, en með því að veita þeim, sem bezta hafa aðstöðuna, sérleyfi til virkjunar, er þessu sleppt. Nú er haldið áfram og röðin komin að Akureyri. En ég álít, að þegar hægt verður að leggja línur út til sveitanna í kring, þá eigi þær að fá það. Stj. á að segja: Þið, sem bezta hafið aðstöðuna, eigið að standa saman í einu félagi með þeim, sem verri aðstöðu hafa. Þið eigið að virkja í félagi, og svo á að selja rafmagnið sama verði til allra á svæðinu. En það er komið inn á þessa braut, og þess vegna þýðir ekki að leggjast á móti því, að hér sé á ný tekin ábyrgð fyrir nokkurn hluta af því svæði, sem ætti að fá rafmagn frá þessum stað, en hinir útilokaðir. En ég býst við, að ekki liði mörg ár þangað til við förum að tala um, hvernig eigi að koma rafmagninu út í dreifbýlið, og þá hygg ég, að komi í ljós, að betra hefði verið að taka þessa stefnu, sem ég ræði um, upp fyrr, en stiga ekki þetta víxlspor, sem hefir verið gert og er verið að gera. Og líklega verður það þá gert með því að skattleggja rafmagnsnotkunina, og nota þann skatt til að vikka út leiðslukerfið og auka notkunina. En ég greiði nú atkv. á móti frumvarpinu.