20.12.1937
Efri deild: 53. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

53. mál, lestrarfélög og kennslukvikmyndir

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Út af orðum hv. 6. landsk. vil ég segja það, að sjálfsagt hefði verið að athuga hans gagnrýni, ef tími hefði unnizt til. En nú eru þinglausnir á morgun, svo að mig grunar að frv. myndi ekki geta fengið afgreiðslu í Nd. Ég sting því upp á því við hv. þm., að hann vilji láta við þetta sitja að sinni. Í eðli sínu má túlka þetta eins og hann vill vera láta, en ég held, að það sé heppilegra fyrir félögin að láta málið ganga fram í þetta sinn. Okkar bókasöfn eru vaxin upp af margskonar jarðvegi og víða af vanefnum, og þau vantar enn verulegt samræmi, sem myndi skapast, þegar þau færu almennt að fá styrk. En mér finnst ekki líklegt, að við í n., sem erum uppteknir til þingloka, getum gert nokkra breytingu á málinu. Tel ég því réttara að láta málið fara í gegn að þessu sinni, en láta svo laga það á næstu 2–3 árum.