15.12.1937
Neðri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

140. mál, mæðiveikin

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Ég vil leyfa mér að skýra frá minni afstöðu í þessu máli, líka þar sem ég er fagmaður um það, sem hér er um að ræða. En af því að ræða mín er ádeila á það, sem framkvæmt hefir verið í þessu efni, hefði ég kosíð að hafa fleiri áheyrendur á meðal hv. þm. en hér eru staddir. Sem fulltrúi á þjóðþingi Ísl. tel ég mig knúðan til að taka hér til máls og kem þá um leið fram sem dýralæknir.

Í þessu mikla máli hefir frá byrjun gætt mikillar vanþekkingar. Sjálf undirstöðuatriðin eru byggð á vanþekkingu. Geta menn ekki vænzt glæsilegrar úrlausnar vandamálsins, þegar svo er ástatt. Forráðamenn í þessu máli játa það enda sjálfir, að mörg séu víxlsporin orðin. Sjálfur frsm. hv. landbn., hv. þm. Mýr., játaði í ræðu sinni áðan, að svo væri t. d. að því er girðingarnar snerti. Taldi hann þær gagnslausar eins og komið væri, þar sem sýkin væri komin upp hingað og þangað fyrir utan þær.

Enginn maður, sem til þekkir, neitar því, að ægileg farsótt hafi geisað og geisi enn í sauðfé í nokkrum byggðarlögum landsins. Eftir skýrslum, sem komu í vetur um útbreiðslu veikinnar, voru talin sýkt 298 býli, en veikin þó ekki konstateruð nema á 107 býlum, rúmum þriðjung. En seinni skýrslur benda til þess, að veikin sé ekki eins ægileg og menn vilja vera láta. En það er látið í veðri vaka, að mörg héruð séu alveg undirlögð af veikinni. Því er fyrst og fremst troðið inn í fólkið í ræðum og riti, að hér sé á ferðinni nýr, áður óþekktur, smitandi og ólæknandi sjúkdómur. Slíkar staðhæfingar vekja eðlilega ótta og skelfingu í fólkinu. Það er sá draugur, sem hefir gert fólkið hrætt og truflað dómgreind þess, og það er næstum verra en veikin sjálf. Það er ekki von á góðu, þegar spekingar þjóðarinnar fullyrða, að hér sé á ferðinni voðaleg plága, bráðsmitandi og ólæknandi. En þeir tala af vanþekkingu, því að þeir fullyrða í dag og éta allt í sig daginn eftir. Ég vil nú færa mönnum heim sanninn um, að þetta sé allt á röngum forsendum byggt.

Hverjar eru afleiðingarnar af þessu? Þær hafa ekki látið á sér standa, því að nú er niðurskurður á sjúku og heilbrigðu fé fyrirskipaður hér og þar. En það er svipað með niðurskurðinn og girðingarnar, að þar er allt gert í blindni. Við höldum áfram að skera niður eins og molbúar.

Í allri þeirri óvissu, sem ríkt hefir undanfarið hjá forráðamönnum þessa máls um eðli og uppruna sýkingarinnar, er því nú slegið föstu, að hún muni vera hin sama og Suður-Afríkusauðfjárveikin Jaagziekte, hingað flutt með karakúlhrút frá Þýzkalandi. Það er að vísu ekki hægt að neita því, að til eru einkenni á þessari veiki hér, sem eru til með báðum. En það er vafamál. hvort Jaagziekte er smitandi, og dauðsföll af völdum hennar eru bara 1,6%. Jaagziekte kemur og aðeins fyrir á vetrarmánuðum. Svo er það allra fáránlegasta, en það er um meðgöngutímann. Meðgöngutími Jaagziekte er 3–5 dagar, en hér á Íslandi nota menn meðgöngutímann eftir geðþótta, allt eftir því, hvernig á stendur eða hentar bezt hér og þar. Hann er látinn vera einn mán., tveir, þrír og allt upp í átján mán., eftir því, hvað hentar. Þetta er einn þátturinn í vísindamennskunni, sem málið er byggt á hér á Íslandi. Úti í heimi mundi þetta hvergi verða þolað. Ég er hissa á því, að læknar skuli ekki hafa tekið hér í taumana og bent fólki á þessa reginvitleysu.

Þegar búið er að staðhæfa þetta, trúir fólkið því. Blöðin skrifa langar greinar. Löggjafarþing þjóðarinnar trúir þessu, og sjálf landstjórnin trúir því líka. Á þessum grundvelli er hrúgað upp lögum og nefndir eru skipaðar til þess að undirbúa frekari framkvæmdir. Girðingar voru settar niður og vörðum var raðað fram með fallvötnum landsins fyrir utan hættusvæðin, og loks var skipaður framkvæmdarstjóri, sem var gefið ótakmarkað vald til þess að fyrirskipa hverja þá ráðstöfun, sem hann taldi nauðsynlega til að hefta útbreiðslu sýkinnar, og það er maður, sem ég veit ekki, hvort þekkir, hvað er fram eða aftur á kind. En þess hefir verið vandlega gætt, að þeir menn, sem faglega þekkingu hefðu á málinu, dýralæknarnir, kæmu ekki nálægt því, og er það ekki í fyrsta skipti hér á landi, þegar um heilbrigðismál búpenings hefir verið að ræða, að framhjá þeim sé gengið. Slíkt getur auðvitað aðeins átt sér stað á Íslandi. Ég veit eitt dæmi þess í haust, að dýralækni var meinað að skoða lungu í kindum, en bóndi utan af landi látinn gera það. Með öðrum þjóðum mundi slíkt alls ekki geta komið til mála. Þar er heilbrigðismál búpenings eðlilega í höndum dýralæknanna eða heilbrigðisráðs, er þeir skipa. En valdhafar vorir halda að sjálfsögðu, að með þessum ráðstöfunum sé öllu vel og tryggilega ráðið, og að heppileg lausn hljóti þar með að fást. En þrátt fyrir það heldur sýkin áfram að breiðast út og til síðasta örþrifaráðsins er gripið — að láta menn skera niður fé sitt í stórum stíl, þótt alheilbrigt sé. Svona er þá málum komið. En hvar er sannleikurinn í þessu mikla vandamáli?

Tilheyrendur mínir munu segja, að ég fari hér nokkuð geyst af stað, en ég hefi svo mikil gögn í höndunum í þessu máli, að ég er ekki hræddur við að segja það, sem ég veit sannast og réttast. En eins og allur málarekstur hefir verið hingað til og annar undirbúningur þessa máls, má það heita, að gangi fífldirfsku næst að voga sér að andæfa meginatriðum málsins, en ég hefi í tæp 28 ár verið dýralæknir, og samvizka mín knýr mig til þess að segja afdráttarlaust það, sem ég veit betur eða réttara í þessu máli en aðrir, sem það hafa með höndum.

Í fyrravetur gafst mér kostur á að kynna mér sýki þessa, og fullyrti ég þá, að hér væri um sjúkdóm að ræða, sem væri æfagamall á landi hér. Og þetta er það sanna og rétta í málinu. Fyrir þessa fullyrðingu mína hefi ég orðið fyrir alveg óverðskulduðu aðkasti fólks, sem þóttist vita betur, og hefi ég lítið hirt um það, enda tala ég hér sem fagmaður og beygi mig ekki fyrir órökstuddum dómum ófaglærðra manna. Og hefði fólk fengið að leggja trúnað á ummæli mín, væri nú öðruvísi umhorfs hvað þetta mál snertir. En í stað þess hefir allra ráða verið leitað til þess að reyna að hnekkja þeim, og vandlega hefir þess verið gætt að halda mér og öðrum dýralæknum landsins, sem þessa skoðun hafa, utan við þetta mál.

Þá skal ég koma nánar inn á nokkur atriði, sem mestu máll skipta í þessu sambandi. Eins og þegar er fram tekið, er því haldið fram, að sýki þessi sé hin sama og Jaagziekte, en margt, ef ekki flest, mælir á móti því. Til þess að geta rímað vísuna, er því haldið fram, að Jaagziekte hafi borizt hingað með karakúlhrút frá Þýzkalandi árið 1933. Vitanlega var þessi hrútur með öðru fé hingað fluttur frá Halle á Þýzkalandi, en hann einn úr hópnum á að hafa smitað íslenzka féð, en hitt karakúlféð ekki. Þetta út af fyrir sig er mjög grunsamlegt. Það er upplýst, að hrútur þessi var hafður í strangri sóttkví um 9 vikna tíma ásamt hinum kindunum, í Þerney. En venjulegur tími er aðeins mánuður. Hrúturinn var fluttur upp í Borgarfjörð um haustið og haldið þar á bæ um 3 mán. skeið, án þess þó að hafa smitað féð á þeim bæ. En um fengitíma, þegar komið var fram undir jól, er hann fluttur að Deildartungu, og þar ske þau undur, að hann smitar féð. Þaðan eru svo smitleiðirnar raktar í allar áttir, og það með þeim undarlega hætti, að meðgöngutími sýkinnar er látinn vera mjög mismunandi. En því verður ekki á móti mælt, að meðgöngutími Jaagziekte er 3–5 dagar, en ekki ár eða upp undir það. Þá er það ekki óverulegt atriði, að Jaagziekte hefir aldrei verið til á Þýzkalandi og er þar ekki enn. Ég sneri mér í sumar til prófessors dr. Theodors Oppermanns við háskólann í Hannover, sem er einhver helzti sérfræðingur Þjóðverja á sviði sauðfjársjúkdóma. Þessum manni skrifaði ég um ísl. sauðfjárveikina og sagði honum afdráttarlaust mína skoðun á henni, nefnilega, að sýkin væri það, sem á teknisku máli nefnist „Hæmorrhagisk septicæmi“ (Pasteur-ellosis oxium), sýki, sem er algeng á sauðfé og svínum um allan heim. Hér sé aðeins sú reginvilla framin, að 2. stig þeirrar sýki sé gert að nýjum og áður óþekktum sjúkdómi, m. ö. o., það primæra er látið heita öðru nafni, annar sjúkdómur, en það secundæra á svo að vera mæðiveiki. Ég hefi hér bréf frá prófessornum, dags. 3. sept., og þakkar hann mér fyrir upplýsingarnar. Hann var á ferðalagi, þegar hann fékk mitt bréf, en segir, að ef hann hefði fengið það nokkrum dögum áður, mundi hann hafa viljað koma til Íslands og kynna sér veikina af eigin sjón:

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp kafla úr bréfi hans á frummálinu, svo að hv. þm. megi heyra og sjá, að ég fer hér ekki með fölsk ummæli:

„Derartige Erkrankungen sind aber bisher in Deutschland nicht beobachtet worden. Die Annahme, dass die dortige Krankheit von dem aus Deutschland bezogenen Karakulbock eingeschleppt sein soll, dürfte nicht zutreffen. Ich bin mit Ihnen der Meinung, dass es sich um die chronisehe Form der hämorrhagischen Septicämie (Bipolarisinfektion) handelt.“

Þetta tekur alveg af skarið um, að veikin hafi aldrei verið í Þýzkalandi.

Það, sem hefir einna helzt styrkt fólk í trúnni á þeirri skoðun, að hér sé um nýjan sjúkdóm að ræða, eru hinar einkennilegu nýmyndanir í lungnablöðrunum. Þessum nýmyndunum hefir rannsóknarstofa háskólans haldið mjög á lofti og talið þær auðkennandi fyrir þennan sjúkdóm. Um þetta mikilvæga atriði hefi ég vottföst ummæli forstöðumanns rannsóknarstofunnar.

Þessar nýmyndanir sagði ég honum í fyrra vetur, að væri aðeins „Regeneration“, frumunýmyndanir á 2. stigi lungnabólgunnar til þess að bæta úr eða græða þær skemmdir á þekju lungnablaðranna eftir bólguna í þeim, sbr. holdsauka í sári, sem flestum mun kunnugt. Nú hefi ég haft tækifæri til þess að gera smásjárrannsóknir á lituðum sneiðum úr lungum sauðfjár, 4 og 5 mánuðum eftir að féð sýktist af „hæmorrhagiskri septicæmi“, og þessar nýmyndanir eru sjáanlegar hér og þar í lungnablöðrunum alveg eins og ég þóttist vita, að mundi vera, og megið þið nú sjá hér 9 slíkar litaðar sneiðar.

Af því, sem hér hefir verið sagt, verður að álykta, að mæðiveikin sé ekki sjálfstæður, nýr áður óþekktur sjúkdómur, heldur 2. stig eða „chroniska form“ sjúkdómsins „hæmorrhagisk septicæmi“, hvort sem þann sjúkdóm ber að kalla á íslenzku lungnabólgu, lungnapest eða lungnadrep.

Sjúkdómi þessum veldur gerillinn „Bacillus bipolaris ovisepticus“. Þennan geril er alstaðar að finna (ubiquitar). Lifir hann meira að segja meinhægu sníkjulífi í koki og öndunarfærum fjölda fjárins. En þverri mótstöðuafl líkamans eða að veiklun eigi sér stað af einhverjum ástæðum, t. d. slæmri húsvist, slæmu fóðri, slæmri hirðingu, ofkælingu, hrakningum o. s. frv.. eykst gerlinum sýkingarkraftur, svo að hann getur allt í einu breytzt úr sníkjujurt í sóttkveikju, og valdið þá þessari sýki, sem þá kemur í ljós sem bráð, miður bráð eða langæ sýki með aðalbreytingunum í lungum fjárins, og er sú lungnabólga með margskonar móti. Stundum ber lítið á sýki þessari, tekur þá fé á bæjum á stangli, drepur þetta 1–2 kindur, e. t. v. 5–10 á bæ. Á öðrum tímum æðir hún yfir heil byggðarlög eða sýslur sem skæð farsótt, og gjalda þá fjáreigendur afhroð mikið í missi fjárins. Það er þá ekkert óvanalegt, að 20–30–50% fara úr veikinni. T. d. drapst úr sýki þessari á Suðurlandi á tímabilinu júlí 1897 til maí 1898 um 1 milljón fjár.

Vísindamenn eru ekki sammála um næmleika eða smithættu í sambandi við veikina, en fleiri munu þó hallast að því, að hún sé smitandi, og þá helzt við návist og samöndun. M. ö. o., sýkin getur ekki talizt bráðsmitandi eða að stór vandræði eigi að geta stafað af smithættunni. Þrátt fyrir það, er alstaðar lögð áherzla á að sótthreinsa fjárhús eftir föngum, þar sem veikinnar verður vart, og að aðskilja sjúkt og grunað fá frá heilbrigðu.

Ýms meðul hafa gefið góða raun, en bezt og sjálfsögðust er ónæmisbólusetning (immunserum(bipolar-bakteriu-serum)).

Í grunuðum og sýktum hjörðum þarf að bólusetja heilbrigða féð, jafnvel það sjúka líka, og endurtaka bólusetninguna að nokkrum vikum liðnum með enn sterkara bóluefni, og með góðri hirðingu og nákvæmri hjúkrun hins sjúka fjár mætti takast að draga mjög úr dauðatölu fjárins af völdum sýki þessarar, og þessi er leiðin til að ráða niðurlögum „mæðiveikinnar“ svokölluðu, og önnur ekki.

Af því, sem sagt hefir verið, ætti hv. þm. að skiljast, að þær ráðstafanir, sem þing og stjórn hafa staðið að, eru næsta þýðingarlitlar, og því feikna fé, sem til þeirra hefir verið varið, hefir að mestu leyti verið á glæ kastað, og er ástæða til að vera framvegis varfærnari í fjáraustri í þessu máli en hingað til.

Frv. það, sem fyrir liggur á þskj. 368, er áframhald og afleiðing af fyrri ráðstöfunum til stuðnings og hjálpar þeim, sem hafa orðið fyrir barðinu á sýki þessari. Ég mun því ekki leggjast á móti málinu, því ég skoða frekar þá hjálp, sem þar um ræðir, sjálfsagða fyrir sakir þeirra að gerða hins opinbera undanfarið og því skylt að bæta fyrir sín eigin mistök í máli þessu.

Ég hlustaði eftir því í framsöguræðu hv. þm. Mýr., að hann falaði um þá miklu fækkun fjár í héruðum þeim, sem hér um ræðir, en hann vék líka inn á, að skýrslur í þessu efni væru óáreiðanlegar. Það er áreiðanlegt, að af því fé, sem talið er í þessum skýrslum, er ekki nema einstaka kind, sem drepst úr mæðiveiki. Að fjöldi fjár sé dautt, er áreiðanlegt, en það hafa ekki nema örfáar drepizt úr þessari „mæðiveiki“. Vegna þessarar gífurlegu fækkunar tala menn svo um nauðsyn á breyttum búnaðarháttum, menn eigi að hætta við sauðfjárrækt og auka kúabú. Þetta örþrifaráð er byggt á þeim ótta, sem búið er að koma inn hjá bændum.

Sem dæmi um, hvað þessar skýrslur eru óáreiðanlegar, skal ég segja frá atviki, sem fyrir mig kom þegar ég var á ferð um Austur-Húnavatnssýslu til að kynna mér þessa veiki í fyrra vetur. Þar var mér sagt, að ekki væri mikið um veikina, en í vestursýslunni, þar skyldi ég sjá veiki. Á einum bæ þar átti bóndinn að hafa misst um 60 kindur. En svo frétti ég að veikin væri horfin þaðan, svo þar var raunar ekkert fyrir mig að skoða.

Nú vildi svo til, að á leiðinni vestur á Hvammstanga hitti ég þennan bónda og spurði hann, hvort hann hefði misst svona margt fé úr veikinni. Já, hann sagðist hafa misst 64 kindur. Og hvernig hafði féð farið, spurði ég, hafði það fallið unnvörpum eða hafði það drepizt smátt og smátt. Hann sagði, að það hefði nú eiginlega engin kind drepizt; en það hefðu verið sendir skoðunarmenn til sín eins og annara, og þeir hefðu fundið svo og svo margar veikar kindur og grunsamlegar. Skömmu seinna var opnaður kjötmarkaður á Hvammstanga, og þá skar maðurinn þessar 64 kindur og seldi þar. Þetta dæmi mun að vísu einstakt, en víðar mun slátrun heilbrigðs fjár hafa átt sér stað, og það flotið með í sjúkratölunni.

Nú ætla ég, að menn skilji mína afstöðu í þessu máli. Ég hefi komið hér fram sem fagmaður og þykist hafa þau gögn fyrir hendi, að ég geti talað alldjarft um þetta efni.