15.12.1937
Neðri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

140. mál, mæðiveikin

*Þorsteinn Briem:

Ég ætla ekki að hætta mér inn á að tala um hina vísindalegu hlið þessa máls, eins og sá hv. þm., sem síðast talaði. Ég ætla aðeins að skjóta nokkrum aths. og fyrirspurnum til hv. flm. og frsm. landbn.

Fyrst ætla ég að biðja hæstv. forseta fyrirgefningar á, að ég skuli fara út í einstök atriði málsins, og vona, að hann leyfi það, þar sem það almenna markast nokkuð af því einstaka. Fyrst vildi ég biðja upplýsinga um 1. gr. a-lið. Mér skildist á hv. frsm., að greiðslur þær, sem þar er gert ráð fyrir að færu í vexti af veðlánum, væru nokkuð áætlaðar út í bláinn og mundu ekki nægja til allra veðlána bænda þeirra, sem þar eiga hlut að máli, en ég geri ráð fyrir, að n. hafi þó gert sínar rannsóknir í þessu efni, og vil ég óska, að hv. frsm. gefi mér upplýsingar samkv. þeim rannsóknum, svo að hægt sé að sjá, hvort ekki er átt við vexti af lánum, sem hvíla á jörðum og lausafé.

Viðvíkjandi b-lið 1. gr. vildi ég einnig gera nokkrar fyrirspurnir, og þá fyrst og fremst, hvort jafnframt þessu er ætlazt til, að framlag verði lækkað til sýsluvegasjóðs um nokkra upphæð, og þá einnig lækkun á þeim gjöldum, sem til þeirra renna á þeim svæðum, sem framlagið nær til. Ég spyr þessa vegna brtt., sem fram kom í hv. Ed., og ég velt ekki, hvort hv. stjórnarflokkar hafa gert samning um þetta sín á milli. Ég tel mikla nauðsyn á að veita fé í þessu skyni í þessum sýslum til að bæta upp þann atvinnumissi, sem tilfinnanlegur er orðinn hjá bændum á stóru svæði. Mér skildist á hv. frsm., að þessi hjálp, sem um ræðir í 1. gr., mundi ekki ná til þeirra bænda, sem eru bundnir við bú sín. Ég vil vekja athygli á því, að þessi hluti bændanna er útilokaður frá því að geta notað sér slíka atvinnubótavinnu, sem þar ræðir um fjárveitingu til. Eru það bæði eldri bændur, sem ekki eru vinnufærir til slíkra hluta, þó að þeir geti haft umsjón með búum sínum heima fyrir, en eiga ekki uppkomna syni til að taka þátt í þessari vinnu. Einnig vil ég benda á búandi ekkjur, sem ekki heldur eiga uppkomna syni til að vinna þetta. Á þetta ekki einungis við um vegavinnuna, heldur líka þau ákvæði, sem hér eru í 1. gr. um styrk til ræktunar. Ég vildi vekja athygli á þessu, því að bú sem þessi eru ekki betur á vegi stödd en önnur. Vildi ég skjóta þeirri fyrirspurn til hv. frsm., hvað n. hyggst að gera þessum búendum til aðstoðar, þar sem tveir aðalliðirnir ná ekki til þeirra.

Viðvíkjandi síðasta lið 1. gr. vildi ég gera fyrirspurn, þótt ég geri ráð fyrir, að ekki þurfi að vekja athygli á því, en orðalag þar er ekki allskostar nákvæmt. Þar er talað um, að greiða megi styrk til framræslu og túnasléttunar, er nemi allt að tvöföldum styrk, sem greiddur er til skurðagerðar og túnasléttunar samkv. jarðræktarlögum. Ég veit ekki, hvort átt er við með því að nefna skurðagerð sérstaklega auk framræslu, að þá eigi styrkurinn ekki að ná til lokræsagerðar. Hefði þurft að orða gr. nákvæmar, ef framræslustyrkurinn á einnig að ná til lokræsagerðar.

Má vel vera, að orðalagið hafi ekki verið athugað sem skyldi, og vildi ég því skjóta fram þessari aths.

Ég tel að öðru leyti vel farið, að stjórnarflokkarnir skuli hafa í samningum sín á milli ákveðið að vilja hafa samvinnu við stjórnir andstæðingaflokkanna um þetta mál, og vil ég telja það góðra gjalda vert, að þetta frv. er fram komið. og má vel vera, að ekki sé fært vegna fjárhags ríkisins að fara lengra í þessa átt en hér er gert, en ég vildi beina þessum aths. til hv. n. og vona, að hún taki þær til velviljaðrar athugunar, ekki sízt það, sem snertir eldri bændur og búandi ekkjur eða aðra þá bændur, sem ekki hafa aðstöðu til að nota sér þau hlunnindi, sem í b- og e-lið 1. gr. frv. felast.