18.12.1937
Efri deild: 52. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

140. mál, mæðiveikin

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Af því að ég geri ekki ráð fyrir, að þetta frv. fari til n., vil ég segja nokkur orð nú. Ég skal ekki fara í verulegum atriðum út í það að ræða sjúkdóminn sjálfan eða þær deilur, sem orðið hafa í sambandi við hann. Ég vil minna á, að fé fór fyrst að drepast af völdum þessa sjúkdóms veturinn 1934–1935, og þá á fáum bæjum. Var þá talið, að um lungnabólgu mundi vera að ræða. Haustið eftir varð veikinnar aftur vart á sömu bæjum. Voru þá gerðar ráðstafanir til að rannsaka hana nánar, og menn frá rannsóknastofu Háskólans voru sendir upp í Borgarfjörð. Fundu þeir, að þetta mundi vera ormaveiki, og reyndu að gera ráðstafanir til að hefta útbreiðslu hennar. En veikin breiddist út og það var ekki fyrr en í fyrrahaust, að menn komust að raun um, að þetta mundi hvorugur þessara sjúkdóma vera, og ég vil benda á, að þó að enn sé um deilt, hver sjúkdómurinn er, leit Alþingi svo á í fyrra, og ég vænti, að það geri það enn, að hvort sem um sé að ræða nýjan eða gamlan sjúkdóm, þá sé hann ekki útbreiddur nema í sumum héruðum, og því eigi að gera ráðstafanir til að hindra útbreiðslu hans til ósýktra héraða. Það hefir farið svo, að veikin hefir brotizt út á nær öllu svæðinu á milli Héraðsvatna vestur yfir og að Þjórsá og einnig út á Vestfirði. Útbreiðslan er misjöfn; stundum er veikin á hverjum bæ á stóru svæði, stundum á sumum bæjum aðeins. Fyrsta árið hefir venjulega drepizt fátt fé. annað árið um 30–40%, og þriðja árið drepst jafnvel um 60% af fénu. Á fjórða ári er því oft ekki eftir nema 30–40% af fénu. Og á stöku stað er ástandið miklu verra en það. Ég veit dæmi þess, að eftir eru 26 kindur af 200. Þetta kemur æðimisjafnlega niður á mönnum og vitanlega alverst þar sem svo hagar til, að atvinna manna byggist að mestu leyti á sauðfjárrækt. Sumstaðar er sauðféð svo að segja eina framleiðsluvara bænda; nokkrir hafa hrossarækt til viðbótar og selja hrossin á hinum árlegu mörkuðum, aðrir hafa kúarækt og koma mjólkurafurðum í verð. og enn aðrir hafa tekið upp refarækt nú á síðustu árum. Víðast er samt svo, að bændur geta ekkert selt úr búum sínum nema sauðfjárafurðir, og því er afkoma þeirra undir því komin, að þeir geti haldið lífinu í sauðfé sínu. Þeir bændur, sem svo er ástatt um á þessu svæði, eru hart leiknir af mæðiveikinni. Um einn veit ég, að hann átti 230 kindur, en á nú aðeins eftir 16. Þótt þetta sé e. t. v. einstætt dæmi, þá eru það margir þeirra, sem illa eru leiknir. Þessir bændur líta því með kvíða til þess, sem framtíðin kann að bera í skauti sér. Þeir vona, að þær ráðstafanir, sem hæstv. Alþ. gerði í fyrra og unnið hefir verið að að framkvæma síðan, bæði til að reyna að hefta útbreiðslu veikinnar og til að lækna hana, megi verða að haldi. Ennþá sjá þeir engan árangur af þessum ráðstöfunum, og þeir sjá enga leið til að framfleyta sér og sínum, þegar þeir hafa svo lítinn bústofn, að það er aðeins lítill hluti þess upprunalega, sem þá var ekki nema rétt aðeins nægilegur. Það verður að leggja fram fé til að hjálpa þessum mönnum, svo að þeir hrekist ekki frá búum sínum þau ár, sem verið er að hefta útbreiðslu sjúkdómsins, finna við honum lyf eða skera niður féð og fá annan bústofn að. Til að hjálpa þeim yfir þessi erfiðu ár er frv. þetta fram komið.

Margir fundir hafa verið haldnir með bændum á þessu svæði og hefi ég setið marga þeirra.

Þar hafa bændur sett fram það, sem þeim hefir dottið í hug að heppilegast væri til bjargar. Þær kröfur, sem fram hafa komið á þessum fundum, eru lagðar til grundvallar fyrir þessu frv., en þó hefir orðið að slá miklu af.

Þá er fyrst í 1. gr. fjárveiting til að greiða vexti af skuldum bænda á þessu svæði, sem þeir geta ekki greitt sjálfir. Er ætlazt til, að í þessu skyni séu veittar 150 þús. kr. á árinu 1938. Er það bundið við greiðslur fyrir menn, sem ekki hafa getað staðið í skilum á gjalddaga í haust. Nú er sennilegt, að margir hafi getað staðið í skilum þessi tvö fyrstu ár veikinnar, þar sem þeir hafa átt svo miklum stofni af að taka, en eftir tvö ár geta þeir það síður og haustið 1938 munn margir verða komnir á það stig, að þeir þurfa aðstoð hvað þetta snertir. Þeir ná líklega varla hundraði, sem voru komnir á þetta stig haustið 193 7, en þeir verða vafalaust miklu fleiri haustið 1938. Mönnum kann að þykja þessi upphæð lág. en það er eftir því, hvernig á hana er litið. Þetta var ákveðið af undirnefnd úr landbn. beggja hv. d., sem hafði fyrir sér, hve mikið bændur af þessu svæði þurftu að borga í vexti til kreppulánasjóðs, ræktunarsjóðs, Búnaðarbankans, Landsbankans og Útvegsbankans, en hinsvegar vannst ekki tími til að fá upplýsingar frá sparisjóðunum, en vitanlegt er, að nokkrar skuldir muni vera við sparisjóðina í Borgarnesi, Ásgarði, Blönduósi og Hvammstanga. Er þetta því ekki nema lítill hluti af heildarvöxtum, sem bændur þurfa að greiða. Út frá þessum upphæðum var áætlað, hvað hver bóndi myndi þurfa að greiða, og reynt að komast eftir, hvernig ástandið væri hjá hverjum og einum. Ég geri ráð fyrir, að þessi upphæð verði heldur of lág, en það er ætlazt til, að n., sem hafa á með höndum vaxtagreiðslur fyrir 1938, reyni að fá greiðslufrest á þeim vöxtum, sem upphæðin nægir ekki til að greiða, fram yfir áramót 1939, og getur það þá komið undir samskonar ráðstafanir, sem sennilega verður að gera einnig þá.

Þá hefir n. hugsað sér, að 110 þús. kr. yrðu veittar til aukavegalagninga, og er það gert til að skapa þeim mönnum atvinnu, sem hafa misst svo mikið af fé sinu, að ekki er ástæða fyrir þá að vinna eingöngu við bú sitt. Er þá ætlazt til, að þeir geti beitt þeirri vinnu, sem ekki þarf með á heimilinu, til að vinna í hreppa- og sýsluvegum, sem nálægt eru. Það væri skemmtilegast að afla öllum tekna á þennan hátt, en ekki með því að greiða fyrir þá vexti. En n. sá sér ekki fært annað en að taka báðar þessar leiðir.

Þá á að veita bændum í Reykholtsdal, þar sem mikið er um hverahita, lán til að byggja sér í félagi gróðurhús. Er hugsunin að styrkja þá að 1/3 stofnkostnaðar, en þó ekki yfir 5 þús. kr. Menn vona, að þeir geti aflað sér einhverra nýrra tekna með því, en þeir hafa allir, að einum undanskildum, misst mikið af fé.

Þá er heimild til að styrkja rjómabú að álíka miklum hluta og mjólkurbúin eru nú styrkt, og er ætlun manna, að með því megi skapa nokkrum mönnum utan mjólkursvæðis Reykjavíkur nokkra möguleika til að koma þangað mjólk frá búum sínum. Er verið að byggja eitt slíkt rjómabú í Húnavatnssýslu.

Í c-lið er gert ráð fyrir, að jarðræktarstyrkur til skurðagerðar og túnasléttunar á þessu svæði sé ankinn. Sennilegt er, að ekkert verði annars unnið að þeim jarðabótum á þessum svæðum, sem kostnaðarsamar eru, því bændur geta ekki keypt sér vinnu. Sennilega verða ekki byggð haughús eða hlöður og annað þess háttar; menn hafa heldur ekki fjármagn til að kaupa dráttarvélavinnu, en með þessum aukna styrk ættu menn að geta aflað sér 6–8 kr. dagkaups við að vinna sjálfir að framræslu og sléttun túna. Þar gengur sú vinna, sem ekki þarf til búsins. í að skapa verðmæti, sem síðar koma þeim til góða, sem taka við jörðinni. Ekki hefir verið áætlað, hve miklu þessi styrkur muni nema, en ég hygg, að það verði ekki miklu meira en það, sem ræktunarstyrkurinn lækkar vegna þess, hve möguleikarnir fyrir annari jarðræktarvinnu en þeirri, sem menn geta unnið að sjálfir og ekki kostar aðkeypt efni, verða minni nú en áður. Ímsum þykir illt, að ekki skuli hafa verið teknar upp sérstakar ráðstafanir vegna þeirra, sem ekki geta notfært sér neitt af ákvæðum 1. gr. Á ég þar við þær kringumstæður, að t. d. eldri ekkja með ung börn býr á jörð og skuldar lítið. Hún getur hvorki notið vaxtastyrksins eða jarðabótastyrksins. Því ber ekki að neita, að fyrir þessum heimilum liggur ekki annað en að fara á sveitina, en þar kemur á móti aukið framlag til jöfnunarsjóðsins, sem er í frv., sem nú er að verða afgr. frá hv. Nd., en þetta munu ekki vera nema örfáir einstaklingar, dreifðir um allt svæðið, sem svo stendur á með.

Í 2. gr. er gert ráð fyrir, að tvær nefndir fjalli um þetta mál. Önnur er heima í sýslunni, og eru tveir menn í henni, kosnir af sýslunefnd, og einn frá þeim hreppi, sem er til umr. í hvert sinn. Þessi n. gerir till. til n., sem skipuð er af ráðh. eftir tilnefningu landbn. Alþ. n. tekur á móti skýrslum undirn. og metur, hvort hver og einn hafi misst svo mikið, að honum eigi að hjálpa, og þá hve mikið. Jafnframt er heimild fyrir ráðh. að krefjast þess, að n. þessi hafi yfirumsjón með framkvæmd pestarvarnanna með höndum og geri till. um ráðningu framkvæmdarstjóra þeirra. Með þessu er heimilað, að sömu mennirnir sjái um þetta hvorttveggja, og álit ég það mjög heppilegt, því milli þeirrar n., sem úthlutar fénu, og framkvæmdarstjóra varnanna, þarf að vera mjög gott samkomulag og samvinna. Þá er gerð frekari grein fyrir, hvernig kostnaður við þessar n. greiðist, bæði til undirn. og hinnar.

Til tals kom, hvort ekki ætti að greiða fyrstu afborganir af lánum þessara manna, en niðurstaðan varð sú, að slíkt væri erfitt að setja í l., og varð því úr að setja heimild fyrir n. til að sækja um greiðslufrest, ef það væri nauðsynlegt.

Með þessu eru gerðar þær ráðstafanir, sem menn hyggja, að nægi til að bændur þurfi ekki að hrekjast af jörðum sínum vegna veikinnar og fara á vonarvöl árið 1938.

Ég vil undirstrika það, að þótt hæstv. Alþ. geti gert þetta í eitt eða tvö ár, þá er óhugsandi, að þessari stefnu verði haldið uppi viðvíkjandi þessu máli í tugi ára. Það kemur til kasta þess þings, sem kemur saman eftir áramótin, að finna nýjar leiðir, svo að bændur geti haldið áfram búskap sínum; það verður að finna ráð til að útrýma þessum sjúkdóm. Ég fylgi þessu frv. nú, af því að aðrar leiðir eru ekki sjáanlegar, en ég mundi ekki fylgja því, ef það ætti að koma aftur og aftur um margra ára skeið. Leyfi ég mér því hér með að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. Ég sé ekki ástæðu til að láta það fara til n. Sameiginleg undirn. úr landbn. beggja hv. d. hefir haldið um það tvo fundi, þar sem a. m. k. á öðrum fundum mættu allir, nm. auk hæstv. ráðh., svo n. er því vel kunnug. Þar að auki býst ég ekki við, að landbn. hefði mikinn tíma til að fjalla um málið hér eftir.