18.12.1937
Efri deild: 52. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

140. mál, mæðiveikin

*Magnús Jónsson:

Ég skal ekki fara að tala mikið um þetta mál, enda er ég því ekki eins kunnugur og margir aðrir hv. þm. Ég vil aðeins, áður en frv. fer með miklum hraða í gegnum þingið, láta í ljós undrun mína og óánægju yfir því, hvernig meðferð þessa máls er. Hér er um stórkostleg fjárframlög að ræða, e. t. v. hálfa millj. eða 800 þús., og þetta er næstseinasta þingmálið. Þetta er 140. mál, en hér er aðeins ein till. til þál„ sem er 141. mál. Svona stórt og víðtækt mál kemur í þinglok, og þó er ekki vafi á, að hér er um að ræða eitt útgjaldamesta og vandasamasta frv., sem fyrir þinginu liggur. Hér er ekki einasta verið að berjast við afardularfullan gest auk ráðstafana til stóraukinna fjárútláta. Ég verð að segja, að mér þykir nokkuð á vanta, þar sem í frv. er hvergi trygging sett fyrir því, að þetta fé verði ekki misnotað. Það er sýnilegt, að þegar á að dreifa út fleiri hundruðum þúsunda, þá verður að vera strangt eftirlit með því, að það komi réttlátlega niður og þar sem þörfin er. Það er að vísu gott, að menn úr sjálfum hreppunum og sýslunum sjái um úthlutunina, en ég held, að það hefði ekki veitt af, að sérstök n. ferðaðist um, öllum þessum úthlutunum óháð, sæi hvernig framkvæmdirnar væru og gæfi þar um nákvæma skýrslu. Hér er ekki lítill þungi lagður þeim á bak, sem eiga að úthluta þessu fé, og mjög verða þeir menn að hafa sterk bein, svo að allt komi niður þar, sem þörfin er mest. Ég sé hvergi neitt atriði í þess frv., sem tryggi, að þeir fái mest fé, sem fyrir þyngstum búsifjum hafa orðið og ekki geta haldið áfram búskap án þess að fá styrk, en ekki til þeirra, sem duglegastir eru að afla sér þess. Það er þetta, sem ég er hræddastur við.

Þetta frv. kemur þegar þing er að ljúka störf. um. Um það hafa orðið allmiklar umr. í Nd., en þm. Ed. eiga þess engan kost að fylgjast með í þeim vegna fundarhalda í sinni d. Þegar ég ætlaði að hlusta á umr. í hv. Nd., var ætíð, er ég kom í deildina, verið að deila um orsök þessarar veiki. En hvaða gagn er að því fyrir okkur við afgreiðslu þessa frv? Mér skilst, að hér sé ekki um neinar varnarráðstafanir gegn veikinni að ræða, heldur bjargráðaráðstafanir svo að menn flosni ekki upp.

Ég fyrir mitt leyti vil ekkert leggja til um n. Ég veit, að n. mundi ekki geta veitt málinu þá athygli, sem þyrfti, svo að gagn væri í, en þó væri helzt, að n. gæti tekið til athugunar það, sem ég nú hefi sagt, hvort ekki mundi vera hægt að setja inn í frv. frekari tryggingu fyrir réttlátri úthlutun. T. d. óháða eftirlitsmenn, sem gæti verið ríkisstj. til ráðuneytis og gefið skýrslur um, hvern árangur þetta virtist bera. Ég gæti hugsað mér, að n. athugaði þetta, án þess að gera brtt. við frv. að öðru leyti, því hér er um mikið fé að ræða, sem ástæða er til, að reynt sé að halda vel á.

Annars horfir málið öðruvísi við vegna þess, að þetta er ekki nema stutt jólafrí, sem þingið fer í, það kemur fljótt saman aftur og getur þá e. t. v. gert frekari athugun á frv., en ég vildi gera þessa aths. áður en málið fer burt úr hv. d. og þinginu.