21.10.1937
Neðri deild: 7. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

21. mál, bændaskólar

*Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þetta frv. eða frv. shlj. því lá fyrir síðasta þingi. Það var undirbúið af nefnd manna, sem kjörin var af ríkisstj. og í voru skólastjórar búnaðarskólanna. Frv. er að nokkru leyti endurskoðun á gildandi l. um bændaskóla, en þau eru frá því skömmu eftir síðustu aldamót. Aðalbreyt. frá gildandi l. er í því fólgin, að aukið skuli verklega námið til talsverðra muna. Auka skal verklega námið stórlega síðara árið, og sumarið á milli skólaáranna falla inn í kennsluna og fara þá fram verkleg kennsla. Þegar þau l., sem nú gilda, voru samþ., 1905 eða 1906, var aðallega gert ráð fyrir bóklegu námi, og lá sú ástæða til þess, að þá var yfirleitt lítið um skóla. Nú, þegar komnir eru á fót alþýðuskólar og gagnfræðaskólar víðsvegar um landið, er þörfin á bóklega náminu minni en áður, en þörfin aftur meiri á að auka verklega námið, sem verið hefir af skornum skammti. Með þessu frv. er reynt að bæta úr því, en auk þess eru í frv. 2 smábreyt., sem stafa af breyttri aðstöðu, sem sé, að skólabúin skuli rekin af því opinbera og að í landi skólajarðanna skuli heimilt að reisa nýbýli og bústaði fyrir kennara skólanna á kostnað ríkissjóðs.

Annars sé ég ekki ástæðu til að fara út í einstakar gr. frv. Grg. ætti að nægja til þess að skýra málið.

Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og landbn.