21.10.1937
Neðri deild: 7. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

21. mál, bændaskólar

*Stefán Stefánsson:

Herra forseti! Frv. það, sem liggur fyrir og flutt er af hv. þm. Mýr. og hv. 2. þm. Skagf., er mjög mikilsvert frv. Þar sem því er ætlað að leggja grundvöll að bóklegri og verklegri þekkingu bændastéttar landsins, er mikils um vert, að vel takist um undirbúning þess og frágang, ef það á að ná tilgangi sínum.

Í grg. frv., sem er nokkuð nákvæm, er þess réttilega getið, að kunnátta búfræðinga í verklegum efnum hafi verið af skornum skammti og þeir þess vegna notið lítils álits á meðal bænda, þar sem þeir þóttu kunna litlu meira til búnaðarstarfa en bændur, sem ekki höfðu gengið í búnaðarskóla. Ætlun frv. er nú að bæta úr þessu. Nemendur verða fyrst og fremst að öðlast þá verklegu þekkingu, að þeir séu færir um að leiðbeina bændum; því aðeins fá menn traust á skólunum og því aðeins finna æskumenn hjá sér hvöt til þess að sækja þá. Og þá fyrst verður þetta frv. spor í þá átt að takmarka flóttann úr sveitunum til kaupstaðanna.

Ef við lítum á frv. í heild, kemur fyrst til athugunar, hvort það nær þeim tilgangi, að auka þekkingu nemenda á verklegum efnum að verulegu leyti. Eins og hv. þm. sjá, er gert ráð fyrir 3 missira námi, en námsgreinafjöldinn skiptir tugum. Það er því ljóst, að á svo skömmum tíma muni ekki vera hægt að auka verklegu þekkinguna mikið. Það kann að vera um einstaka nemendur, sem skara fram úr, en hér verður að miða við fjöldann, en ekki við einstaka afburðanemendur. Ef frv. yrði óbreytt að l., er það trúa mín, að svo verði hér eftir sem hingað til, að þeir, sem útskrifast af bændaskólunum, skari ekki fram úr öðrum bændum að verklegum störfum, en þetta má ekki svo vera. Ég vil því tilkynna, aðallega landbn., að ég mun við 2. umr. þessa máls koma fram með brtt., sem aðallega verða í því fólgnar, að í stað 3 missira náms komi 2 ára nám, þannig að nemendur fái 2 sumur til verklegs náms. Enda þótt mörg búnaðarstörf, eins og t. d. búfjárhirðingu og meðferð alidýra, megi kenna á vetrum, þá hygg ég ekki, að bændaefni fái frekari þekkingu en nauðsynleg er, þó að þeir hafi 2 sumur til verklegs náms.

Þá mun ég einnig flyt ja brtt. um framhaldsdeild við Hvanneyrarskólann. Er sú deild aðallega hugsuð þeim mönnum, sem síðan taka að sér ýmis trúnaðar- og ráðunautsstörf fyrir búnaðarfélögin. En á þessu stigi málsins sé ég ekki ástæðu til þess að koma frekar inn á það atriði.

Ef við berum nú saman þetta frv. og gildandi 1. um sama efni, eru breyt. mjög litlar. Að vísu er verklegt nám aukið nokkuð. Hinsvegar er föstum kennurum fækkað úr 3 í 2. Því vil ég breyta. Ég sé ekki ástæðu til að fækka kennurum um leið og kennsla á að verða fullkomnari en hún áður var. Launagreiðslur eru bættar, og er það sjálfsagt.

Verði frv. nú að l., verður þess ekki langt að biða, að lagt verði fram frv., sem tryggi fullkomnari þekkingu í verklegum efnum en ná er kostur á, og það frv. mun koma fram af sömu ástæðu og þetta frv. er fram komið.