01.11.1937
Neðri deild: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

21. mál, bændaskólar

*Bjarni Ásgeirsson:

Ég vil segja hér nokkur orð, aðeins til áréttingar því, sem hv. frsm. talaði um síðast. Ég held, að ég hafi af nm. haft einna minnsta trú á þessa framhaldsdeild, sem verið er að leggja til, að komið verði upp við bændaskólana. Að vísu var þetta mál rætt á síðasta búnaðarþingi og samþ. að leggja til, að þessi deild verði sett á stofn. Ég var mjög andvígur þeim skoðunum, sem komu fram, og þrátt fyrir atkvgr. og umr. varð ég aldrei sannfærður um, að nein slík knýjandi nauðsyn væri á þessari deild, og ég gat ekki verið að hverfa frá þeirri skoðun minni, þrátt fyrir það, þó að atkvgr. í þeirri vitanlega virðulegu stofnun færi eins og hún fór. Að vísu er rétt, eins og tekið var fram, að full þörf er á því, sérstaklega fyrir þá, sem eiga að vera leiðandi meðal bænda, að þeir eigi kost á framhaldsnámi fram yfir það, sem skólarnir geta veitt. En ég vil halda fram, að það sé bezt og ódýrast og komi að meiri notum, að þeir fái þessa framhaldsmenntun við erlenda búnaðarháskóla. Því það, sem frv. fer fram á, er ekkert annað en vísir að búnaðarháskóla, vísir, sem fyrst og fremst kæmi að mjög litlu liði vegna þess, að það vantar hér alla þá undirstöðu, sem þarf til að byggja á landbúnaðarháskóla, sem á nokkurn hátt yrði sambærilegur við þær stofnanir, þar sem Íslendingar almennt sækja nám sitt. Og til þess námstíma er lagt til, að varið sé 2 árum, einu við framhaldsdeild og öðru við erlent húnaðarháskólanám, og þá vantar ekki nema eitt ár á það, sem krafizt er um fullkomið búnaðarháskólanám. Og þá held ég fram, að svo mikill vinningur sé að fá . háskólanám við erlenda háskóla fram yfir það, sem hér er farið fram á í frv., að það sé þess vert að verja einu ári í viðbót. Ég skal játa það, að það verður dýrara fyrir þá menn, sem námið stunda, að taka búnaðarháskólanám erlendis, en þetta, sem frv. fer fram á. En ég er sannfærður um, að í heild fyrir þjóðfélagið verði það ódýrara. Því fremur sem sú stofnun — ef hún er þá nokkuð annað en nafnið tómt — kostaði of fjár, bæði stofnkostnaður og árlegur rekstrarkostnaður. Það væri miklu betra að verja nokkrum hluta af því fé, sem til deildarinnar færi, til þess að styrkja unga og efnilega menn til náms erlendis. Og sérstaklega þegar það er athugað, hversu mikil þörf það er fyrir Íslendinga, sem langt eru á eftir flestum öðrum þjóðum í öllum greinum búnaðar, hversu mikil nauðsyn er að gefa mönnum kost á því að kynnast því bezta í hinum ýmsu búnaðargreinum og búvísindum erlendra þjóða, til þess að flytja það hingað til okkar. Í öðru lagi, að þeir búnaðarháskólar, sem við eigum kost á að sækja erlendis, eru stofnanir, sem standa á gömlum merg, þar sem hægt er að framkvæma og kynna sér búvísindi á þann fullkomnasta hátt, sem þekkist í heiminum; og að bera það saman við slíka — ég vil enn taka það fram — kákvísindastofnun sem þetta yrði í náinni framtíð, það er fjarstæða. En ég er viss um, að það græða allir aðiljar, bæði hið opinbera, sem á að verja fénu til námsins, og þeir, sem námsins ættu að njóta, ef það er sótt til erlendra háskóla. Og ég hygg, að það sé mjög hægt á skömmum tíma, og þegar vel á vegi með það, að fá búvísindafróða menn erlendis frá, til þess að taka að sér þau trúnaðarstörf í landbúnaðinum, sem þessum mönnum er ætlað að standa fyrir, og má þá gera ráð fyrir viðbótarnámskeiðum í íslenzkum búnaðarskólum. Sérstaklega er hér um að ræða héraðsráðunauta Búnaðarfélags Íslands. Það eru ekki margir, sem þörf er á fyrst um sinn í þær stöður, og þegar þeir menn, sem nú eru á búnaðarháskólum erlendis, hafa lokið námi, þá hygg ég, að ekki vanti mjög marga menn til þess að taka að sér þau störf, sem bíða þeirra sem búnaðarráðunauta.

Ég held, hvernig sem verður þráttað um þetta. að ekki sé hægt að sannfæra mig um, að bezta og ódýrasta kennslu sé hægt að veita íslenzkum búnaðarfrömuðum gegnum þá deild, sem frv. fer fram á að stofna og starfrækja með ærnum kostnaði, — heldur en að veita aukinn styrk til íslenzkra nemenda, sem vilja nema við erlendar vísindastofnanir,