04.11.1937
Neðri deild: 19. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

21. mál, bændaskólar

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Landbn. flytur 3 brtt. við þetta frv. á þskj. 90. Ég gat þess við 2. umr., að komið hefðu fram tilmæli frá skólastjórum bændaskólanna um tvær brtt. við frv., en ekki fyrr en gengið hafði verið frá nál.

Önnur þessara till. er við 5. gr. frv. og er í því fólgin, að í stað þess sem í frv. er gert ráð fyrir að bókleg kennsla skuli vera 15. okt. til 30. apríl, þá er þetta stytt í brtt. og lagt til, að bóklegu námi ásamt prófi skuli vera lokið um miðjan apríl. Þessa er óskað af því, að það þykir seint vegna ýmissa vorstarfa að geta ekki byrjað á þeim fyrr en í maíbyrjun. Þess vegna þykir hentugra, að bóklegum störfum sé hætt um miðjan apríl.

Ég skal geta þess, að ekki voru nema þrír nm. mættir, svo að hinir hafa vitanlega óbundin atkv. um brtt.

Þá er hin brtt., sem er við 8. gr., og 10. gr. í sambandi við hana. Í frv. eins og það er nú er gert ráð fyrir því, að skólabúið selji nemendum fæði, en að ekki sé um mötuneyti að ræða. Þetta ákvæði var sett í frv. með það fyrir augum, að eðlilegt væri, þar sem nemendur eiga að hafa frítt uppihald seinni hluta námstímans. að þeir fengju þessi fríðindi hjá skólabúinu, en hefðu ekki mötuneyti sér. Nú hafa komið tilmæli frá skólastjórum bændaskólanna, að heimilt væri að hafa mötuneyti, ef það þætti hentugra. Þessi brtt. stefnir að því, að hægt sé að hafa mötuneyti, ef hentugra þykir. Er það á valdi skólastjóra og nemenda, hvor skipunin er höfð.

Þetta eru þá þær brtt., sem gerðar eru samkv. óskum skólastjóra bændaskólanna. Að lokum er svo smávægileg orðabreyt., sem ekki þarf að tala um; hún raskar ekki meiningunni, en færir til betra máls.

Ég þarf svo ekki fleira að segja um þetta að sinni.