24.11.1937
Efri deild: 34. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

21. mál, bændaskólar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Þetta frv., sem komið er til þessarar d. frá Nd., gerir allverulegar breyt. á l. um bændaskóla frá því, sem þau nú eru. Þegar bændaskólarnir voru fyrst reistir hér á landi fyrir og eftir 1890, þá voru þeir reistir eftir norskri fyrirmynd. Skólarnir voru amtskólar, námstíminn tveir vetur og sumur, og námið því bæði verklegt og bóklegt, og skólarnir gengu yfirleitt vel. En um aldamótin fara þeir Páll Briem amtmaður og Sigurður Sigurðsson siðar búnaðarmálastjóri, að vinna að því, að verklega námið sé lagt niður, og 1902 var þetta gert við Hólaskóla, sem þá var amtsskóli, með Pál Briem sem æðsta yfirboðara. Þessi breyting var vafalaust gerð eftir danskri fyrirmynd, en þar hefir einungis verið kennt bóklegt nám, nema í Næsgaard búnaðarskóla, sem rekinn er eftir sérstakri skipulagsskrá og starfar með fé af gjafasjóði og er öllum óháður. Milliþinganefndin í landbúnaðarmálum, sem m. a. Þórhallur biskup Bjarnarson átti sæti i, lagði til 1904, að landið ræki tvo bændaskóla og að kennslan í þeim væri eingöngu bókleg. Frumvarp þeirra varð að lögum 1905 og var þá strax tekið við Hólaskóla, en ekki við Hvanneyri fyrr en 1907, og stóð mest á afhendingu frá amtinu, sem var tregt til að afhenda skólann vegna breytingarinnar á kennslunni. Ólafsdalsskólinn lagðist niður, en Eiðaskóla var siðar breytt í alþýðuskóla.

Ekki höfðu skólarnir lengi starfað eftir hinum nýju lögum, þegar ýmsum fór að finnast verklega námið lítið. Skólastjórarnir fundu þetta, og var þá farið að halda námsskeið við skólana — oftast sex vikna — að vorinu, og þar kennt að plægja, herfa o. s. frv. Þessi námskeið hafa síðan verið smáfullkomnuð, og þó ekki þótt nóg. Fyrsta frumv. þm. Mýr. var að auka verknámið við skólana, og síðan hefir æ verið að því keppt, þó smátt hafi gengið. En með þessu frv. er sporið stigið fullt og skólarnir aftur færðir í sama formið og þeir voru frá stofnun þeirra og til 1905.

Þeir eru gerðir verklegir og bóklegir og ætlazt til, að skólabúin verði rekin af ríkinu, sem áður var bara heimild. Mundu bú þessi jafnframt verða rekin sem fyrirmyndarbú. Breyt., sem n. leggur til, að gerðar verði á frv., eru óverulegar, og n. er sammála um þær, nema einn nm., sem skrifar undir nál. með fyrirvara. Flestar brtt. eru einungis orðabreyt., en þær till., sem fela í sér efnisbreyt., eru brtt. sem snerta 4. gr., en þar leggur n. til, að tekið verði fram atriði, sem staðið hefir áður í l. og skemmtilegra er að falli ekki burt, en það er um, að skólastjóri hafi aðalumsjón með nemendum, húsum og áhöldum.

Þá kemur brtt. við 5. gr., sem er aðeins orðabreyt. Aftur á móti felur brtt. við 6. gr. í sér dálitla efnisbreyt. Í gr. er það sett sem inntökuskilyrði á bændaskólana, að nemandinn hafi unnið við landbúnað a. m. k. 2 ár eftir 12 ára aldur. Það virðist vera ýmislegt, sem getur mælt með þessu, og n. fann ekki ástæðu til að fella það niður. Hinsvegar getur aðstaðan verið þannig, að það séu menn úr kaupstöðum, sem ekki hafa unnið að landbúnaðarstörfum, en gjarnan vildu sækja þessa skóla. Þannig hefir þetta verið undanfarin ár og þess vegna leggur n. til að það sé sett í l. a. m. k. heimild til að hægt sé að veita þessum mönnum inntöku í skólana. Aðrar brtt. n. eru eins og ég sagði einungis orðabreyt., og tel ég óþarft að fara út í þær sér. staklega. N. leggur til, að frv. verði samþ. með þessum breyt., en einn nm. hefir gert fyrirvara, og er hann bundinn við 4. brtt. við 6. gr., sem ég lýsti áðan.