24.11.1937
Efri deild: 34. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

21. mál, bændaskólar

*Jón Baldvinsson:

Þetta frv. mun hafa einhvern meiri og frekari kostnað í för með sér heldur en þau l. sem nú eru í gildi. Að sumu leyti kemur þetta ekki öðruvísi fram heldur en þannig að bæta verður við fé í fjárlögum. Væri annars fróðlegt að heyra álit landbrh. á kostnaðarhlið málsins. Ég er ekki að spyrja um það af því, að ég telji ekki að það geti verið nauðsynlegt að auka starfsemi bændaskólanna, heldur af því. að mér fyndist skemmtilegra að fá að vita eitthvað um þessa hluti áður en frv. yrði samþ. Fyrirvari minn undir nál, er þó meira bundinn við 6. gr. frv., sem ég get ekki orðið sammála meðnm. mínum um. Í 6. gr. er það gert að skilyrði fyrir inntöku í bændaskólana, að umsækjandi hafi unnið að landbúnaði a. m. k. í 2 ár eftir að hann varð 12 ára. Við þessa gr. er brtt. frá meiri hl. n., um að skólastjóra sé heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði. Nú verður að taka það til íhugunar, að það er tiltölulega stutt síðan bæir mynduðust hér á landi og fólkið þyrptist saman í kaupstöðunum, að mikill hluti af íbúum bæjanna er úr sveit. Nú er ekki gerandi ráð fyrir að þetta fólk fari að flytja aftur til sveitanna, en það getur komið fram hjá niðjum þess, að þá langi til að flytja aftur til sveitanna. Á þetta vildi ég ekki að lögð yrðu nein höft, ekki einn sinni að skólastjóri ætti að veita undanþágu frá þessu ákvæði. Allir vita, hvað mikil vandræði eru að atvinnuleysinu í kaupstöðunum. Það er því full nauðsyn á að gera einhverjar þær ráðstafanir, sem geta komið í veg fyrir þá spillingu, sem leiðir af atvinnuleysi unglinga í kaupstöðunum. Nú veit ég fyrir víst, að það er margt ungt fólk í kaupstöðunum, sem hefir áhuga fyrir landbúnaði, enda er það ekki nema eðlilegt að svo sé, þar sem feður og mæður þessa fólks hafa ef til vill alið allan sinn aldur í sveit. Og það eru dæmi til, að ýmsir ungir menn hafi flutt sig aftur til sveitanna og reynzt þar dugandi menn til jafns við þá sem aldir eru upp á sveitaheimilum. Ég vil ekki setja neinar hömlur við því, að þessir ungu menn geti fengið inngöngu í bændaskólana. Og þó að skólastjóranum yrði veitt heimild til að veita undanþágur, þá yrði reglan samt sem áður sú, að meiri hlutinn yrði frá að hverfa. Ég mun við þessa umr. bera fram skrifl. brtt. í þá átt, að b-liður 6. gr. verði felldur niður og stafliðirnir breytist eftir því.