24.11.1937
Efri deild: 34. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

21. mál, bændaskólar

Þorsteinn Þorsteinsson:

Tveir síðustu ræðumenn hafa tekið fram nokkuð af því, sem ég ætlaði að minnast á, en ég vil strax taka það fram, að ég tel hina skrifl. brtt. frá hv. 10. landsk. vera frekar til ógagns en gagns. Ég álít mjög heppilegt fyrir þá, sem í bændaskóla fara, að þeir hafi hlotið þann undirbúning, sem tiltekinn er í b-lið 6. gr. frv., að hafa unnið landbúnaðarstörf í 2 ár eftir 12 ára aldur, því slíkur undirbúningur gerir þeim námið léttara og skiljanlegra og hægari þá vinnu, sem fyrir kann að koma og þeim ber að vinna í skólanum. Og ef þetta er sett í almennum reglum, að nemandi skuli hafa unnið 2 ár í sveit áður en hann fer í skólann, þá mundi það verða til þess, að kaupstaðarbúar, er senda vildu pilta í skólann, létu þá vera í sveit áður þennan tiltekna tíma, a. m. k. yfir sumartímann; þannig mundu kaupstaðarpiltarnir siður dragast aftur úr við námið, svo að þetta ætti að geta orðið bæði skólunum og nemendunum til góðs.

Að öðru leyti er ég n. sammála um sínar brtt.