24.11.1937
Efri deild: 34. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

21. mál, bændaskólar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Ég hefi litlu að svara þessum umr. Eins og ég hefi sagt áður, tel ég það skipta litlu, hvað ofan á verður með þessa brtt. Ég vil þó aðeins minnast á þrjú atriði.

Í fyrsta lagi er það svo í framkvæmdinni, að umsóknum um skólavist á búnaðarskólunum, sem nú eru farnar að byrja að berast fyrir næsta skólaár, er svarað eftir þeirri sömu röð og þær koma. Ég er ekki í minnsta vafa um, að kaupstaðapiltunum er svarað eins og sveitapiltum, ef þeir hafa sín gögn í lagi. Skólastjórinn tekur þá nemendur, er sækja í tæka tíð. Hann á það ekki á hættu að vísa þeim frá, sem uppfylla skilyrði skólans, því hann vill hafa skólann fullsetinn og setur sig ekki úr færi með það. Reglan verður því hin sama og verið hefir, að skólavist verður veitt eftir þeirri röð, er menn sækja um, svo höftin, sem talað er um, eru lítil, ef þau eru þá nokkur. Í öðru lagi, þessum skólum er ætlað að veita bændastéttinni undirbúningsþekkingu í sínu lífsstarfi. Til þess að geta betur tileinkað sér það, sem skólarnir hafa að bjóða, er nemendunum nauðsynlegt að hafa tileinkað sér sem mesta reynslu og þekkingu á undirstöðuatriðum námsgreinanna, og eftir því er verið að seilast í b-lið 6. gr. Slík skilyrði sem þar eru langt frá því að vera óvenjuleg við skóla. Ég held meira að segja, að við alla sérfræðiskóla sé það gert að skilyrði, að nemendur hafi fengið tiltekna undirbúningsþekkingu og reynslu í þeirri grein, sem skólinn starfar að. Hvernig er það t. d. með stýrimannaskólann? Ætli landkrabbi, sem aldrei hefir komið á sjó, fái þar inntöku? Ég held ekki, og svo er það með alla sérfræðiskóla. Þá er sagt, að þessi brtt. hv. l0. landsk. eigi að vera til þess að beina fólksstraumi úr kaupstöðunum í sveitirnar. Nú eru bændaskólarnir tveir, og þeir útskrifa árlega samtals 40 til 50 nemendur. Ætli það yrði skriða, sem kæmi upp í sveitirnar um þetta hlið? Í þessu tilfelli skiptir þessi brtt. því engu og er nánast hlægileg, sérstaklega þegar undanþága er til í frv. Hinsvegar er mér ekki fast í hendi með þessa till. Það mun verða svo eftirleiðis sem hingað til, að skólarnir verða sóttir af sveitapiltum. Undanfarið hafa útskrifazt af búnaðarskólunum þetta 1 til 2 kaupstaðarnemendur á ári, og þeir munu eftirleiðis fá undanþágu. Mér liggur því í léttu rúmi, hvort fyrirkomulagið samþ. verður. En þegar verið er að ræða um skóla, sem á að veita sérfræðimenntun, þá verður að gilda sú aðalregla um undirbúning nemenda, sem tryggir það, að þeir eigi hægt með að tileinka sér kennsluna sem bezt, en undanþágan sem undantekning fyrir þá nemendur, sem þurfa hennar með.