09.12.1937
Efri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

21. mál, bændaskólar

*Jón Baldvinsson:

Hv. frsm. málsins hefir mælt fyrir frv. eins og það kemur frá hv. Nd. Liður, sem var felldur hér niður með nafnakalli um daginn, hefir aftur verið tekinn upp. Hv. þm. taldi þetta skipta litlu máli, þar sem skólastjóri gæti gert undanþágu. En við ræddum þetta hér í d. um daginn, og varð ljóst, að þarna er sá meginstefnumunur, hvort það eigi að útiloka pilta úr bæjum og kauptúnum frá því að sækja búnaðarskólana.

Við skulum líta á þá hættu, sem í þessu liggur. Við vitum, að í kaupstöðum og kauptúnum búa nú 60–70 þús. manns, og lítið meira en þriðjungur þjóðarinnar stundar landbúnað. Nú er ekki um annað meira talað en það, hvernig hægt væri að flytja eitthvað af fólkinu aftur til sveitanna. Þetta er eitt af mestu vandamálum þjóðfélagsins, að fólkið hópast saman á svo litlum blettum, að það er ómögulegt að sjá því fyrir atvinnu, þegar atvinnugreinarnar eru þá líka í því ástandi, sem þær eru. Við skulum taka til dæmis Reykjavík, sem hefir 36 þús. íbúa, og fjölgar árlega. Ef stærsti atvinnuvegurinn, sem hér er, sjávarútvegurinn, bíður hnekki, þýðir það, að fjöldi fólks lendir á framfæri þess opinbera á einn eða annan hátt; það verður að halda því uppi með atvinnubótum eða styrkjum á einhvern veg. Þessu verður ekki kippt í lag á stuttri stund, en þróunin verður að stefna í aðra átt að ýmsu leyti. — Nú er talað um að setja upp bændaskóla, þar sem kaupstaðapiltum er ekki leyft að komast að. Skólastjóri gæti — svo að ekki sé sterkar að orði kveðið — talið sér óheimilt að víkja frá 2 ára dvalarskilyrðinu nema aðalatriði liðsins, um minnst 2 ára æfingu við almenn landbúnaðarstörf í sveit, væri fullnægt. Þá þýðir það útilokun. Hv. 1. þm. N.-M. heldur náttúrlega, að 2–3 nemendur á ári skipti ekki miklu, þeir geri enga breyt. á atvinnuháttum. Við hv. þm. þurfum ekki að þrátta um það; við þekkjum hvor annars rök. Ég álít, að kaupstaðirnir eigi að taka upp meiri ræktun og margháttaða framleiðslu í sambandi við hana. Þá er varla úr vegi að sjá um, að í kaupstöðunum séu einhverjir menn til, sem hafa lært til slíks. Þó að sleppt sé öllum bollaleggingum um það, að fólkið flytjist aftur úr kaupstöðunum, er þetta stórmál samt. — Er þá lokun bændaskólanna skynsamlegt ráð til að vekja áhuga kaupstaðapiltanna? Þeir geta átt áhuga á ræktun, og það í ríkara mæli en sveitapiltar.

Mér finnst því, að 6. gr. verði að breyta, eins og brtt. mín fer fram á, og fella niður b-liðinn, en liðatalan breytist samkv. því. Ég efast um, að breytingin hefði verið gerð í hv. Nd., ef nægileg rök hefðu verið borin fram gegn henni þar. Mér er kunnugt um, að ekki voru allir á fundi í landbn. Nd., þegar frv. var afgr. (PZ: Það er rétt). Og við samþykkt þess í deildinni er engu líkara en brögðum hafi verið beitt. Málið var tekið í annari röð en það stóð á dagskrá, og voru fáir á fundi. Allt sýnist mér benda til þess, að ekki hafi þótt traustur málstaðurinn og því verið reynt að hafa einhverja fljótaskrift á afgreiðslunni. En ég get fullyrt, að gegn þessum lið er megn andstaða í hv. Nd., þó að hún kæmi litið fram. Ég mælist því til þess, að till. mín verði samþ., og tel hana ekki skipta nærri því eins litlu máli og hv. 1. þm. N.-M. vildi vera láta.