18.12.1937
Neðri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

28. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

Finnur Jónsson:

Ég sé, að fjhn. hefir lagt til, að þetta mál verði samþ. óbreytt. En hinsvegar verð ég fyrir mitt leyti að líta svo á, að það sé ekki rétt að láta þetta frv. ganga fram mótmælalaust, þar sem verið er að gefa einu bæjarfélagi sérréttindi til þess að taka tekjur, sem öðrum bæjarfélögum eru ekki gefin, jafnframt því, sem verið er að afgr. l. frá Alþingi um sérstaka tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög. Ég fæ ekki skilið, hvaða sérstöðu þessi kaupstaður á að hafa umfram aðra til þess að fá slíkan tekjustofn sem hér er farið fram; nema jafnframt sé tekið fram, að Vestmannaeyjakaupstaður eigi ekki heldur að hafa rétt til að notfæra sér þá almennu heimild, sem öðrum kaupstöðum er gefin. Það er með þessu frv. verið að gera upp á milli kaupstaðanna, að mínu viti á alveg óhæfilegan hátt frá hálfu hæstv. Alþingis. Það kann að vera afsökun fyrir þingmenn, að kaupstaðurinn hefir haft þessa sérstöðu áður. En ég segi fyrir mitt leyti, að ég hefi á undanförnum þingum verið á móti því að gefa einstökum kaupstöðum sérstöðu í því að afla sér tekna umfram aðra kaupstaði. Og ég mun þess vegna verða á móti þessu frv. á þessu þingi, eins og ég hefi verið á undanförnum þingum. Það er því meiri ástæða nú en áður til að vera á móti frv., þar sem Alþingi er nú að uppfylla kröfur, sem lengi hafa verið uppi, að koma á sérstökum tekjustofnum fyrir bæjarfélög yfirleitt. Og mér er ómögulegt að skilja, hvers vegna fjárhagsnefndarmenn einmitt jafnhliða því, að verið er að afgr. frv. um heildartekjur kaupstaðanna, leggja með frv. um að veita þessum eina kaupstað sérréttindi umfram aðra. Ég vil spyrja hv. frsm. n., í hverju þetta getur legið, að nefndin tekur þessa sérstöðu gagnvart Vestmannaeyjum.