06.04.1938
Efri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

46. mál, samvinnufélög

*Jónas Jónsson:

út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að hætt væri við, að það ætti að tryggja með l., að SÍS geti neitað fél., sem um er að ræða, um viðskipti, til þess að svipta það atkvæðisrétti, vil ég minna á það, að eins og ástandið hefir verið, hefir SÍS verið að reyna að hálpa þessu kaupfélagi. Þetta félag hefir engan gjaldeyri, og er ekki hægt að lasta það fyrir það, en eingöngu fyrir vernd Framsfl. hefir það fengið nokkurn gjaldeyri. Ef hv. 1. landsk. hefði haft einhver áhrif í þessu landi, þá hefði í fyrsta lagi ekkert kaupfélag verið til, og í öðru lagi hefði þetta félag alls ekki fengið þann stuðning. sem það hefir notið. En Sambandið verður auðvitað fyrst og fremst að hugsa um sín gömlu félög, sem leggja því til gjaldeyri. Sambandið hefir teygt sig til þess að hjálpa Kron fram yfir það, sem það hefir getað. Brtt. er því, fyrir utan að vera vitleysa, líka ranglæti.

Út frá því, sem hv. 1. þm. N.-M. hélt fram, að verið væri að breyta Sambandinu í hlutafél., hygg ég, að aðrar sterkari viðjar muni halda því á réttum grundvelli en brtt. hv. þm. Hv. þm. veit, að það, sem hann fordæmir hér, hafa kaupfélögin leyft sér um langan tíma. Við skulum taka t. d. K. E. A. og svo eitt minnsta félagið, Kaupfélag Fljótamanna, að athuga fulltrúatölu þeirra. Þá sést, að K. E. A. hefir hlutfallslega miklu færri fulltrúa. Þetta hefir alltaf verið svo. Ef ætti að fylgja höfuðreglunni út í yztu æsar, mundu stóru félögin hafa margfalt atkv. magn á við það, sem þau hafa.

Það eru reyndustu og hyggnustu menn þessa félagsskapar, sem að l. standa, og við kunnum því illa, þegar kommúnistinn í d. hefir við orð að reka forstöðnmann Kron úr Kommfl., ég vildi raunar, að hann vildi gera það, því að það er blettur á þeim mæta manni, að hann skuli vera í Kommfl. —, svo illa þolir hann, að forstjórinn vill vinna vel fyrir félagið. En hv. 1. landsk. er auðvitað álitinn hreinn óviti í þessum efnum, nema hvað hans till. eru vísbending um, hvernig ekki eigi að fara að.

Ég álít þessar umr. heppilegar til þess að gera það ljóst, að við framsóknarmenn höfum verndað þennan vísi að samvinnufélagsskap, en við ætlum sannarlega ekki að láta þann visi fyrirskipa okkar neitt um það, hvernig samvinnufélagsskapur eigi að vera. Það er vitað, að Kommfl. óttast samvinnufélögin hér á landi, af því að hann í sinni spillingarstarfsemi hefir alstaðar rekið sig á, að þar, sem hann mætir samvinnumönnum, hefir hann minnstan skaða getað gert og lítil áhrif haft. Þess vegna er þetta ekki í fyrsta skipti, sem það kemur til orða á Alþingi, að þetta fámenna flokksbrot og lítilfjörlega fái að vita sitt algerða þýðingarleysi. Og þó að við kunnum að hafa hjálpað þessum mönnum að einhverju litlu leyti, þá er það ekki af því, að við vitum ekki, hvers konar fólk kommúnistar eru.