06.04.1938
Efri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

46. mál, samvinnufélög

Einar Árnason:

Það er aðeins örstutt aths. Hv. 1. þm. N.-M. var að gera samanburð á viðskiptum bænda og kaupstaðarbúa, og hann komst að þeirri niðurstöðu, að viðskipti kaupstaðabúanna væru meiri. Ég hefði gaman af því að vita, hvaðan hv. þm. hefir þetta? Ég hefi nokkuð margra ára reynslu í þessu í Kaupfélagi Eyfirðinga. Þar eru 600–800 félagsmenn frá Akureyri og svo bændur. Og ég get sagt hv. þm. það, að honum er óhætt að koma norður og skoða viðskiptabækurnar, og hann mun ganga úr skugga um það, að viðskipti bæjarbúanna eru miklu minni en bændanna. Ég held, að hv. þm. gleymi einhverju af þeirri úttektarvöru, sem bændur fá svo mikið af núna, t. d. fóðurbæti, áburði o. fl. Þetta hleypir viðskiptunum mikið upp. Reynsla okkar þar norður frá fer því algerlega í bág við þessar staðhæfingar hv. þm. N.-M. um viðskiptamagn bænda og kaupstaðarbúa.