02.05.1938
Sameinað þing: 23. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

1. mál, fjárlög 1939

*Emil Jónsson:

Herra forseti, góðir hlustendur! Mér þykir rétt að gera með nokkrum orðum grein fyrir afstöðu Alþfl. til núverandi hæstv. ríkisstj., því að þótt hún sé að mörgu leyti öllum kunnug, svo að ég þarf ekki að eyða löngum tíma í það, þykir mér rétt á þessum eldhúsdegi, þegar ætlazt er til, að stjórnmálaflokkarnir geri upp sínar óskir við ríkisstj. frá sínum bæjardyrum, að fara nokkrum orðum um það, hvers vegna afstaða Alþfl. til hæstv. ríkisstj. er með þeim hætti sem hún er.

Það er enginn vafi á því, að við síðustu Alþingiskosningar ætluðust bæði kjósendur Alþfl. og Framsfl. til þess, að samvinna gæti tekizt á milli flokkanna á svipuðum grundvelli og verið hafði, þannig að tryggt væri með opinberum aðgerðum, eins og geta ríkissjóðs frekast leyfði, að atvinnuvegir landsmanna gætu haldið í horfinu, nýjar tilraunir til framleiðslu og atvinnuaukningar yrðu studdar og hinar opinberu framkvæmdir ríkissjóðsins hafðar eins miklar og mögulegt væri, sérstaklega með hliðsjón af því, að þær gætu tekið við sem flestum af þeim vinnufúsum atvinnuleysingjum, sem hvergi hefðu getað komizt að við framleiðslustarf þjóðarinnar. Samtímis yrði þó þess einnig gætt, að fjárlögin yrðu afgreidd tekjuhallalaus og það eftirlit haft með rekstri þjóðarbúsins í heild, sem verið hefir að undanförnu í gegnum gjaldeyris- og innflutningsnefnd, að ekki yrði flutt meira inn af varningi heldur en við hefðum efni á að greiða. Að öðru leyti yrði fyrirkomulagið á stjórnarsamvinnunni einnig í svipuðu formi og verið hefir, sem sé í fæstum orðum sagt, að ríkisstj. ræki það sem kallað hefir verið frjálslynd umbótapólitík.

Okkur alþýðuflokksmönnum hefir verið það ljóst frá upphafi, að þetta er engin framkvæmd okkar höfuðmála, — engin framkvæmd sósíalismans í þeim skilningi, sem í það her að leggja, en með hliðsjón af þeim hættum, sem yfir vofa, með hliðsjón af þeim fréttum sem stöðugt berast utan úr heimi um vaxandi gengi einræðisstefnanna, og með alveg sérstakri hliðsjón af þeim einræðistilhneigingum, sem bólað hefir á hér heima, teljum við sem ábyrgur stjórnmálaflokkur óforsvaranlegt að freista ekki samvinnu við þann af hinum stjórnmálaflokkunum, sem þó a. m. k. tryggir það bezt — þó að ekki sé sýnt, hvort hann tryggir það nægilega —, að einræðis- og íhaldsöflum sé haldið í skefjum í þessu þjóðfélagi, eins og á Norðurlöndum.

Það hefir verið gæfa Norðurlanda, að samvinna hefir þar tekizt milli verkamanna og bænda, og á þann hátt fyrst og fremst hefir tekizt að standa á móti þeim einræðisöldum, sem risið hafa yfir heiminn á síðustu misserum, og ég veit, að það muni einnig reynast svo hér, ef Framsfl. ber gæfu til þess að hlusta ekki um of á þann „leiðslu-töfrasöng“ íhaldsins, sem kunnugt er, að ýmsir þar í flokki hafa nokkuð lagt kolihúfurnar við. Með samvinnu þessara flokka hefir líka tekizt að tryggja meiri opinbera íhlutun um atvinnurekstur landsmanna öllum almenningi til góðs heldur en á nokkurn annan hátt hefði getað tekizt. En það er kunnugt, að bæði Sjálfstfl. og Bændafl. eru mjög á móti þessari íhlutun. Ég man ekki, hvort það var við síðustu eldhúsumr. eða fyrr, sem hv. þm. Dal. taldi þessa opinberu íhlutun ofstjórn og jafnaði til óstjórnar, en víst er um það, að hugarfarið hefir hvorki þar né hjá Sjálfstfl. breytzt til hins betra, síðan það var sagt, svo að þeir eru eins nú eins og fyrr — tilbúnir til þess að afnema þessa íhlutun, hvenær sem þeir geta höndum undir komizt.

Niðurstaðan af þessum lauslegu hugleiðingum mínum verður þess vegna sú, að Alþfl. taldi óforsvaranlegt að freista ekki enn, hvort takast mætti að halda áfram samskonar eða svipaðri stjórnarsamvinnu og verið hefir undanfarið, þar sem það væri langsamlega sá bezti kostur, sem alþýða landsins til sjávar og sveita ætti völ á, eins og nú er ástatt. Eðlilegast hefði auðvitað verið, að samvinnan hefði getað orðið eins og áður, þannig að Alþfl. hefði sinn mann í ríkisstj., en með því stökki, sem Framsfl. tók út undan sér í gerðardómsmállnu, var það ómögulegt. Alþfl. gat ekki þá, og gelur ekki enn, unað því, að kaup og kjör verði ákveðin með gerðardómi. Hann bauðst til að vera með eftir atvikum og samkomulagi og flutti frv. um, að kaupið yrði í sérstökum tilfellum ákveðið með lögum, eins og kunnugt er, en á því og gerðardómnum telur flokkurinn höfuðmun í „principinu“. Þetta vildi Framsfl. ekki, því að eins og menn muna, kaus hann heldur að hlusta á töfrasöng íhaldsins og komst við það tækifæri svo nærri íhaldsbakkanum, að það var eingöngu fyrir það, hvernig Alþfl. tók á þeim málum, að ekki hlauzt verra af fyrir alla alþýðu þessa lands, en þar sem bæði hefir verið mikið um þennan ágreining milli Alþfl. og Framsfl. rætt og ritað, og ég vænti þar að auki, að á það mál verði minnzt af þeim ræðumönnum Alþfl., sem síðar tala, skal ég ekki fara nánar út í það.

Það verður ekki skilizt svo við þetta mál, afstöðu Alþfl. til Framsfl., að ekki sé minnzt á afstöðu Kommfl. til þeirra mála um leið — og þá auðvitað einnig hv. 3. þm. Reykv., Hv., því að hann er eins og kunnugt er, genginn þeim alveg á hönd. Í orði krefjast þeir samvinnu allra vinstri flokka í landinu, og þar með líka samvinnu við Framsfl., en á borði haga þeir þannig sínum vinnubrögðum, að slík samvinna er óhugsandi. Í orði telja þeir, alveg eins og við alþýðuflokksmenn gerum, að höfuðáherzluna beri að leggja á að vinna gegn hinni yfirvofandi einræðishættu og að aukningu atvinnuveganna í landinu, en á borði draga þeir fram, hvenær sem þeir sjá sér færi á, þau ágreiningsmál, sem þeir geta fundið upp til þess, að öruggt sé, að til þessarar samvinnu geti ekki komið, sem þeir vilja vera láta með vörunum, því að það er vitað, að raunverulega vilja þeir hana ekki, heldur eingöngu sundrung Alþfl. Framkoma kommúnista í þessum málum er því nákvæmlega eins og í sameiningarmálunum við Alþfl. — Þeir láta skina i, að þeir vilji samkomulag, tala um það, kjósa nefndir í það — ekkert nema pólitískt herbragð til þess að reyna að tæla til fylgis við sig þá, sem ekki þekkja þá betur en það, að þeir trúa, að þeim sé alvara. Á þennan hátt hefir tekizt að fleyga úr Alþfl. nokkurn hóp manna, en þeim fjölgar nú óðum, sem fá augun opin fyrir þessu herbragði þeirra og sjá, að allt samningaskraf þeirra er ekkert annað en yfirskin til þess að sölsa menn yfir í sinn flokk, og að sameining við þá er ekki möguleg nema á kommúnistiskum grundvelli — það hafa þeir sýnt — enda benda allar líkur til þess, að annað sé þeim óheimilt fyrir húsbændum sínum í Rússaveldi. Framsfl. hefir þá einnig marglýst yfir því, að samvinna við þann flokk geti ekki komið til greina frá þeirra hálfu. Samruni Alþfl. við Kommfl. eða náin samvinna eða samstarf við hann af okkar hálfu á kommúnistiskum grundvelli, sem er sá eini grundvöllur, sem legið hefir fyrir frá þeirra hálfu hingað til, hlyti því óumflýjanlega að leiða til samvinnuslita við Framsfl. En þessi gundvöllur er hingað til það eina, sem kommúnistar hafa fengizt til að tala um sem samningsgrundvöll.

Okkur alþýðuflokksmönnum hefir verið fundið það til foráttu stundum, að við gengjum furðu langt til samkomulags við Framsfl., að við værum of eftirgefanlegir við Framsfl., og þetta er að nokkru leyti rétt — við höfum teygt okkur svo langt til samkomulags, sem við höfum frekast séð okkur fært. En af hverju höfum við gert það? Vegna þess að við erum og viljum vera ábyrgur flokkur, flokkur, sem kjósendur okkar geta treyst til þess að freista ávallt að fá það bezta mögulega út úr ástandinu á hverjum tíma og út úr hverju máli þeim til handa. Það er ólíkt þægilegra að vera andstöðuflokkur ríkjandi stj., flokkur, sem setur fram kröfur og ber fram óskir, sem að vísu eru æskilegar, en fyrirsjáanlegt er, að ekki muni ná samþykki þingsins. Það er ólíkt hægara að standa upp og bera fram kröfur, berja höfðinu við stelninn og undirstrika svo, hversu miklir íhaldsmenn andstæðingarnir séu, heldur en að reyna á hverjum tíma að ná því bezta mögulega, sem auðvitað fengist ekki, án þess að eitthvað sé slegið af í einstökum tilfelum.

Þetta er í stuttu máli mismunurinn á afstöðu Alþfl. og Kommfl. í þessu efni. Alþfl. hefir valið sér það hlutskipti að koma fram sem heilbrigður flokkur, en Kommfl. sem óheilbrigður flokkur eingöngu í pólitísku sérhagsmunaskyni. við viljum með þessari stefnu okkar sýna, að bresti samkomulagið við Famsfl., þá er það ekki vegna þess, að við höfum ekki viljað ganga til móts við þá — það höfum við sannað. Þetta þurfa kjósendur beggja flokkanna, Alþfl. og Framsfl., að athuga mjög vel.

Þessi samvinna, sem hefir tekizt milli Alþfl. og Framsfl., er eingöngu til bráðabirgða og ótímabundin, eins og kunnugt er. Hvort framhald fæst á þeirri samvinnu eða ekki, veltur mjög mikið á því, hvernig samstarf tekst í þeim mþn., sem ýmist hafa verið skipaðar eða er verið að skipa nú í stærstu og mest aðkallandi vandamálum þjóðarinnar. Á ég þar við mþn. í bankamálum, sem áður hefir verið skipuð, mþn. til að rannsaka hag og rekstur togaraútgerðarinnar, sem nýlega hefir verið samþ. að skipa og bráðum tekur til starfa, og mþn. í skatta- og tollamálum, sem sjálfsagt einnig verður sett og mun taka til starfa á næstunni. Eftir því, hvernig samstarfið við Framsfl. tekst í þessum n., sem fara með stærstu og þýðingarmestu mál þjóðarinnar og koma til með að segja afgerandi orð um þau, fer það, hversu langt og hversu lengi Alþfl. og Framsfl. geta fylgzt að.

Þó að ég hafi nú varið nokkrum tíma til þess að skýra afstöðu Alþfl. til hæstv. ríkisstj. — og geri ég það sérstaklega í tilefni af þeim breytingum, sem þar hafa átt sér stað nú nýlega, af þeim ástæðum, sem ég hefi lýst — þá fer ekki hjá því, að umr. á eldhúsdegi eins og þessum snúizt fyrst og fremst að því, sem liðið er, og þeim ávirðingum, sem stjórnarandstæðingar telja sig geta fundið ríkisstj. til foráttu. Ég mun því nokkuð snúa mér að því, sem fram kom í ræðum þeirra hv. þm., sem hér hafa talað í kvöld, og því, sem þeir hafa haft fram að flytja, vegna þess að við alþýðuflokksmenn erum stuðningsmenn ríkisstj. Þessar ræður voru sérstaklega athyglisverðar, og einkum tvær þær fyrstu.

Hv. þm. Snæf. flutti ræðu, sem ég vænti, að bæði hv. þm. og hv. útvarpshlustendur hafi getið gaum, því að tónninn í henni var ósvikinn íhaldstónn, og hann var svo virðingarlaus og skeytingarlaus um hag landsfólksins, að hann talaði um „hina svo kölluðu“ neytendur úti um byggðir landsins, og hann fann þá einu og beztu lausn til þess að breyta um á Alþ., að fækka þm. Hann hóf ræðu sína á því, að það væri farið að slá skugga á ljóma Alþ., og orsökina til þess taldi hann þá, að það væri um of háð Alþýðusambandi Íslands, og ráðið til þess að ráða bót á því áleit hann fyrst og fremst, eins og ég sagði, að þm. yrði fækkað. Ég vil nú benda hv. þm. og öðrum hlustendum á, hversu þröngt og afturhaldssamt íhaldssjónarmið það er, að vilja ekki hlusta á þær raddir, sem frá Alþýðusambandi Íslands koma, þar sem saman eru komnir fulltrúar allrar alþýðu landsins til skrafs og ráðagerða. Það hefir ekki oft komið fyrir, að þingstörf Alþ. hafi tafizt vegna þess, að það hafi þurft að bíða eftir störfum Alþýðusambands Íslands, en þó að það hefði þurft að bíða 1–2 daga, þá tel ég það ekki eftir. Ég teldi það ekki eftir, þó að fulltrúar þjóðarinnar hér þyrftu að biða 1–2 daga til þess að hlusta á raddir fólksins, sem þeir ættu að reyna að leggja sér á minni og breyta eftir. Þarna eru tvö sjónarmið. Annarsvegar er sjónarmið þeirra, sem vilja ástunda lýðræði í landinn, og hinsvegar einræðissjónarmiðið, sem engu vili skeyta nema því, sem formælendur þess segja fyrir.

Þá minntist hv. þm. á skatta og tolla og sagði, að þeir hefðu aukizt mjög í tíð núverandi ríkisstj., og hann vissi vegna hvers. Hann sagði, að það stafaði af því, að ríkisstj. og sérstaklega Framsfl. hefði verið í vondum félagsskap. Það var frá sósíalistum, sem þessi ógæfa stafaði, þeir voru svo dýrir í rekstri, eins og hann orðaði það. Við skulum nema staðar við þetta augnablik og líta á, hvernig sosíalistar eru dýrir í rekstri og á hvern hátt þessi hv. þm. vill minnka útgjöld ríkissjóðs? Vegna hvers hafa fjárl. hækkað? Vegna hvers hafa skattar, bæði beinir og óbeinir, verið hækkaðir að nokkru? Fyrst og fremst til þess að auka atvinnuna í landinu. Þeir hafa verið hækkaðir fyrst og fremst til þess að geta komið á móti óskum hins atvinnulausa fólks um það að rétta dálitla hjálparhönd, þegar neyðin var stærst. Þeir hafa verið hækkaðir til þess að geta stofnað til stórfelldra trygginga, til þess að geta hjálpað bæjarsjóðunum til þess að standa undir sínum þörfum og útgjöldum í sama augnamiði.

Þetta er það, sem hv. þm. Snæf. kallar, að sosíalistar séu dýrir í rekstri. Og hvert var svo ráðið? Bótin er sú, sagði hv. þm., að losa sig við sosíalista og áhrif þeirra á ríkisstj., og hvernig verður þá umhorfs á fjárl.? Það getið þið hlustendur reiknað út eftir þessum orðum hv. þm. Breytingin yrði sú, að fjárl. mundu ef til vill eitthvað lækka, en á hvern hátt? Með því að draga úr opinberum útgjöldum ríkissjóðs til atvinnubóta, með því að draga úr opinberum gjöldum til styrktar og tryggingar alþýðunni í einn eða öðru formi. Þetta er það, sem hann vill. Bæði þessi hv. þm. og hv. 4. landsk., sem síðastur talaði, minntust nokkuð á skuldir ríkissjóðs, og án þess ég ætli nokkuð að hlaupa í kapp við hæstv. fjmrh., sem að sjálfsögðu mun svara hér til saka, vil ég, vegna þess að báðir þessir hv. þm. vitnuðu til álits skipulagsnefndar atvinnumála, hafa hér yfir kafla úr því áliti, sem einmitt sýnir, hvernig skuldirnar við útlönd hafa myndazt og hvað þær voru orðnar miklar, áður en núverandi hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Því hefir sí og æ verið haldið fram, að skuldasöfnunin við útlönd hafi aldrei verið meiri en í tíð núverandi stj. Þetta er rangt, og þeir sem þessu halda fram, vita, að það er rangt. Þegar gerður er samanburður á öllum skuldum ríkisins við útlönd nú og áður, þá er ekki farið lengra en til ársins 1927, eða eins og hv. síðasti ræðumaður gerði, aðeins til ársins 1933. En sannleikurinn er sá, að ef maður les þetta niður í kjölinn, þá sér maður, að skuldasöfnunin við útlönd er miklu eldri og hefir verið mynduð á tiltölulega örskömmum tíma fyrir einum 20 árum. Vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa upp örlítinn kafla úr áliti skipulagsnefndar:

„Ekki eru til samstæðar heimildir um skuldirnar við útlönd eldri en frá árinu 1922. En af ýmsum heimildum má gera sér nokkurn veginn ljóst, hvenær og hvernig þær hafa myndazt. Í árslok 1914 voru erlendar skuldir ríkissjóðs 2727 þús. kr. og Reykjavíkurbæjar 1235 þús. kr. eða alls 3962 þús. kr., en þá áttu bankarnir inni erlendis 1812 þús. kr., og skuldir einstaklinga og stofnana erlendis geta eigi hafa verið mjög miklar. Árin 1915 og 1916 var verzlunarjöfnuður hagstæður, enda jókst þá innstæða bankanna erlendis og var orðin 7035 þús. kr. í árslok 19l6, en erlendar skuldir ríkisins og Reykjavíkurbæjar höfðu staðið í stað frá því 1914. Eimskipafélag Íslands hafði þá að vísu stofnað allmikla skuld erlendis, en þó má fastlega gera ráð fyrir, að í árslok 1916 hafi skuldir erlendis eigi verið meiri enn innstæður. En með árinu 1917 skiptir um. Árin 1917–22 var verzlunarjöfnuðurinn óhagstæður um 27,2 millj. kr. öll árin, en „duldar greiðslur“ hafa verið 5–6 millj. kr. á ári, eða lítið eitt minni en siðar varð. Allar erlendu skuldirnar í árslok 1922 hafa myndazt á þessum 6 árum, 1917–22“.

Þær eru þá orðnar um 60 millj. kr.

Á 6 árum safnar þjóðarbúið við útlönd um 60 millj. kr. skuld. Og þetta er að mörgu leyti skiljanlegt, það er eðlileg afleiðing af stríði og kreppu. En af þessu er það augljóst, að það er ekki rétt, að megnið af erlendu skuldunum hafi myndazt á síðustu árum. Skuldasöfnunin er miklu eldri. Svo gengur hún upp og niður á árabilinu frá 1922, kemst í stjórnartið Sjálfstfl. niður í 39 millj., og 1928 voru skuldirnar um 43 millj. Á þessum árum, sem siðan eru liðin, hafa þær svo vaxið upp í það, sem þær nú eru. Þetta sýnir betur en nokkuð annað, hversu fáránlegt er að halda því fram, að skuldasöfnun ríkissjóðs sé tiltölulega ný.

Hv. þm. Snæf. minntist á, að gjaldeyrisjöfnuðurinn væri óhagstæður og ekki hefði tekizt að koma honum í lag. Ég skal játa, að þetta hefir ekki tekizt eins vei og æskilegt væri. En menn beri saman hvernig hann er þó með 6–7 millj. kr. óhagstæðum verzlunarjöfnuði og hvernig hann mundi hafa verið, ef ekki hefði verið tekið til neinna þeirra ráðstafana um innflutningshöft og annað þar að lútandi, sem beitt hefir verið af núverandi stjórnarflokkum. Hv. þm. vissi, hverju þarna var um að kenna. Hann sagði: .,Mun þar um valda ágengni vildarvina hæstv. ráðh. og gjaldeyrisn., hinna svo kölluðu neytenda í landinu. „Hverjir eru það, sem hann talar hér til með þessari fyrirlitningu. Ég hygg, að hann hafi ekki áttað sig fyllilega á því, hvað hann var að segja, og að þeir verði nokkuð margir þessir „svo kölluðu neytendur“, eins og hann orðaði það.

Hv. þm. lauk máli sínu með því að leggja til, að bönnuð yrði starfsemi kommúnista í landinu. Ég býst við, að þetta sé aðeins byrjunin, síðar verði aðrir flokkar bannaðir, AIþfl. sjálfsagt, og kannske fleiri, þar til hv. þm. og hans flokksmenn hafa fengið sínum einræðiskenndum fullnægt. Yfirleitt bar ræða þessa hv. þm. vott um miklu meiri einræðishneigð og hroka en ég hafði búizt við, að hann mundi leyfa sér að bera fram í útvarpið, fyrir alla „hina svo kölluðu neytendur“ þessa lands. Og ráðin, sem hv. þm. kunni við ástandinu, sem hann taldi ekki gott, voru, að banna ákveðna flokksstarfsemi í landinu og taka þannig upp einræði í takmörkuðu formi og hindra samvinnu Alþfl. við Framsfl. til þess að losa Framsfl. við þessa menn, sem höfðu verið svo dýrir í rekstri og heimtað fé handa sínum mönnum, þegar þeir gátu ekki lengur staðið sjálfir undir sinni eigin framfærslu.

Um ræðu hv. 1. landsk. þm. get ég verið fáorður. Hann sá þrjú ráð sjávarútveginum til hjálpar. Í fyrsta lagi vildi hann gera lítilsháttar stjórnarfarsbreytingu á Landsbankanum. Það kann að vera, að þetta væri til nokkurra bóta, en ég sé ekki, að á því velti allt.

Þá talaði hv. þm. um, að þeir vildu fá ábyrgð á 750000 kr. til vélbátakaupa. Ég veit ekki betur en allir þingfl. hafi orðið sammála um, að breyta l. um fiskimálasjóð, og eykur það mjög þá möguleika, sem útvegsmenn hafa til að stækka flota sinn. Allir þrír aðalflokkar þingsins hafa undanfarin ár borið fram frv. um breyt. á fiskimálasjóði, hver á sinn hátt. Þau hafa nú verið sameinuð í eitt frv., sem gengur mjög til móts við óskir okkar alþýðuflokksmanna, t. d. að veita meira fé út á þá báta, sem smíðaðir eru hér á landi, heldur en hina, sem fengnir eru erlendis frá.

Í þriðja lagi taldi hv. þm. það höfuðnauðsyn, að útvegsmenn fengju nægilegan aðgang að gjaldeyri, til þess að þeir gætu losnað undan okurvaldi auðhringanna, sem lægi þyngst á útgerðinni. Ég þykist vita, að þar sem þeir hafa nú eignazt einn fulltrúa fyrir slíkan auðhring, geti þeir komið sér saman við hann um það mál, og öfunda ég þá ekkert af því.

Hvað snertir atvinnubótaféð, til verkamannabústaða og aukinna vitabygginga, sem hv. þm. var að tala um, er það að segja, að þetta er ekkert annað en yfirboð, fyrir það, sem við höfum náð samkomulagi um við Framsfl. Það er alveg sama, hvað við hefðum náð samkomulagi um, þeir hefðu alltaf komið með meira til þess að hindra samstarfið milli þessara flokka, því að það hefir æfinlega verið aðeins í orði hjá þeim, en aldrei á borði.

Hvað hafa svo þessir hv. þm. að flytja? Hvaða ávirðingar hafa þeir helzt fundið á ríkisstj.? Ég hefi rætt það nokkuð. Hv. þm. Snæf. vildi innleiða einræði í takmarkaðri mynd til að byrja með, losa Framsfl. undan áhrifavaldi alþýðunnar í landinu. Hann telur eftir, að Alþingi biði einn eða tvo daga til þess að hlusta á ráð fólksins, hann vill ríkja og ráða einn. Þetta er hans boðskapur.

Boðskapur kommúnistanna var yfirboð, og ekkert annað, sem gert er í pólitískum tilgangi, en ekki til þess að gagna almenningi í landinu, sem þeir ættu að vera umboðsmenn fyrir.

Við hv. 4. landsk. þm. hefi ég litið að segja. Hann talaði eingöngu um sérmál landbúnaðarins, sem ég mun ekki að þessu sinni blanda mér inn í, nema sérstakt tilefni gefist.