02.05.1938
Sameinað þing: 23. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

1. mál, fjárlög 1939

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti, góðir Íslendingar!

Ég þarf, eins og þið hafið heyrt, bókstaflega engu að svara vegna minna stjórnardeilda, og því verður ræða mín nokkuð almennt svar við þeim árásum, sem stjórnarandstæðingar halda uppi gegn ríkisstjórninni, sem í aðalatriðum eru þessar.

1. Að fjárlögin séu svo há, og eyðslan svo mikil, að það sé ríkinu um megn.

2. Að starfsmannahald ríkisstjórnarinnar sé óhóflegt og launin of há.

3. Að gjaldeyrismálunum hafi verið illa stjórnað.

4. Að sjávarútvegurinn hafi verið vanræktur, og loks

5. Að þingstörfin gangi seint og illa.

Þegar almenningur á að dæma um þessar árásir, dæmir hann fyrst og fremst út frá því, hvort betur mundi hafa verið stjórnað, ef stjórnarandstæðingar hefðu farið með völdin.

Um 1. atriðið, að fjárlögin séu of há og eyðslan of mikil, má þegar á það benda, að þörfin fyrir framlög til atvinnulífsins hefir verið meiri þessi 4 ár heldur en nokkurntíma á undanförnum árum. En jafnframt hefir verið ríkari þörf fyrir verklegar framkvæmdir vegna þess, hve atvinnulifið hefir við a dregizt saman sökum fjárkreppunnar. Stefna ríkisstjórnarinnar hefir verið sú, að reyna að gera þetta tvennt: að halda uppi verklegum framkvæmdum, eftir því sem hægt hefir verið, til að draga úr atvinnuleysinu, en jafnframt að reyna að efla atvinnulifið og gera það fjölbreyttara með fjárframlögum til þess og með því að veita þeim gjaldeyri, sem til hefir verið, fyrst og fremst til framleiðslunnar, og þá ekki sízt til iðnaðarins, sem hefir aukizt stórkostlega á þessum árum. — Afleiðing þessa hefir orðið sú, að fjárlögin hafa orðið allhá, en reynslan hefir líka orðið þannig, að enginn þingmanna Sjálfstfl. hefir getað bent á neinn verulegan lið í fjárlögum, sem ætti að fella niður; svo rík hefir þörfin verið fyrir þau fjárframlög, sem í fjárlögum hefir verið ákveðin. Hinsvegar hafa sjálfstæðismenn komið fram með till. á undanförnum þingum um fjárframlög, sem numið hafa millj., og það svo, að tekjuhallinn á fjárlögum 1937 hefði orðið meiri en 4 millj. kr., ef farið hefði verið eftir till. þeirra. Meðal annars ber einn af þm. Sjálfstfl. fram till. um að hækka atvinnubótaféð eitt úr hálfri milljón í heila milljón. Sjálfstæðismenn geta því sízt allra ásakað okkur framsóknarmenn fyrir há fjárlög, því að okkar barátta á undanförnum þingum hefir verið í því fólgin að halda aftur af Sjálfstfl. og koma í veg fyrir, að sá flokkur kæmi því til leiðar, að fjárlög yrðu ennþá hærri. Þetta er í samræmi við stjórn Sjálfstfl. á Reykjavíkurbæ, þar sem öll útgjöld hafa hækkað tiltölulega miklu meira en útgjöld ríkissjóðs. Ég skal játa, að fjárlögin eru há, og það væri ákjósanlegra, að þau gætu verið lægri, en öll rök liggja til þess, að þau mundu sízt hafa verið lægri ef Sjálfstfl. hefði stjórnað, heldur hið gagnstæða, og er þá dæmt út frá staðreyndum einum um bæjarstjórn Reykjavíkur og framkomu flokksins hér á Alþingi.

Þá er því haldið fram, að starfsmannahaldið sé of mikið og launin of há. Ég neita því ekki, að það væri æskilegt, að hægt væri að fækka opinberum starfsmönnum. En það er þó í fyrsta skipti, síðan núverandi ríkisstjórn tók við völdum, að samin hefir verið starfsmannaskrá og fjvn. gefið tækifæri og aðstaða til að fylgjast með starfsmannafjölgun og launum starfsmanna betur en nokkurntíma hefir áður tíðkazt. Með beinum sköttum hefir verið tekinn kúfurinn ofan af hæstu laununum, og launin hafa víða lækkað frá því sem var. Í stofnunum, þar sem sjálfstæðismenn ráða, eins og t. d. Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, voru til skamms tíma 3 framkvæmdastjórar, sem höfðu samtals 63 þús. kr. í laun. en þeir munu nú hafa 54 þús., og skrifstofustjórinn þar var með 15 þús. kr. laun. Forstjóri Eimskipafélagsins hefir vist 24 þús. kr. árslaun. Hjá bænum hafa sumir æðstu starfsmennirnir haft um 20 þús. kr. í laun. Þetta er framhald af því, þegar þeir réðu bankastjóra Íslandsbanka á sínum tíma með 40 þús. kr. árslaun og forstjóra áfengisverzlunarinnar með I8 þús. kr. laun. Hjá bænum og í stofnunum, sem Sjálfstfl. ræður yfir, hefir verið hrúgað saman fleiru af starfsfólki en dæmi eru til í öðrum opinberum stofnunum, samanber alla fátækrafulltrúana hjá bænum og skiptingu á embættum til þess að koma fleiri mönnum að. Það hljómar því næstum eins og Sjálfstfl. sé að gera skop að sjálfum sér, þegar hann kemur fram með aðfinnslur við ríkisstjórnina út af þessum málum, því að það hefir engin stjórn gert meira að því að jafna laun manna en núverandi stjórn. Hefir hún þar eins og við ar leiðrétt margskonar misrétti, er voru leifar frá því, að Sjálfstfl. hafði stjórnað.

Þær aðfinnslur, sem oftast eru þó fram bornar, eru út af gjaldeyrismálunum, og eru þær tvennskonar. Í fyrsta lagi telja stjórnarandstæðingar, að innflutningshöftunum hafi verið beitt ranglátlega; þau hafi verið notuð til hagsmuna fyrir kaupfélögin, en kaupmannastéttinni sýnt ranglæti. Eins og mönnum er kunnugt, hefir verið farið eftir félagatölu kaupfélaganna með innflutning, og verður sannast að segja ekki séð, að réttlátari regla verði fundin um innflutning. Enda hygg ég, að flestir líti svo á, að þessar aðfinnslur séu meira bornar fram til að gera sig góða í augum kaupmanna, og ef til vill af nokkurri óvild til kaupfélaganna, heldur en að það sé sannfæring þeirra, sem bera þetta fram, að innflutningshöftunum hafi ekki verið réttiátlega beitt.

Hin árásin er þó öllu algengari í seinni tíð, að vegna mistaka á framkvæmd gjaldeyrishaftanna sé gjaldeyrisástandið svo örðugt sem raun er á. Það er næstum óþarfi að svara þessum aðfinnslum, svo oft hefir það verið gert með gildum rökum og svo auðsæ er þessi blekking. Það mun sanni nær, ef innflutningshöftunum hefði ekki verið beitt og Sjálfstfl. hefði farið hér með völd, þá mundi, eins og árferðið hefir verið undanfarið, vera komið hér í það öngþveiti, að ekki hefði verið hægt að kaupa lífsnauðsynjar. Það er ofureðlilegt, að kaupmennirnir, sem miklu ráða í Sjálfstfl. og hafa mikinn hag af því, að innflutningur haldist sem mestur, einkum á allskonar óþarfavörum, sem mikið má leggja á, þrýsti á flokk sinn um innflutninginn. En afleiðingin hefði óumflýjanlega orðið: Skortur á lífsnauðsynjum.

Eftirlitið með innflutningnum hefir borið þann árangur, að 3 síðustu árin var meðal innflutningur 10 millj. kr. lægri en meðalinnflutningur 10 næstu ára á undan. Verzlunarjöfnuðurinn hefir á þessum 3 árum að meðaltali orðið helmingi hagstæðari en næstu 10 árin þar á undan, og þó er meðalútflutningur undanfarinna þriggja ára 8 millj. kr. lægri. Það verður heldur ekki um það deilt, að innflutningshöftin hafa jafnframt eflt iðnaðinn í landinu stórkostlega, og á það sinn þátt í því, að atvinnuleysið var minna í síðastl. ágústmánuði en það hafði verið undanfarin 5 ár. Þannig hefir tekizt að halda verzlunarjöfnuðinum hagstæðari en nokkrar vonir stóðu til. Og þó hefir verið lögð svo mikil áherzla á það, að efla iðnaðinn, að það hefir á 3 árum t. d. verið komið á fót jafnmiklu af nýjum iðngreinum og gert hafði verið á 10 árum þar á undan. Það er vitað mái samkvæmt upplýsingum hagstofunnar, að skuldirnar við útlönd hafa ekki aukizt síðan í ársbyrjun 1935 meir en sem svarar Sogsláninu einu, eða um 6,6 millj. kr. Ástæðurnar fyrir því, að gjaldeyrisástandið er ekki gott, þýðir ekkert að færa á reikning innflutningshaftanna. Það skilur hver maður, sem vill skilja það, að það er ekkert undarlegt, þótt gjaldeyrisástandið sé ekki gott eftir 2 aflaleysisár og markaðshrun auk annara erfiðleika, sem yfir hafa dunið í tíð núverandi stjórnar, og taka auk þess við öllum greiðsluhallanum við útlönd frá 1934. Á þessum tíma hefir saltfisksútflutningurinn verið að meðaltali fyrir 17 millj. kr., en á árunum 1921–1927 var meðalandvirði útflutningsins 41 millj. kr. Hvað halda menn, að hefði orðið um gjaldeyrisástandið á árunum 1921–27, ef þáverandi fjármálastjórn hefði þurft að sjá af þessum 24 millj. kr. útflutningi árlega eða samtals á þessum árum 96 millj. króna! Ég held, að árásir andstæðinganna út af gjaldeyrismálunum séu fyrir almenning svo augljós rangsleitni, að þeir afli sér tæplega þess kjósendafylgis á því, sem til er ætlazt. Menn skilja áreiðanlega, að það munar um minna en 96 millj. kr. útflutningstap á saltfiskinum einum á 4 árum. Það hefir að vísu stundum verið komið með þau rök, og það eru raunar einu rökin, sem reynt hefir verið að bera fram, að síldarútflutningurinn hafi verið svo mikill á síðastl. ári, að það hafi numið 9–10 millj. kr. umfram það venjulega. Þetta er rétf, en þá var líka innflutningurinn til sjávarútvegsins 16–17 millj., en hafði verið áður 11–12 millj. Var þetta vegna hinna stórkostlegu aukningar flotans. Það verður vissulega ekki mikið út af þessum árásarefnum andstæðinganna, ef þjóðin gerir sér grein fyrir öllum þeim staðreyndum, sem að þessu máli lúta.

Um það árásarefni, að lítið hafi verið gert fyrir sjávarútveginn, má vísa til þess, sem oft hefir verið sýnt fram á áður, að það hefir aldrei verið lagt jafnmikið fé fram til styrktar sjávarútveginum eins og á þessu stjórnartímabili.

Að lokum er rétt að upplýsa það í sambandi við árásirnar fyrir hið langa þinghald, að á stjórnartímabilinu 1924–27, þegar Íhaldsflokkurinn fór hér með völd, stóð þinghaldið þannig:

1924 frá 15. febr. til 7. maí

1925 frá 7. febr. til 16. maí

1926 frá 6. febr. til 14. maí

1927 frá 9 febr. til 19. maí

Og menn urðu satt að segja ekki varir við, að þingið tæki til meðferðar nokkurt stórmál á þessum árum, og vegna góðæris lék yfirleitt allt í lyndi, svo að aðeins fátt af því kom þá til meðferðar á Alþingi, sem nú þarf að taka þar til meðferðar vegna hinna miklu erfiðleika. Það verður því jafnlítið úr þessum árásarefnum stjórnarandstæðinga eins og öllum hinum, þegar það er sýnt, að á þeim tíma, sem Sjálfstfl. stjórnaði, þegar þingið hafði minnst að gera og allt lék í lyndi um árferði, var þinghaldið stórum lengra en það er nú.

Eins og af þessu má sjá, eru aðalárásir stjórnarandstæðinga næsta einkennilegar og líklega sérstakari í sinni röð en árásir nokkurrar stjórnarandstöðu í öðrum löndum. Venjan er sú, að stjórnarandstæðingar marka og bera fram sína stefnu, deila á ríkisstjórnina og reyna að færa rök að því, að réttara hefði verið að fylgja þeirra stefnu en stefnu stjórnarinnar. En hér á Alþingi deila andstæðingarnir á stjórnina fyrir það, að hún hafi verið of duglítil í því að afnema þá stefnu, sem stjórnarandstæðingar hafa fyrst og fremst fylgt og fylgja enn innan þings og utan.

Fjárlögin eru of há, segja þeir, en sjálfir hafa þeir viljað hafa þau ennþá hærri.

Laun embættismanna eru of há, en sjálfir greiða þeir hærri laun allstaðar, þar sem þeir ráða.

Gjaldeyrismálin eru í öngþveiti, segja þeir, en þó hafa þeir stöðugt heimtað aukinn innflutning og tilslökun á innflutningshöftunum.

Þeir segja, að það hafi verið of lítið gert fyrir sjávarútveginn, og þó hefir verið meira fyrir hann gert en þeir nokkurntíma gerðu, þegar þeir réðu.

Þeir segja að þinghaldið sé of langt, og þó er það miklu styttra en þegar þeir réðu og sáralitið var að gera vegna stöðugs góðæris.

Ég viðurkenni, að það megi sjálfsagt gera eitthvað af þessu og öðru betur en gert hefir verið, en það er bara ekki það, sem sker úr. Hið erfiða ástand stafar fyrst og fremst af hinum óvenjulegu tímum, sem gengið hafa yfir þetta land. En eitthvað verða nú andstæðingarnir að segja, og jafnvel þó þeir sumir hverjir innst með sjálfum sér kynnu að líta svo á, að á þessum erfiðu tímum mundi sízt hafa gengið Letur, nema síður sé, ef stjórnað hefði verið af þeim, þá er vissulega til of mikils mælzt, eins og ástandið er í stjórnmálunum, að þeir viðurkenni það á sjálfu Alþingi í eldhúsdagsumræðum fyrir opnu útvarpi.

En þó hið sérstaka árferði ár eftir ár valdi að alerfiðleikunum, þá er þó ýmislegt fleira, sem vert er að gefa gaum og hugleiða.

Við höfum hér á landi fram til ársins 1931 eða 1932 næstum samfleytt haft einsdæma góðæri. Peningarnir flæddu yfir landið. Það var mikið framkvæmt bæði af ríki og bæjum og einstaklingum. Atvinnulífið virtist vera bjarg, sem óhætt væri að byggja á þungar og veglegar byggingar. Þjóðin breytti lífsvenjum sínum og jók lífsþægindin, eins og hin mörgu stóru íbúðarhús og margt annað ber með sér. Það var ótakmarkaður gjaldeyrir fyrir kaupmennina til að kaupa vörur fyrir og flytja inn í landið og selja með miklum gróða. Verzlunarstéttin varð fjölmennari með hverju ári, og menn græddu stórfé á verzlun. Hinar miklu framkvæmdir, einkum byggingarnar, juku eftirspurn eftir iðnaðarmönnum, og iðn, iðarmannastéttin varð fjölmenn. Þannig var útþenslan á öllum sviðum. En svo vöknuðu menn skyndilega af þessum þægilega draumi. Og við sáum, að grundvöllurinn, sem við höfðum reist hallirnar á, var ekki traustur. Fiskveiðarnar geta brugðizt ár eftir ár, og hafa gert frá landnámstíð. Hin ótakmarkaða eftirspurn eftir fiski, kjöti og annari framleiðslu okkar getur horfið skyndilega, og hefir gert það. Og verðið getur orðið óþægilega lágt á þessum vörum, samanborið við aðrar vörur, sem við þurfum að kaupa. Allt þetta og meira til hefir komið yfir okkur eins og reiðarslag eftir hin miklu góðæri. Þannig hefir rás viðburðanna verið, hvað sem menn annars finna upp á að segja almenningi um, að svo og svo illa hafi verið stjórnað nú seinustu árin.

Sumir líta svo á, að góðæri og lífsvenjubreytingar til aukinna þæginda hafi gert nokkurn hluta þjóðarinnar lingerðari, værugjarnari og ófærari í lífsbaráttunni. Um það skal ég ekki dæma, en hitt er víst, að einstaklingar og stéttir vilja ógjarnan missa þau réttindi og lífsþægindi, sem góðærið og velmegunin hafa skapað, og jafnvel sízt þær stéttir, sem bezta hafa aðstöðuna. Og í stað þess að rísa sameiginlega gegn erfiðleikunum og reyna að skilja og taka tillit til aðstæðna hvers annars verða flestir óánægðir með það, sem þeir missa, og skipa sér í stéttir og félög og hyggjast að vernda sína hagsmuni með harðri hendi. Iðnaðurinn er lokaður fyrir öllum nemendum. Það er hækkað kaupið, því minni sem atvinnan verður, en við það minnkar hún enn meir. Sjómennirnir heimta fleiri menn á skipin, eftir því sem skipunum fækkar, svo að nú eru að minnsta kosti fleiri yfirmenn á okkar skipum en annarsstaðar tíðkast. Því styttri sem útgerðartiminn verður, vegna aflabrests og sölutregðu, því hærra kaupgjalds er krafizt, en við það dregst útgerðin enn meira saman. Kaupmenn fá minna af vörum til að selja og leggja þá því meira á.

Ég nefni þessar stéttir sem dæmi, en ekki vegna þess, að þær séu óbilgjarnari en ýmsar aðrar.

Svona erfiðleikatímar eftir eyðslutíma eru góðæri aðeins fyrir eina stétt, áróðursmennina, kommúnistana. Enda hafa þeir óspart notað sér aðstöðuna til þess að vekja tortryggni milli stétta; úlfúð og stéttarhatur.

Það er eftirtektarvert, að þegar Framsfl. á yfirstandandi þingi bendir á þessa hættu og hefir borið fram frv. til að fyrirbyggja algerða lokun á iðnaðinum, þá risa kommúnistar upp og hrópa, að það sé ofsókn á iðnaðarmennina. Þegar talað er um að fækka yfirmönnum á skipunum til samræmis við það, sem annarsstaðar tíðkast, ef þannig mætti styðja að því, að útgerðin gæti gengið og borið sig, þá er hrópað um ofsókn á sjómennina. Og sjálfstæðismenn hér á Alþingi glúpna undan þessum hrópyrðum, enda kemur oft sama tilhneigingin fram hjá ].eim viðvíkjandi innflutningshöftunum vegna hagsmuna kaupmannastéttarinnar. — Smátt og smátt virðist vera að takast að koma þeirri eitruðu skoðun inn í meðvitund nokkurs hluta þjóðarinnar, að réttur stéttanna sé sá eini helgi réttur í þessu landi, og enginn annar réttur til. Áróðursmennirnir telja fólkinu trú um, að nú sé eiginlega til aðeins ein dyggð — það er að vera stéttvís, með öðrum orðum sagt, blindur á allt nema augnablikshagsmuni sína og sinnar stéttar. Og eftir að búið er að binda menn þannig, er auðvelt fyrir áróðursmenn að leiða menn út í hverja deiluna eftir aðra, deilur, sem sýnast vera um hagsmuni stéttanna, en eru oft. þegar dýpra er skoðað, eyðilegging á atvinnugrein stéttarinnar. Gott dæmi um þetta er það, að nú eru það 20 stýrimenn, sem sumir hafa um 9 þús. kr. laun, sem stöðva allan siglingaflotann, sem 16 þús. landsmanna, flestir fátækir og búa við lakari kjör en þessir stýrimenn, hafa byggt upp vegna fórnfýsi og föðurlandsástar, sem kommúnistar telja eina af hinum verstu ódyggðum. Ef einhver þessara manna segði við sína stéttarbræður: „Þessi stöðvun er hættuleg fyrir atvinnugrein okkar, skipaflotann,“ o. s. frv., þá mundi hann vera stimplaður með orðinu óstéttvís, og fólki er kennt að trúa því, að það sé svívirðilegra en að vera sauðaþjófur.

Kommúnistar styðja að sjálfsögðu þessi verkföll, en svo ganga þeir hér sama daginn um göturnar í kröfugöngu með stór kröfuspjöld, þar sem þeir heimta 8 þús. kr. hámarkslaun, sömu mennirnir, sem styðja kauphækkun þeirra, sem nú hafa 9 þúsundir.

Þetta alveldi stéttanna er að verða íslenzku þjóðinni hættulegra en flest, ef ekki allt annað, Jafnhliða þeirri sterku tilhneigingu, að flýja framleiðsluna og erfiðið og komast inn í léttari störf. Kommúnistar, sem róa bak við í stéttunum, vita það mæta vel, að ekkert er líklegra og sigurvænlegra til þess að líða þjóðfélagið í sundur en stéttabaráttan. Því meira sem tillitslaus stéttabarátta magnast, því veikara verður þjóðfél. og því óhæfara til að sigrast á erfiðleikunum. Hér beita þeir því sömu bardagaaðferð eins og annarsstaðar og spila á sérdrægnina og eigingirnina. En það fyrsta, sem þeir sjálfir gera, þar sem þeir ná völdum, er að afnema stéttirnar, þótt menn búi þar við hin misjöfnustu kjör, og innleiða það, sem þeir kalla alræði öreiganna.

Einn þátturinn í þessu starfi, að láta stéttakröfurnar og stéttahatur sundra þjóðfélaginu, er það, að þegar samþykkt er hér á Alþingi hin sanngjarnasta vinnulöggjöf, espa kommúnistar til andstöðu gegn henni og hóta því, að hún skuli brotin. Frummælandi samfylkingarinnar hér á Austurvelli í gær bar fram eina ósk, og hún var þannig: Ég vona, að í dag takist okkur að bera fram miklar kröfur. — Og fyrir framan ræðustólinn, þar sem hv. 3. þm. Reykv. talaði, stóðu kröfuspjöld með áletrun: „Niður með auðhringana“. „Átta þúsund króna hámarkslaun“.

En þótt þetta og annað sé skoplegt og fullt af andstæðum og mótsögnum, hefir það þó allt hið sama og ákveðna markmið: að ala á stéttabaráttunni og sundrunginni til þess að gera þjóðfélagið óstarfhæfara, og þeir hafa rétt í því, að það er vísasti vegurinn að því marki.

En við þessa menn, sem á sundrunginni ala, vil ég segja það, að þeir hefðu áreiðanlega gott af að hugleiða þá lífsreglu, að misnotkun allra gæða endar aðeins á einn veg. Þeir, sem misnota þau, glata þeim. Þessi regla er svo ófrávíkjanleg, að sjálfur lifgjafinn, sólarljósið, getur deytt, ef það er notað um of. Frelsið, sem er eitt af æðstu gæðum mannanna, er heldur engin undantekning fá þessari reglu. Misnotkun frelsisins veldur almennri tortímingu í hverju þjóðfélagi og hefir þann endir, að þeir sem misnota frelsið, glata því!

Við Íslendingar vorum lengi ánauðug þjóð og almúginn kúgaður. Það hefir tekið okkur aldir að vinna þetta frelsi aftur. Og það er þetta frelsi, sem hefir gefið almenningi í þessu landi þær réttarbætur. sem hann hefir fengið. En nú er það, sem við kunnum okkur ekki læti. Bæði stéttir og einstaklingar, æðri sem lægri, virðast eftir alla kúgunina vilja njóta frelsisins eins og ofdrykkjumaður áfengis. Menn skiptast í stéttir, og í nafni stéttanna eru gerðar kröfur um aukin lífsþægindi, en öllu öðru og öllum öðrum er gleymt, og mönnum er talin trú um, að þetta sé hin æðsta dyggð mannanna. Áður þurftu menn að komast undri vernd ættar hér á landi til þess að geta komið sér vel fyrir. Nú eru það stéttirnar. Réttur þeirra er nú talinn heilagur, en rétt þjóðarinnar man enginn, og þegar á hann er minnzt, er hann með fyrirlitningu kallaður réttur hinna ríku. Það er aftur hið sama og hinn heilagi réttur ættanna áður á Sturlungaöldinni, þegar við glötuðum frelsinu, sem tók okkur aldir að vinna aftur. Þá mundi heldur enginn eftir þjóðinni.

Hvað er hér að gerast?

Mér finnst stundum, góðir Íslendingar, þegar athugaðar eru bardagaaðferðir stéttanna í seinni tíð og bardagaaðferðir hinna óheiðarlegri áróðursmanna, og allt þetta er kallaður heilagur réttur og frelsi, að ég endurþekki þar samskonar rétt og frelsi og hér ríkti stuttu áður en við glötuðum sjálfstæði okkar forðum. Það er þetta afskræmda frelsi. Munurinn er sá, að áður voru það ættir, en nú eru það stéttir, sem eigast við.

Á Sturlungaöld tóku ættirnar sér frelsi til þess að meiða, misþyrma og kúga í nafni ættanna. Nú vilja stéttirnar hafa samskonar frelsi til að kúga allt og alla, hver fyrir sína ímynduðu augnabliks hagsmuni.

Okkar saga, og saga annara þjóða, sýnir það, að í þessari mynd birtist frelsið rétt áður en það veldur tortímingu og hverfur, og þá fyrst og fremst úr eigu þeirra, sem misbeittu því.

Það er orðin venja hér á Alþingi á eldhúsdegi, og henni er haldið nú, að vera með allskonar sparðatíning sannan og ósannan um ágalla á stjórnarfarinu, þótt allir þessir menn viti, að ástandið hefir verið, og er þannig, vegna utankomandi og óviðráðanlegra atvika, að hverjum flokki, sem ætti að stjórna nú, mundi reynast það næsta erfitt.

En það sem við ættum að ræða um og getum ráðið við, er að afstýra hinni blindu stéttabaráttu og sérdrægni meðal æðri og lægri stétta í okkar eigin landi og koma í veg fyrir, að hún valdi meira tjóni en orðið er, geri þjóðina óhæfari til þess að brjótast fram úr örðugleikunum. Því að lokum lenda erfiðleikarnir á þjóðinni sem heild, þótt sumum stéttum takist að velta þeim af sér um stund, og þess vegna eru það hinir sönnu hagsmunir allra að taka sameiginlega á í tíma til þess að afstýra afleiðingunum, sem fyrir alla hlýtur að leiða af sundrunginni.

Það er þetta, sem virðist aðkallandi fyrir þjóðina, til þess að hún geti verndað frelsi sitt, lýðræði og sjálfstæði.

En því skal heldur ekki gleymt, ef gera þarf þessar kröfur um fórnfýsi til þeirra stétta, sem lægra eru launaðar og á allan hátt ver settar, að þá verða fyrst og fremst þeir einstaklingar og þær stéttir, sem meira mega, að ganga á undan um að sýna þessa fórnfýsi.

Þetta er hin sanna köllun tímans eins og nú horfir við.