03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

46. mál, samvinnufélög

*Jón Pálmason:

Viðvíkjandi því, sem hæstv. atvmrh. sagði, að vitanlega gætu önnur félög heldur en Kaupfélag Austur-Húnvetninga tekið upp sömu reglu í þessu efni, vil ég taka það fram, að það er rétt, en ég hygg, að það eigi sér víða stað á landinu, að í kaupfélögunum sé ekki sá félagsandi ríkjandi, að meiri hl. vilji taka tillit til minni hl., og þess vegna verði útkoman eins og raun hefir borið vitni um, að í félögunum verði ekki gefin nein heimild til hlutfallskosninga.

Út af ræðu hv. þm. Barð. vil ég segja það, að mér kom það hálfundarlega fyrir sjónir, af því að um svo frjálslyndan mann var að ræða, sem venjulega er sjálfum sér samkvæmur, að hann skyldi telja það fjarstæðu að bera saman sveitarstjórnarkosningar og kosningar í samvinnufélögunum. Það er út af fyrir sig rétt hjá honum, að það gilda annarskonar lög, eins og gefur að skilja, um sveitar- og bæjarfélög heldur en um samvinnufélögin, en þetta er að því leyti sambærilegt, að um langan aldur, og fram á síðustu ár, voru engin lög um að knýja fram hlutfallskosningar til hreppsnefnda og bæjarstjórna, en það var gert að kappsmáli hér á Alþ. 1935, ef ég man rétt, án þess að nokkur nauðsyn væri þar til. Þegar búið er að gera þetta að kappsmáli og leiða það í lög, og þegar jafnframt er búið að gera að miklu kappsmáli í þinginu og lögbjóða skilyrðislaust hlutfallskosningar í félögum, sem eru alveg sambærileg við samvinnufélögin, búnaðarfélögunum, þá er það í algerðu ósamræmi við þessi ákvæði, ef sömu menn, sem börðust fyrir þessu, neita því, að sett verði í lögin heimild til þess að viðhafa hlutfallskosningar í samvinnufélögunum.

Það kann að vera rétt út af fyrir sig hjá hv. þm. Barð., að þetta hafi ekki mjög mikla þýðingu í framkvæmdinni, en ég flyt þessar till. af því, að ég vil hafa á þessu fullkomið samræmi, úr því að það eru landslög um hvorutveggja félagsskapinn, búnaðarfélagsskapinn og samvinnufélagsskapinn. og ég neita því algerlega, sem hv. þm. Barð. heldur fram, að kosning í samvinnufélögum sé ósambærileg við sveitarstjórnarkosningu. Hefði ekki verið barizt fyrir því undanfarin ár að koma hlutfallskosningareglunni inn í sveitarfélögin og búnaðarfélögin, þá hefði að sjálfsögðu ekki verið uppi till. um, að sama gilti fyrir samvinnufélögin, en mér finnst, að á þessu sviði, eins og sem flestum öðrum, eigi að vera sem bezt samræmi í aðgerðum hv. þm.