03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

46. mál, samvinnufélög

*Frsm. (Bergur Jónsson):

Það er þýðingarlaust að ræða mjög mikið um þetta. — Ég vil bara benda hv. þm. A.-Húnv. á það, að fyrirkomulagið á kosningum til sveitar- og bæjarstjórna er alveg sambærilegt við alþingiskosningar, en ekki við kosningar í frjálsum félagsskap, vegna þess, að sveitar- og bæjarfélög eru félagsskapur, sem er þrengt upp á þjóðina með skiptingu samkvæmt stjórnskipulögum og öðrum landslögum, en samvinnufélagsskapurinn er alveg frjáls, og meira að segja ekki sambærilegur við búnaðarfélögin, vegna þess að þau eru grundvöllurinn undir búnaðarþingunum, og ríkisvaldið hefir víða tengið búnaðarfélögunum í hendur miklar fjárupphæðir til þess að skipta eftir ákveðnum reglum, og það er beinlínis skilyrði fyrir því, að þau geti fengið þetta fé í hendur, að þau hlíti þeim reglum, sem löggjafinn setur, en slíkt á sér ekki stað viðvíikjandi samvinnufélögunum frekar en öðrum frjálsum félagsskap.

Ef fyrirskipa ætti, hvernig kosningum í samvinnufélögunum skuli hagað, mætti eins setja lög á Alþ. um. hvernig menn eigi að kjósa í stjórn og fulltrúaráð í verkalýðsfélögum og öðrum stéttarfélögum eða málfundafélögum.

Það væri sambærilegt við þetta. Annars er þetta ekki stórt atriði, en mér finnst einkennilegt, að hv. þm. A.-Húnv. skuli vilja ganga inn á þessa leið, að láta löggjafann setja strangari reglur að þessu leyti fyrir samvinnufélagsskapinn heldur en annan félagsskap í landinu um það, hvernig eigi að huga kosningum innan hans vébanda.