02.05.1938
Sameinað þing: 23. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

1. mál, fjárlög 1939

*Héðinn valdimarsson:

Það er lærdómsríkt fyrir verkafólk að hlusta hér á hæstv. forsrh. Hann situr með stuðningi eða hlutleysi þingmanna þess, og það lítur út fyrir, að hann sé að búa sig undir að beita ríkisvaldinu til að svipta það réttindum. — Ég vil að sjálfsögðu ekki fara út í deiluna um stýrimannaverkfallið og grípa þannig fram fyrir hendur hæstv. forseta, hv. þm. Seyðf., því að sú deila er á vegum Alþýðusambandsins.

Ég mun í þessum eldhúsumræðum, sem venjulega fara mikið á við og dreif, snúa mér að vinnulöggjöfinni, sem nú á að fara að samþykkja á Alþingi og rætt var um í útvarpi í fyrra kvöld, bæði vegna þess, að tími minn var of naumur þá til svars, og vegna þess að ég álit afstöðu ríkisstjórnarinnar til verklýðssamtakanna vera grundvallandi fyrir því, hvaða afstöðu verkalýðurinn tekur til ríkisstjórnarinnar, enda þótt önnur mál geti einnig valdið þar miklu um. En sú ríkisstjórn, sem nú situr, leggur hið mesta kapp á að fá frv. um vinnulöggjöf samþ. óbreytt að mestu eða öllu leyti.

Hv. þm. N.-Ísf. sneri sér að mér í siðari ræðu sinni á laugardagskvöld, er ég gat ekki svarað, og eins og ég mun siðar lýsa, með þeim blekkingum, að jafnvel hér í þingsalnum eru fá dæmi annars eins. Og mun orsök þessa ekki, að hv. þm. sé þetta tamt, heldur illur málstaður. Hann fæst um það, að á fyrra þinginu 1937, er þingrof stóð fyrir dyrum og Framsókn hugðist að keyra gegnum þingið frv. sitt um vinnulöggjöf, hafi ég viljað flytja frv. frá sjónarmiði Alþfl., samið af hv. 3. landsk. þm., og Guðmundi Í. Guðmundssyni, án þess að við hefðum endurskoðað það þm. Veit þó hv. þm. manna bezt, að þetta frv. hefði því aðeins verið flutt, að við hefðum fyrst farið gegnum það vandlega og leiðrétt, og að það hefði ekki orðið samþ. á þinginu þá, heldur hefði einungis sýnt alþjóð það, að við neituðum ekki með öllu löggjöf um málið, heldur krefðumst þess, að hún væri í anda verklýðsfélaganna, og ákvæði hefði verið sett, er gerði samþykkt Alþýðusambandsins nauðsynlega. Við hefðum þá ekki þurft að standa á því fastar en fótunum að vilja enga löggjöf, eins og hv. þm. átelur, að vísu með óréttu, kommúnistana fyrir. En að loknum þessum inngangi talaði hv. þm. N.-Ísf. af miklum fjálgleik um, að við hefðum setið við sama borð og farið gegnum enn verri vinnulöggjöf en nú liggi fyrir þinginu, og hafi ég ekkert lagt til málanna, en hann gagnrýnt þetta frv. Vildi hann með þessu gefa í skyn, að ég hafi verið óðfúsastur alþýðuflokksmanna að fá vinnulöggjöf, og líklega hana sem versta, og þá víst af því, að ég hafi verið þeirra fastastur í tengslum við Framsfl. Staðreyndirnar hafa talað nokkuð öðruvísi, og verkalýðurinn mundi jafnvel í hinum fjarlægari stöðum, eins og Norður-Ísafjarðarsýslu, vera undrandi, ef þessu væri öllu ómótmælt. En það vill nú svo vel til, að ég hefi fundið skrifleg gögn, sem taka af öll tvímæli í þessum etnum, en það er uppkast að vinnulöggjafarfrumvarpinu eins og það var síðastliðið haust samið af þeim hv. 3. landsk. þm. og Guðm. Í Guðmundssyni, lagt fyrir miðstjórn Alþfl. og þm. hans, og sýnir þá stefnu, sem flokkurinn tók í þessu máli. Uppkastið var að vísu ekki vandlega rætt, en þó farið lauslega gegnum tvo fyrri kafla þess, en ekki tvo þá síðari. Á þetta plagg hefi ég þar að auki ritað aths. mínar, en ég minnist þess ekki, að hv. þm. N.-Ísf. hafi gert neinar aths. né get séð þess stað.

Hvernig er svo þessi löggjöf, sem hv. þm. vitnar til? — Þar er skemmst frá að segja, að þetta uppkast með aths. mínum er í nálega öllum ágreiningsatriðum, sem gerð hafa verið við frv. það, sem nú liggur fyrir þinginu, frábrugðið því, en eins og brtt. þær, sem ég hefi gert, og allt annað og betra en frv. það, sem hv. þm. N.-Ísf. ver öllum lífs og sálarkröftum til að verja. Svo að þessi ásökun hans á hendur mér verður að hinu sárasta vopni á hann sjálfan og fylgilið hans og sýnir það eitt, hversu gersamlega rökþrota hann er orðinn. Vil ég nefna nokkur dæmi til samanburðar úr uppkasti Alþýðuflokksins á móts við núverandi frv., sem hv. þm. ver.

Í 4. gr. uppkastsins eru ákvæði um, að styrktar- og menningarsjóðir félaganna og sambands þeirra séu undanskildir öllum skuldbindingum þeirra, ekki einungis sektum, heldur líka gjaldþroti, og er það ólíkt lengra gengið en nú í samþykktri brtt.

Í 5. gr. uppkastsins er harðar tekið en í frv. á afskiptum atvinnurekenda af stjórnmálaskoðunum og verklýðsmálaafskiptum verkamanna, bannaðar allar ógnanir og gyllingar, en aths. hefi ég gert um frekari tryggingar í því efni.

Í 10. gr. uppkastsins, sem hefir verið niður felld í frv., er skylda til, ef þess er krafizt, að fella úr gildi samning, ef verulega raskast hlutfall milli framfærslukostnaðar og vinnulauna eða gengisbreytingar koma, en sleppt með öllu framleiðslukostnaði, sem síðar var settur inn í frv. mþn. og var því þessi grein mjög verulegur ávinningur.

Þá eru sérstakar 11. og 12. gr. í uppkastinu, sem nú eru algerlega horfnar, og gefa þær kauptaxta verkalýðsfélaga sama gildi sem samningi, ef honum er ekki í tíma mótmælt af atvinnurekanda — einmitt það, sem krafizt hefir verið af verklýðsfélögunum —, og eru ýtarleg ákvæði um þetta.

Skipun trúnaðarmanna nær í uppkastinu lengra en í frv., t.d. í verzlunum og skrifstofum. Þá eru í uppkastinu þessi ákvæði til að tryggja afstöðu trúnaðarmanna: „Uppsögn eða önnur breyting á kjörum trúnaðarmanns, honum verulega í óhag, af hálfu atvinnurekanda, skal ætíð skoðuð sem risin af störfum hans sem trúnaðarmanns fyrir félag sitt, nema atvinnurekandi færi fullar sannanir fyrir öðru“. En þetta vantaði algerlega í frv. og er ekki fyllilega tryggt einu sinni með brtt., sem nú er nýbúið að samþ.

Í 19. gr. uppkastsins er talað um, hvenær heimilt skuli að samþ. verkföll, og aðeins þessi þrjú skilyrði sett:

a) á löglega boðuðum félagsfundi, þar sem minnst 20% atkvæðisbærra félagsmanna eru mættir.

b) við almenna skriflega atkvæðagreiðslu utan fundar, og hafi hún staðið minnst þrjá daga.

c) af þeim, sem samkvæmt ákvæði í lögum viðkomandi félags hefir verið gefið umboð til þess að taka slíkar ákvarðanir.

Við þetta hefi ég gert þá aths., að auk ákvæðis í félagslögum ætti að taka gild umboð samkv. fundasamþykktum, og var það tekið til greina af þingflokknum. Með öðrum orðum: Í uppkastinn halda verklýðsfélögin sínum forna rétti til verkfallsákvarðana samkvæmt þessari grein, einmitt þeim rétti, sem flest verklýðsfélögin hafa krafizt að halda og ég hefi flutt brtt. um á þinginu. En þær brtt. hafa allar verið felldar og valdið tekið af félagsfundum og félagsstjórnum.

Þá koma nokkur öðruvísi ákvæði en í frv. um fyrirvara til ríkissáttasemjara vegna verkfalla. sem ég hefi ekkert verulegt haft við að athuga nema hvað ég hefi gert aths. um, að skýr ákvæði þyrfti til þess að heimila skyndiverkföll. svipuð og ég bar fram brtt. um við 2 umr. Í uppkastinu er bann gegn pólitískum verkföllum, en linara en í frv. En ég hefi gert alvarlega aths. gegn því ákvæði.

Loks hefi ég borið fram samskonar brtt. og við 2. umr. um að útiloka verkfallsbrjóta, og hefir þingflokkurinn þá ekkert haft á móti henni, en nú hefir hún verið felld.

Ég hefi rakið þenna undirbúning málsins innan alþýðusamtakanna og í mþn. svo nákvæmlega vegna þess, að hann sýnir hvernig afstaða Alþfl. og einnig þingflokksins og mín sérstaklega var í þessu máli síðastl. haust, líka hv. þm. N.-Ísf., núverandi aðalverjandi frv. í þeirri mynd, sem það liggur fyrir. En þetta var áður en hægri menn Alþfl., hin svonefnda Skjaldborg, voru langt komnir með klofningsfyrirætlanir sínar fyrir síðasta sambandsþing. Það er af öllu þessu auðsætt, að uppkastið og frv. er tvennt ólíkt. Uppkastið, eða 1. og 2. kafli þess, var í aðalatriðum viðunandi lausn málsins frá sjónarmiði alþýðusamtakanna með þeim aths.. sem gerðar voru við það. En frv. er alger svik og undanhald frá hinni fyrri stefnu, einmitt í þýðingarmestu atriðunum. Sést bezt á þessu, hvilíkar ótrúlegar rangfærslur og blekkingar það eru hjá hv. þm. N.-Ísf. að vilja nugga mér upp úr frv. því, sem hann nú berst fyrir, með því að skýra frá, að ég hafi ekki gert aths. við gr. í fyrra uppkastinn. sem þar voru allt öðruvísi og þar að auki ekki endanlega frá gengið. En einmitt í þessu uppkasti eru flest þau ákvæði, sem ég vildi og vil koma inn í frv. það, sem er í þinginu nú. En hv. þm. N.-Ísf. er hinsvegar orðinn svo samdauna þeim hugsunarhætti, sem ráðið hefir hjá stærri atvinnurekendunum í þessum málum, að hann telur ákvæði uppkastsins, sem breytt hefir verið, ýmist lítils virði eða til hins verra, að 2–3 till. undanteknum, sem sumir innan þingflokks Alþfl. hafa þó líka greitt atkvæði á móti. Þeir, sem snúizt hafa gegn Alþfl. í þessu máli og sjálfum sér eins og þeir voru síðastl. haust, eru einmitt þeir hv. þm. Vilmundur Jónsson & Co. Þegar borið er saman uppkastið og frv. og síðan athuguð hin mikla leynd, sem höfð var um útsendingu frv. til verklýðsfélaga, en að engar frekari umræður voru leyfðar um uppkastið né breytingarnar á því bornar undir sambandsþing, að send voru jafnvel út fölsuð meðmæli með frv. í nafni Alþýðusambandsins, — þá fyrst verða ljós þau svík, sem hafa átt sér stað við verkalýðssamtökin og Alþfl. og stefnu hans af hálfu örfárra forustumanna flokksins, þau launráð, sem brugguð voru til þess að svíkjast aftan að verkalýðnum óafvitandi í þessu máli, — sú stórkostlega hægri sveifla, sem hv. þm. N.-Ísf. hefir gert ásamt fyrrv. hæstv. ráðh., hv. þm. Seyðf., og þeim öðrum Skjaldborgarmönnum, sem sent hafa út ávarp til almennings um að koma sér til hjálpar til að verja aðstöðu þeirra í flokknum í þessum málum og öðrum.

Þeir, sem mig þekkja, vita vel, að enda þótt ég hafi ávallt óskað samstarfs við Framsfl. sem enn verandi aðalflokk sveitaalþýðunnar, þá hefir mér verið það ljósara en öðrum þm. Alþfl., að ákveðin landamæri væru, sem Alþfl. gæti ekki gengið yfir, né heldur gæti hann unnið með Framsfl., ef sá flokkur yrði íhaldsflokkur og vinstri menn Framsfl., sem eru velviljaðir vinstri stjórn og vinstri samvinnu, réðu ekki. Það er líka kunnugt innan Alþfl., að einmitt vinnulöggjöfin var mál, sem ég bjóst við, að yrði lagt hið mesta kapp á af hægri mönnum Framsfl. að útbúa þannig, að Alþfl. yrði að snúast gegn henni. Allt bæri að gera til að hindra þetta, en hinsvegar mætti Alþfl. aldrei svíkja verklýðsfélögin og grundvaliarstefnu þeirra í þessum málum. En þetta síðarnefnda er einmitt það, sem gert hefir verið, og fyrst þegar hægrimenn Alþfl. höfðu ákveðið klofning flokksins, gengu þeir að því að breyta uppkastinu og berjast fyrir vinnulöggjöf, sem verklýðsfélögin vildu ekki hafa.

Lýsingar hv. þm. N.-Ísf. á því, að ég hafi gengið yfir til kommúnista í málinu, hitta því ekki mig, sem hefi haldið mér á óbreyttum grundvelli Alþfl. frá síðastl. hausti. Og afstaða verklýðsfélaganna flestra og einmitt þeirra, sem bezt hafa getað kynnt sér málin, er líka óbreytt hin sama. En það er afstaða Skjaldborgarinnar, sem hefir breytzt með klofningnum. Þeir hafa gengið andstæðingunum á vald, og nú berst hv. þm. N.-Ísf. undir þeirra merkjum í hinum sameiginlega her sjálfstæðismanna, Framsfl. og Bændafl.

Hitt er annað mál, að ég. sem ekki er kommúnisti né verð það, hefi þá sannfæringu ásamt þúsundum annara alþýðuflokksmanna, að við getum rúmazt í sameiginlegum, sósíalistískum flokki, eins og hér var fyrir 1930 og fyrir var um allan heim, og sjálfsagt verður í öllum löndum í framtíðinni, jafnvel þó að það eigi að kosta það, að nokkrir vei gefnir og vel metnir embættismenn láti draga sig út úr slíkum hreinsósíalistiskum flokki, eins og á sínum tíma varð, er norski verkamannaflokkurinn var í sköpun.

Nú hefir í dag fengizt nokkur bót ráðin á tveim gr. vinnulöggjafarfrv., — um trúnaðarmennina, þannig að þeir skuli að öðru jöfnu sitja fyrir vinnu, — og að fundahús, menningar og sjúkrasjóðir séu undanþegin aðför, en þó ekki allir styrktarsjóðir né líknarstofnanir félaganna, og greiddi hv. þm. N.-Ísf. og þeir félagar ekki atkv. með till. frá mér þess efnis að undanþiggja alla styrktarsjóði. Vill hv. þm. N.-Ísf. þakka sér þessar lagfæringar, sem þó ná á þessum einum sviðum alls ekki uppkastinn, en á engan hátt þakka þær mér né verklýðsfélögunum, sem mótmælt hafa hinum ýmsu kúgunarákvæðum frv. —- og vill til taka, að ég hafi ekki tekið aftur samskonar till. mínar við 2. umr., svo að hann gæti brætt þær til 3. umr. En allar brtt. mínar höfðu verið opinberlega birtar fyrir 11/2 mánuði, og var því nægur tími til bræðslunnar, en áhugi Skjaldhorgarinnar er ekki meiri en þetta, að þeir greiddu aðeins fáum af þeim atkvæði — og þó ekki allir, t. d. ekki hv. þm. V.-Ísf. En svo, þegar útvarpið á að koma til sögunnar með umræður um málið, þá geta þeir ekki aðeins með samþykki Framsóknar, heldur líka án nokkurrar mótstöðu frá Sjálfstfl., fengið þessar tvær till. samþykktar algerlega fyrirhafnarlaust. Ef viljinn hefði verið að halda frv. eins og uppkastinu, sem Alþfl. hafði síðastl. haust, ásamt aths., þá mundi frv. hafa lítið öðruvísi út en nú. En því miður: Viljann hefir vantað, — eins og allur gangur málsins og atkvæðagreiðslur hafa sýnt.

Hv. þm., HG og VJ, leggja sig í framkróka til að sýna fram á, að þingflokkur þeirra sé hinn eini rétti Alþýðuflokkur — og í rauninni sé enginn klofningur í alþýðuhreyfingunni, aðeins einn maður, HV, hafi verið rekinn úr flokknum, vegna þess að hann hafi verið genginn yfir til kommúnista, en annars séu alþýðu- samtökin ánægð undir stjórn „Skjaldborgarinnar“. Þessar útlistanir og afsakanir geta ef til vill villt einhverja kjósendur þeirra í fámenninu úti um land, en hér í Reykjavík og nágrenni og viðar verka þær nánast hlægilega, og þá ekki sízt eftir daginn í gær, 1. maí. Menn skyldu halda eftir því, hvernig hv. þm. N.-Ísf. talar um þessi mál, að hann sé allra manna nákunnugastur innanflokksstarfinn og sérstaklega innan verklýðssamtakanna, að hann verji öllum tómstundum sínum til slíkra starfa og þekki, a. m. k. í Reykjavík, verkafólk hundruðum saman og hafi við það náið samband og við þið starfandi áhugalið samtakanna, sem aðallega hefir verið innan Jafnaðarmannafélags Reykjavíkur. Á kvöldin hafi ég sótt hann heim móður og þreyttur og ofurliði borinn af Dagsbrúnarfundum, og hann hafi lagt á ráðin, talað í mig kjark og bjargað öllu saman! Sér er nú hvert yfirlæti og oftrúin á sjálfan sig. Hann er veI gefinn maður og þrátt fyrir þessi ræðuhöld lengst til vinstri handar af hægrimönnum Alþfl. En mjög pólitískur er hann ekki né áhugasamur un: þessi mál. Þau mál, sem hann getur sett himin og jörð í hreyfingu fyrir, eru mál eins og dósentsmálið, sem flestum alþýðuflokksmönnum fannst ómerkilegt og litið leggjandi í sölur fyrir, — það að grafa Sigurð Einarsson í starfi, sem ekki er við hans hæfi, en frekar fyrir hans fordild. Ég efast heldur ekkert um, að hv. þm. N.-Ísf. hafi reynzt mjög liðtækur fyrir Guðmund Hagalin í því að útvega honum prófessorsnafnbótina, þó að hv. þm. Seyðf. hafi áorkað mestu í því stórmáli, sem gerði Guðmund á þrem dögum úr svo áköfum sameiningarmanni við kommúnista, að ég hafði orðið að gera það, sem ég gat til að halda honum í röðum okkar hinna sameiningarmannanna, að hirðskáldi og útfararskáldi Skjaldborgarinnar og ákveðnum liðsmanni klofningsmanna. En hitt vita flestir reyndir flokksmenn, að það er ekki nema með ærnustu fyrirhöfn, að við miðstjórn Alþfl. höfum fengið hv. þm. N.-Ísf. til að ljá tíma sinn í framboð. Að öðrum flokksstörfum en þingmennsku hefir hann yfirleitt ekki komið og margoft harðneitað að vinna slík nauðsynleg utanþingsstörf. Hann kemur aldrei á neina fundi, hvorki verkamannafundi né aðra, og þekkir ekkert af áhugaliði alþýðuhreyfingarinnar, ekkert nema Skjaldborgina. Hann er ekki í neinu flokksfélagi, — er yfirleitt alis ekki í Alþýðuflokknum, heldur aðeins í þingflokki Alþýðuflokksins. Og þetta er maðurinn, sem er frsm. hægri mannanna fyrir vinnulöggjöfinni og flytur skýrslur um, að andstaðan innan alþýðusamtakanna í Reykjavík sé lítils virði og eingöngu frá kommúnistum eða nazistum og sjálfstæðismönnum, þó að öllum sé kunnugt, að sjálfstæðismenn eru með honum um þetta frv. Og allt þetta flytur hann með látæði og orðbragði þess eina manns, sem kynnt hefir sér þetta frá rótum. Hann vill svo sem sannfæra hlustendur um, að allir þeir, sem ekki mæta á Dagsbrúnarfundum, séu fylgjendur þingflokks Alþfl., Skjaldborgarinnar. Þeir, sem mæta þeim megin frá, hafa aldrei orðið yfir 40%, þrátt fyrir undirbúningsfundi og smalamennsku hv. þm. Seyðf., á móti hundruðum alþýðuflokksmanna, sem fyrirlíta allt þetta brugg og klofningsstarfsemi Skjaldborgarinnar. Og hv. þm. N.-Ísf. veit svo sem líka, að flest öll verklýðsfélögin í Reykjavík eru aðeins smáfélög, stofnuð af andstæðingum Alþfl. til að kljúfa hann.

Jæja, hvar er þá Alþfl., ef þeir menn fylla hann ekki, sem í verklýðsfélögunum starfa? –Sá Alþfl., sem ég tilheyri og hefi tilheyrt, er hér óbreyttur og hefir ekki minnkað frá síðastl. hausti, heldur vaxið. En Alþýðuþingflokkurinn, Skjaldborgin, hún er ekki að ráði innan verklýðssamtakanna hér um slóðir. Fylgi hennar hlýtur að vera þar, sem það sést ekki. En hv. þm. N.-Ísf. vonast til að geta fengið alþýðufólkið á Vestfjörðum til þess að taka dýrð Skjaldborgarinnar trúarinnar augum og steypa okkur sósíalistunum í Alþfl. út í hin yztu myrkur. 1. maí, gærdagurinn, sýndi fylgi Skjaldborgarinnar annarsvegar og verklýðsfélaganna, Alþfl. og Kommfl. í Reykjavík hinsvegar. Í hópgöngu Skjaldborgarinnar út í kirkjugarð voru taldir 260 menn með börnum, en í kröfugöngu alþýðusamtakanna voru milli 1800 og 2200 menns, eftir því hvar talið var, og miklu fleiri á útifundinum. En hv. þm. N.-Ísf. heldur auðvitað áfram: Við eigum þá, sem hvergi sáust, auk hópgöngunnar. — Ef hann sæi sjálfur, hve hlægilegur hann er, syngjandi í þessari tóntegund, þá mundi hann hætta. En þá, sem guðirnir vilja tortíma, svipta þeir líka vitinu.

Hv. þm. N.-Ísf. hefir talað um foringja, sem yfirgefi alþýðuna og gangi yfir til andstæðinganna, og telur þá brtt. við frv. fjandsamlega við Alþfl., að allir meðlimir verklýðsfélaga skuli hafa kjörgengi í trúnaðarstöður þeirra og stéttarsambands þeirra. En mér er spurn: Hverjir hafa stofnað Alþfl. nema verklýðsfélögin í landinu? Og til hvers gerðu þau það, nema til að hafa pólitískt tæki til að koma fram kröfum sínum. Fyrst eftir 1930, er klofningur varð milli Alþfl. og Kommfl., var nauðsynlegt að fá biðtíma til þess að skilja Alþfl. frá Alþýðusambandinu. Því voru sett þau ákvæði um kjörgengi til alþýðusambandsþings, að menn yrðu að vera alþýðuflokksmenn. En nú er tíminn kominn til að leysa upp þetta ákvæði, því að nú er það orðið bæði til skemmda og klofnings fyrir verkalýðshreyfinguna í heild og fyrir Alþfl. sem hennar flokk. Vegna þessa ákvæðis hefir allt ákvörðunarvald um stefnu flokksins og framkvæmdir einangrazt hjá flokksstjórninni. En með þessu aukna pólitíska valdi hennar hefir yfirstjórn verklýðsstarfseminnar verið vanrækt, pólitíska starfið farið meira og meira yfir í fárra manna hrossakaup, en sambandið slitnað við alþýðuna í sambandsfélögunum, verkalýðinn og sósíalistana. Og nú vill sá meiri hluti sambandsstjórnar ásamt nokkurri hirð „skjaldborgarinnar“ svo nefndu, sem hefir hreiðrað sig innst í alþýðusamtökunum, — nú vill hann kljúfa sem mest milli þinga og útiloka með úrskurðum og bannfæringu þá sósíalista og alþýðuflokksmenn, sem vilja hafa Alþfl. fyrst og fremst baráttutæki fyrir alþýðuna sjálfa. Nú vill „Skjaldborgin“ leggja öll tæki flokksins og verklýðssamtakanna undir sína stjórn, sem ekki getur endurnýjast nema innan að.

Til þess að bjarga þessu þarf að aðskilja verklýðssamtökin, landssamband þeirra og faglega starfsemi þessarar aðilja að skipulagi til frá hinni pólitísku starfsemi Alþfl., þó að hann að sjálfsögðu verði að halda sínu sérstaka nána samstarfi við verklýðssamtökin. Til landssambandsins eiga allir að hafa fullt kjörgengi og kosningarrétt, en til pólitíska flokksins eiga einungis flokksmenn að hafa kjörgengi og kosningarrétt. Þá er náð takmarkinu fyrir lýðræði innan verklýðssamtakanna og Alþfl., sem ekki er síður nauðsynlegt en utan þeirra, en „Skjaldborgin“ og hv. þm. N.-Ísf. með allar sínar varajátningar berst eindregið á móti heima fyrir.

Ég gæti farið út í enn frekari lýsingu á því, hvernig klofningsstarfsemi hægri mannanna, sem geta ekki lengur talizt tilheyrendur Alþfl. í landinu, þó að þeir eigi þingflokk hans, hefir breytt hugarfari þeirra til verklýðssamtakanna í heild. Mætti nefna tilraunir hv. þm. Seyðf. til klofnings á Dagsbrún og afskipti hans af uppsögn samnings þvottakvennafélagsins Freyju. afskipti Guðmundar R. Oddssonar forstjóra Alþýðubrauðgerðarinnar af málum Alþýðusambandsins og Iðju nú upp á siðkastið, framkomuna í sjómannadeilunni o. s. frv. En til þess er ekki tími, en nóg að nefna til að sýna, hvaða menn það eru, sem fyrir skömmu hafa talizt foringjar alþýðunnar í landinu, en nú berjast gegn henni.

Í þessum deilum á hv. þm. N.-Ísf. heldur engan þátt frekar en öðrum verklýðsmálum. Hann lætur sér nægja að vera sérfræðingurinn, þegar á þing er komið, og flytja siðan verkalýðnum vestfirzka, sem hann hefir verið mjög vel kynntur að maklegleikum hjá, allar fréttirnar úr Reykjavík, málaðar upp í heimahúsum, og kveðju guðs og sína. En ég vil hinsvegar flytja verkalýðnum um land allt kveðju reykvísku alþýðunnar, þúsundanna frá kröfugöngu alþýðusamtakanna og útifundunum í gær, sem vænta þess, að íslenzka alþýðan standi fast saman um samtök sín gegn árás löggjafar og atvinnurekenda gegn klofningsmönnunum, sem vilja að innan, úr sambandsstjórn, kljúfa þau og ræna skipulagi og tækjum þeirra yfir til borgaralegra flokka á rólegan og öruggan stað.

Við þurfum ekki að bera kvíðboga fyrir afdrifum okkar gömlu vina eftir þessa orðahríð. Þeir eru allir óhultir og hafa fengið sín laun „hinumegin“, þ. e. a. s. hjá borgaralegu flokkunum, eftir sína virðingarverðu en árangurslausu tilraun til að stöðva sameiningar-„æfintýri“ alþýðunnar á Íslandi. Góða nótt.