05.05.1938
Efri deild: 63. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

136. mál, gerðardómur í farmannakaupdeilu

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Við þessar umr. get ég verið stuttorður. Um tilefni frv. þarf ekki mikið að ræða. Það skýrir sig með þskj. þeim., sem vitnað er í í grg. En mér þykir hlýða að mæla nokkur orð fyrir okkur Alþýðufl.menn hér í d. og lýsa afstöðu Alþfl. til lögþvingaðra gerðardóma í kaupdeilum. Hún er óbreytt frá því, sem hún ætíð hefir verið og var glögglega mörkuð af þm. flokksins við afgreiðslu gerðardómslaga þeirra, sem á þessu þingi voru samþ. í tilefni af kaupdeilu sjómanna og togaraeigenda í byrjun síðustu vertíðar.

Alþfl. telur skipun slíkra gerðardóma, jafnvel þó að settir séu eftir kröfu verkalýðsins, varhugaverða vegna fordæmis, og engu síður, þó að í einstökum tilfellum geti staðið svo á, að verkalýðurinn þurfi ekki að óttast niðurstöðu slíks gerðardóms. En þar sem hér hefir þegar náðst samkomulag milli aðilja í kaupdeilu stýrimanna og útgerðarmanna um, að gerðardómur skeri úr um lausn deilunnar, og hér er því í raun og veru aðeins um það að ræða að staðfesta hið frjálsa samkomulag, en aðalatriðið er að tryggja með l., að aðiljar verði, að sætt á kominni, ekki í neinu látnir gjalda þátttöku sinnar í deilunni. en á það hafa stýrimenn lagt höfuðáherzlu, en útgerðarmenn hinsvegar ekki viljað tryggja nægilega og jafnvel gefið hið gagnstæða í skyn, getur Alþfl. fyrir sitt leyti eftir atvikum fylgt frv. og mun greiða því atkv., en jafnframt vill hann lýsa því skilmerkilega yfir, að með þeirri afstöðu sinni í þessu einstaka tilfelli telur hann ekki, að skapað sé neitt fordæmi, og mun hér eftir sem hingað til halda óbreyttri afstöðu sinni til slíkrar löggjafar yfirleitt.