05.05.1938
Efri deild: 63. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

136. mál, gerðardómur í farmannakaupdeilu

*Jóhann Jósefsson:

Það er ekki vonum fyrri, að frv. til þess að binda enda á hina mjög skaðlegu deilu kemur fram, og hefði ég vænzt þess, að hæstv. forsrh. færði það fram sem aðalröksemd fyrir þessu máli, en svo var ekki að heyra á ræðu hans. Þjóðin getur ekki risið undir því lengur, að skipin séu bundin hér við hafnargarðinn og flutningar lendi hjá útlendum skipum. Það er og líklegt, að Alþýðusamband Íslands, eða sú grein þess, sem hefir staðið að deilu þessari, sjái, að málið er komið í öngþveiti. Allt þetta er augljóst mál.

Hinsvegar var svo að skilja á röksemdum hæstv. forsrh. eins og að sú eina nauðsyn, sem fyrir lægi, væri að forða hermdarverkum af hálfu Eimskipafél., þess félags, sem hann eingöngu minntist á, í garð starfsmanna sinna. Þetta er því óviðkunnanlegra sem vitað er, að einmitt Eimskipafél. býr bezt að öllum sínum starfsmönnum þeirra félaga, sem hér við land sigla.

Ég vil taka undir með hv. 1. þm. Reykv. um þetta atriði. Það var og augljóst af grg. þeirri, sem hv. 3. þm. Reykv. las hér upp, að sami blærinn var á henni og á ræðu hæstv. forsrh. Ég vil líka taka undir þá ósk hv. 1. þm. Reykv., að hæstv. forsrh. geri skýrari grein fyrir þessu en fram kom í ræðu hans. Það ætlast enginn til neinna hefnda á milli þessara aðilja, þegar þeir sættast. En í ræðu hæstv. ráðh. kom það ekki skýrt fram, að gerður væri greinarmunur á þeim óróa eða skaða, sem kann að leiða af slíkri deilu, og því, að deilan sé ólöglega hafin. — Ég held, að það féh, sem mér virtist eins og verða fyrir ámælum hæstv. forsrh., eigi það sízt skilið, að neitt komi fram, sem megi skilja eins og hv. 1. þm. Reykv. og ég og ef til vill fleiri þm. hlutu að skilja ræðu hans.