05.05.1938
Efri deild: 63. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

136. mál, gerðardómur í farmannakaupdeilu

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Hv. þm. Vestm. minntist á, að ég hefði ekki fært rök fyrir því, af hverju ég flytti þetta mál. Ég gat um það í fyrri ræðu minni, að ég mundi reyna að verða stuttorður, en vitanlega þyrfti það langrar skýringar við, hvernig annað eins kom fyrir og það, að sættir allar strönduðu á slíku atriði, sem hér er um að ræða. Þetta er byggt á fullkomnum misskilningi hjá hv. þm. Vestm. Ef hv. þm. hefði viljað lesa grg. frv., gat hann séð það. Þar stendur, af hverju frv. sé flutt. Ég vil lesa upp nokkur orð úr grg., með leyfi hæstv. forseta: „3iestallur íslenzki flutningaskipaflotinn liggur nú hér í höfn. Þessi stöðvun veldur meira tjóni en þjóðin fær afborið. Þykir því ekki annað fært en að flytja frv. þetta og lögbjóða gerðardóm í deilunni.“ Þá vænti ég, að þetta atriði sé upplýst.

Eg vil skjóta því til áheyrenda, hvort ég hafi sagt eitt einasta hnjóðsyrði í garð Eimskipafél. Það er einkennilegt að vera að gera mér upp slík orð. Ég er ekki vanur að leiðrétta ræður mínar og ráðlegg hv. þm. að lesa handrit ræðuskrifara. Ég hefi sagt frá því, um hvað ágreiningurinn er. Ég hefi meira að segja lagt dóm á það. Ég sagði: „Mér dettur ekki í hug að vænta þess, að Eimskipafél. ætli að fara að reka neina hefndarpólitík.“ Mér þykir leitt, þar sem ég orðaði mína ræðu svo, eins og allir herðu, að hv. þm. skuli láta sér þessi orð um munn fara.