05.05.1938
Efri deild: 64. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

136. mál, gerðardómur í farmannakaupdeilu

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Ég vil ekki fara að tefja málið með því að deila um þetta atriði, enda skal ég játa, að ég er þessu ekki svo persónulega kunnugur, að ég geti sagt um, hvernig gangur deilunnar hefir verið. En ég vil aðeins leiðrétta hjá hv. form. allshn., að ég hafi sagt nokkuð um það, að ég væri þeirrar skoðunar, að þarna væri um enga deilu að ræða. Ég sagði, að komið hefði til tals við umr. í n., að ekki mundi vera eins ástatt með þessi félög og hin. Og mér hefir a. m. k. verið sagt, án þess að ég selji það dýrara en ég keypti það, að stýrimenn hjá þessum félögum hafi ekki óskað eftir verkfalli og hafi verið á móti því. Hitt er annað mál, að gera má ráð fyrir því að þeir hafi gjarnan viljað þiggja einhverjar kjarabætur, og e. t. v. að þeir hafi, eins og oft gerist og gengur hjá þeim, sem greiða atkv. á móti verkfalli, fylgzt með í því samtakanna vegna.

Annars sé ég enga ástæðu til þess, að við séum að deila um þetta, þar sem ekki er lagt til að breyta því á neinn hátt.