05.05.1938
Neðri deild: 63. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

136. mál, gerðardómur í farmannakaupdeilu

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Þær ástæður, sem liggja til þess, að þetta frv. er lagt fram hér á hæstv. Alþ., koma skýrt fram í grg. þess. Þess vegna þarf ég ekki að hafa um málið neina verulega framsögu. Málið er líka mjög einfalt. Það verður ekki komizt hjá því að leysa þessa deilu; og fyrst og fremst er vegna þess tjóns, sem hún veldur, aðkallandi nauðsyn að leysa hana.

Eins og kemur fram í grg., hafa deiluaðiljar orðið við þeirri beiðni, að leggja málið í gerð. En þegar til þess kom að ná samkomulagi um gerðardómsmydunina, strandaði málið á því, að aðiljar gátu ekki komið sér saman um það, hvernig ætti að orða ákvæðin um það, að deiluaðilar skyldu í engu gjalda þess hvor hjá öðrum, að þeir hefðu tekið þátt í deilunni. Um þetta getur hver hv. þm. fengið fullnægjandi vitneskju með því að lesa fylgiskjöl frv. Ætla ég svo ekki að hafa þessa framsögu lengri, en þar sem fyrirliggur samþykki frá báðum aðiljum um, að málið skuli lagt í gerð, og nú ósk frá öðrum aðiljanum um, að samþ. verði um það l. á Alþ., og sennilega ekki óvilji hins, að það verði gert, þá vænti ég þess, að hv. þm. geti samþ. þetta frv., og það sem fyrst, þannig að sem allra skemmstar umr. þurfi að verða um það hér í hv. d.