05.05.1938
Neðri deild: 63. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

136. mál, gerðardómur í farmannakaupdeilu

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég get orðið við tilmælum hæstv. forsrh. um að tefja ekki þetta mál. Við kommúnistar höfum áður haft tækifæri hér í þinginu til þess að lýsa afstöðu okkar til gerðardóma í vinnudeilum, og sú afstaða er óbreytt.

Því hefir verið haldið fram, að félagið, sem þarna á hlut að máli, hafi óskað eftir, að þessi leið yrði farin. Ég býst nú við, að stýrimennirnir hafi enganveginn óskað eftir þessu, heldur hafi þeir verið nauðbeygðir til að fara fram á það, eingöngu af því, hvernig atvinnurekendur, sérstaklega Eimskipafélag Íslands, hafa komið fram, með það fyrir augum að þvinga ríkisvaldið til afskipta af þessari deilu, til þess að atvinnurekendastéttin geti fengið gerðardóm í sambandi við vinnudeilur yfirleitt.

Ég álít, að sú brtt., sem hér liggur fyrir frá hv. 3. þm. Reykv., myndi vera fullnægjandi til þess að leysa þessa deilu. Eina atriðið, sem strandaði á í sambandi við frjálsan gerðardóm, var það, hvort atvinnurekendur ættu að hafa möguleika til þess að hefna sín á einhvern hátt á þeim, sem hafa tekið þátt í verkfallinu, og ef þessi brtt. yrði að l., myndi það þýða, að atvinnurekendum yrði gert það ómögulegt. Ef Alþ. samþ. þessa brtt., væri málið því komið á þann grundvöll, að hægt væri að leysa delluna. Við kommúnistar munum því greiða atkv. með till., en á móti frv. sjálfu óbreyttu.