05.05.1938
Neðri deild: 63. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

136. mál, gerðardómur í farmannakaupdeilu

*Ólafur Thors:

Það eru aðeins örfá orð. Hæstv. forsrh. hefir nú staðfest þann skilning minn á niðurlagsorðum 1. gr., að það sé tilgangurinn, að sakir falli niður. En ég hefi áður leitt athygli að því, að það orki tvímælis, hvort löggjafinn geti samþ. þetta vegna fyrirmæla stjskr. og með tilliti til 10. og 14. gr. reglugerðar um eftirlaunasjóð Eimskipafélags Íslands, en ég hirði ekki um að tefja umr. með því að fara frekar út í það.

Ég vil mótmæla því, sem hér hefir verið slegið fram, að af hálfu Eimskipafélagsins og Skipaútgerðarinnar, því að þessir aðiljar stóðu saman, hafi verið gerð nokkur tilraun til þess að sýna stífni í þessu máli, heldur stafar þetta, eins og ég áður hefi getið um, af fyrirmælum 10. og 14. gr. fyrrnefndar reglugerðar. Ég þykist vita, að forráðamenn þessara fyrirtækja liti þannig á. að stýrimennirnir hafi ekki beitt löglegum ráðum í þessu verkfalli. en ég hefi forðazt að draga það inn í umr., en geri það. af því að hér hefir verið deilt á annan aðiljann að ástæðulausu.

Ég hlustaði mér til nokkurrar ánægju á ræðu hv. þm. Ísaf. Ég er ekki viss um, að þessi grg., sem hann gaf fyrir atkv. sinn, sé rétt, því að það er ekki nema stuttur tími siðan hans flokkur „dró“ sinn ráðh. út úr ríkisstj. einmitt vegna samþ. h um gerðardóm. Ég ætla ekki að fara að troða illsakir við hv. þm. Ég held, að þeim beri ekki mikið á milli, hv. þm. Ísaf. og hv. 3. þm. Reykv., en eins og allir vita, þá hefir hv. 3. þm. Reykv. haft þennan hv. þm. fyrir stýrimann, og legg ég til, að þessi deila verði einnig lögð í gerð, ef hún harðnaði, þegar liði fram á nóttina.