02.05.1938
Sameinað þing: 23. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

1. mál, fjárlög 1939

*Þorsteinn Briem:

Herra forseti! Það vakti undrun hinna flokkanna, að Bændafl. skyldi ekki þegar í stað nota tækifærið til að ráðast á nýja ráðh. í útvarpinu, af því að Bændafl. ætti þar í að hefna frá kosningunum í vor.

Bændafl. hefir skapstillingu til þess að halda persónunum utan við landsmálin. Bændafl. unir því, þótt menn undrist það, að hann rekur ekki haturs- né hefndapólitík, og geymir dómana, þar til dæmt verður af verkunum. Ég mun því einnig að þessu sinni leiða hjá mér að dæma um störf hins nýja atvmrh. þar til þau koma í ljós. Ég geri það því fremur, þar sem Bændafl. hefir fylgt þessari sömu reglu frá upphafi, að dæma eigi um verk stjórnarherranna fyrr en jafnóðum og þau dæma sig sjálf.

Bændafl. tók þann hátt upp í eldhúsumr. í fyrstu, að gagnrýna minnst gerðir hæstv. fjmrh. Olli því í fyrsta lagi það, að svo virtist sem í fari hans og stjórnarháttum lægju tveir straumar, annarsvegar einhver tilhneiging til að hafa hemil á útgjöldunum og velta ögn fyrir sér krónunni, áður en henni væri kastað, en hinsvegar áberandi undanlátssemi við eyðslutilhneigingu sumra flokksbræðra sinna og þróttleysi gagnvart fjárkröfum samstarfsflokksins. Og af því að hæstv. fjmrh. var reynslulítill og óráðinn ungur maður, er hann tók við þessu ábyrgðarmikla starfi sínu, þá hafði Bændafl. tilhneigingu til að virða honum yfirsjónir hans til vorkunnar, með því að hann leit svo á, að ráðh. gæti verið betri maður, ef hann væri í öðrum félagsskap. Hæstv. fjmrh. fór og í fyrstu í einu atriði skynsamlegar að en samráðh. hans. Hinir ráðh. byrjuðu strax að tala og láta í blöðum og útvarpi um það, sem þeim var sjálfum óheppilegast að um væri talað, en það var það, sem þeir væru búnir að gera. Fyrrv. atvmrh. bjó sér strax til sína alkunnu grammófónplötu. Það var platan, sem nú er orðin svo gamalkunn. um harðfiskinn, karfann og síldarverksmiðjurnar. Sú grammófónplata er nú ekki aðeins útspiluð, heldur er fyrrv. atvmrh. nú útspilaður sjálfur úr ríkisstj. eða dreginn, að því er hann segir sjálfur, og skal ég því að svo komnu ekki ónáða hann í sinn náðuga, friðsæla, nýja embætti. Sama er og um grammófónplötu hæstv. forsrh. um afurðasölumálin, um nýbýlin, vaxtatillagið og jarðræktarlögin. Aðalafrekin í afurðasölumálunum voru nú raunar þau, að spilla lagafrv., frá því sem SÍS og undirbúningsnefnd fyrrv. stj. hafði lagt til, einkum með því að draga úr umráðum bændanna sjálfra yfir framkvæmd l. Í nýbýlamálunum voru að vísu sett l., eftir að Búnaðarfélag Íslands hafði hrundið málinu af stað með frv., sem var að ýmsu betra en frv. Framsfl., sem hann bar fram siðar. Þær fáu umbætur, sem í jarðræktarl. felast, voru allar teknar upp úr jarðræktarlagafrv. BændafI., og þó aðeins lítið brot af þeim umbótum, sem Bændafl. hafði barizt fyrir árum saman. En þessar litlu umbætur áttu svo bændur að kaupa með eignarkvöðum, sem sósíalistar settu inn til að tryggja hinn opinbera smám saman eignarrétt yfir parti úr hverri einustu jörð landsins. Hvað snertir vaxtatillagið af fasteignaveðslánum bænda, þá var afrekið nú raunar ekki annað en það, að lækka tillagið, sem áður hafði verið, um þriðjung fyrstu 3 árin, en síðan að afnema tillagið með öllu á 4. árinu, nema að eins á fjársýkissvæðunum. Með þessu átti svo hæstv. ráðh. að hafa gert hvorki meira né minna en að breyta hallæri í góðæri fyrir bændur landsins. Ástæðan til þess, að nokkuð rættist úr afurðasölu bænda síðastliðin ár, er sem kunnugt er fyrst og fremst sú, að bæði freðkjöt, og þó einkum ull og gærur, hækkaði í verði á heimsmarkaðnum, en að hæstv. forshrh. hafi valdið þessari verðhækkun, er hinsvegar ekki kunnugt. Annars hefir stj. greinilega sýnt, hvernig henni hefði sjálfri tekizt að búa, ef hún hefði sjálf átt að búa við sömu markaðsskilyrði á ríkisbúunum eins og hæstv. forsrh. telur svo ágæt fyrir bændurna. Ríkisbúin á Vífilsstöðum og Kleppi fá 9 au. hærra fyrir hvern mjólkurpott við fjósdyrnar en bændurnir fá að meðaltali í mjólkurbúunum almennt. Þessi bú greiða ekki landsskuld, ekki leigur og ekki vexti af bústofni, vélum né neinu því, sem í þau hefir verið lagt, og samt hafa þau tapað um 6 þús. kr. síðastl. ár. Það er því ljóst, að ef þessi stj. hefði sjálf átt að búa við sömu kjör og þau, er kölluð eru góðæriskjör hjá bændum, og fengið sama afurðaverð og reitt 5% vexti af höfuðstólnum, þá hefði stj. tapað ekki aðeins 6 þús. kr. á sínum eigin búrekstri hér skammt frá Reykjavík, þar sem aðstaðan ætti að vera bezt. Þessi grammófónplata hæstv. forsrh. um þau afrek, sem hann sé búinn að gera fyrir íslenzkan landbúnað, er því svo útspiluð og úr sér gengin, að ég sé ekki ástæðu til að minnast á hana frekar, enda er hann hættur við gömlu plötuna og talaði ýmist eins og flokksmaður hv. þm. Seyðf. eða eins og gamall stjórnarandstæðingur, t. d. um stýrimannaverkfallið, sem flokkur hv. þm. Seyðf. berst fyrir með Alþfl. í broddi fylkingar.

Ég kem þá að hæstv. fjmrh. Bændafl. lét sér ekki tíðrætt við hann í fyrstu, af því að hæstv. ráðh. tók í byrjun það hyggilega ráð, að tala um fyrirætluð og óunnin afrek sin, en ekki unnin. Þau afrek, sem hæstv. ráðh. ætlaði sér að vinna, og voru einkum tvö. Í fyrsta lagi að ganga svo frá fjárl., að gjaldaáætlun þeirra gæfi rétta mynd af gjöldunum eins og þau yrðu síðar á ríkisreikningnum, þannig að komizt yrði hjá umframgreiðslum, og í öðru lagi að komið yrði á fullkomnum greiðslujöfnuði við útlönd, þannig að innflutningurinn væri alltaf látinn vera svo miklu minni en sá gjaldeyrir, sem fengist fyrir útfluttu vörurnar, að hann hrykki ekki aðeins til að greiða allar aðkeyptar vörur, heldur væri jafnan til nægur afgangur til greiðslu á umsömdum afborgunum skulda, vöxtum, náms- og ferðakostnaði, erlendum tryggingum og öðrum svonefndum „duldum greiðslum“. Þennan lofsverða ásetning hafði Bændafl. síður en svo neitt við að athuga. Bændafl. gat því leitt það hjá sér, þó að honum sýndust þessi fögru loforð stundum flutt með óþarflega miklum belgingi og fullyrðingum fyrirfram.

Kem ég þá að hinu fyrra afreki, sem hæstv. ráðh. ætlaði að vinna í fjármálastjórn landsins, að forðast umframgreiðslurnar og gæta þess, að fjárveitingarnar á fjárlögum á sínum tíma stæðust á. Allar rekstrargjaldaáætlanir fjárlaganna voru hækkaðar, til þess að komizt yrði hjá umframgreiðslum. T. d. var rekstrargjaldaáætlunin á fjárlögum 1935 hækkuð úr 10,9 millj. kr. upp í 13,1 millj. kr. til þess að hægt yrði að forðast umframgreiðslurnar. Þessum hækkunum til afsökunar færðu ýmsir flokksmenn hans það, að þeir hefðu um leið handjárnað fjmrh. til þess að láta gjöldin eigi fara fram úr áætlun. Einn stuðningsmaður hans komst jafnvel þannig að orði á fundi 1935, að svo vel yrði passað upp á, að þótt gjöldin gætu farið 10 kr. fram úr áætlun, þá yrði það aldrei mikið.

Hvernig hefir hæstv. fjmrh. tekizt þetta?

Á því sama ári tókst það svo, að gjöldin fóru ekki aðeins 10 kr., ekki aðeins 10 þús., ekki aðeins 10 hundruð þús., heldur 2300000 kr. fram úr áætlun. 1936 fóru gjöldin 1,6 millj. fram úr fjárveitingunni, og 1937 urðu umframgreiðslurnar um 2 millj. kr. fram yfir áætlun auk framlagsins vegna fjársýkinnar, sem ég tek ekki með í þessu sambandi. Þau þrjú heilu ár, sem núverandi hæstv. fjmrh. hefir stýrt fjármálum landsins, hafa umframgreiðslurnar því orðið um 2 millj. kr. á ári fyrir utan þau útgjöld, sem stafa af fjársýkinni og eru sérstaks eðlis. En þó hefir verið gífurleg eyðsla þar að auki í ríkisstofnunum. Ef tekin eru á sama hátt til samanburðar þau tvö heilu ár, sem fyrirrennari hans var fjmrh., sést, að umframgreiðslurnar á rekstrarreikningi hafa verið 2,3 millj. En þar er þess að gæta, að þá voru rekstrargjöldin áætluð á 3. millj. kr. lægri að meðaltali hvert ár, og þess utan ekki tekin í áætlun ný útgjöld vegna h, sem samþ. voru á sama þingi, eins og nú er gert.

Hæstv. fjmrh. hrósaði sér eigi lítið af því á fyrsta stjórnarári sínu, hversu honum hefði tekizt að gera gjaldaáætlun fjárlaganna svo úr garði, að hún gæfi sem réttasta mynd af gjöldunum eins og þau yrðu á hverju ári, svo að komizt yrði hjá umframgreiðslunum. Það var rétt, að gjaldaáætlanirnar voru hækkaðar, og það stórlega. En umframgreiðslurnar héldust hara eftir sem áður. Þær urðu, þrátt fyrir stórum hækkaða áætlun, lítið lægri en á meðan gjaldaáætlunir. var ónákvæmari og á 3. millj. kr. lægri þau 2 heilu ár, sem fyrirrennari hans var fjmrh., svo að ekki séu fleiri dæmi talin. Þegar þessa er gætt, er auðsætt, að þær raunverulegu umframgreiðslur eru miklu meiri, miðað við samskonar áætlun þau 3 heilu ár, sem núverandi fjmrh. hefir farið með fjármálastjórnina, heldur en þau 2 heilu ár, sem fyrirrennari hans hafði hana með höndum, og þótti þó núverandi hæstv. fjmrh. þar þurfa stórar umbætur á. En hvað hefir hæstv. fjmrh. fundið upp til að afsaka þetta? Hann hefir fundið upp það snjallræði, að halda því fram, að umframgreiðslurnar séu þó hlutfallslega lægri hundraðshluti af áætluninni en áður. Já, þakka skyldi, þar sem búið var að hækka áætlunina um millj., einmitt til þess að umframgreiðslurnar yrðu sama sem engar. Þetta er því ein af þeim blekkingum, sem hæstv. ráðh. ætlar þeim að gleypa, sem lítið fylgjast með, og staðfestir aðeins hið góða og gamla spakmæli, að það, sem að helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann. Það er því ljósi, að þetta fyrsta afreksverk, sem hæstv. fjmrh. ætlaði að vinna, hefir honum ekki tekizt.

Þá kem ég að því afrekinu, sem hæstv. fjmrh. þykist hafa unnið mest, þ. e. greiðslujöfnuðinum við útlönd.

Og þá er bezt að láta hv. fjmrh. tala fyrst sjálfan.

Í fjárlagaræðu sinni á fyrra þinginu 1937 hóf hann mál sitt á þessa leið: „Í fyrstu fjárlagaræðu minni haustið 1934, lagði ég áherzlu á, að stj. liti á það sem eitt af sínum stærstu verkefnum, að bæta greiðslujöfnuðinn við útlönd. Þótt stj. vildi á engan hátt gera litið úr þeirri þýðingu, sem fullur greiðslujöfnuður á fjárlögum og landsreikningi hefir fyrir þjóðarbúskapinn, þá varð þó, að hennar áliti, hitt að teljast aðalatriðið, að unnt væri að standa í skilum út á við“.

Hér segir hæstv. fjmrh. það skýrum stöfum, að það hafi verið aðalverkefni stjórnarinnar, að ná greiðslujöfnuðinum út á við, svo að hægt væri að standa í skilum við útlönd. Þetta var lofsvert verkefni, og því þurftum við innflutningshöft.

En hvernig hefir þá þetta höfuðverkefni stjórnarinnar tekizt?

Ég sleppi alveg að eltast við allar þær staðlausu blekkingar, sem stjórnarflokkarnir hafa þyrlað upp um þetta mál. Ég lít á þær skýrustu tölur, sem hægt er að fá um þetta efni úr opinberum skýrslum og úr yfirlýsingum fjmrh. sjálfs um verzlunarjöfnuðinn í þau þrjú heilu ár, sem núv. hæstv. fjmrh. hefir stýrt fjármálum landsins. Og ég geri hæstv. ráðh. þann greiða, að taka siðan til samanburðar þá fjármálastjórn, sem núv. hæstv. fjmrh. hefir mest deilt á, en það er fjármálastjórn fyrirrennara h ans. Miða ég þá á sama hátt við þau 2 heilu ár, sem hann var fjmrh.

Ef tekin eru hin 3 heilu ár núv. hæstv. fjmrh., 1935–1937, þá hefir verzlunarjöfnuðurinn verið hagstæður um 5,3 millj. kr. á ári að meðaltali, eftir því sem fjmrh. hefir skýrt frá hér á þingi fyrir fáum dögum, og er það raunar um 400 þús. hærra en aðrar skýrslur segja til um, en því skal því hér fylgt. En ef tekin eru hin 2 heilu ár fyrirrennara hans til samanburðar eftir opinberum skýrslum, þá kemur í ljós, að þau árin hefir verzlunarjöfnuðurinn verið hagstæður um 6,3 millj. á ári, líka að meðaltali.

Hér kemur þá í ljós, þegar staðreyndirnar einar tala, að verzlunarjöfnuðurinn hefir verið 1 millj. og 200 þús. kr. óhagstæðari á ári, að meðaltali, í tíð EystJ. en í tíð fyrirrennara hans.

Í hverju liggur þetta, að núv. hæstv. fjmrh. hefir, þrátt fyrir sitt háa ris, reynzt í þessu efni minni maður en fyrirrennari hans, sem núv. fjmrh. hefir a. m. k. ekki fundizt mjög til um? Liggur það í því, að verzlunarárferðið hafi verið óhagstæðara í tíð EystJ en fyrirrennara hans.

Nei, því að aldrei hafa, síðan fyrir stríð, útflutningsvörur landsmanna frá sjó og sveit verið í lægra verði á erlendum markaði en 1932, hinu fyrra ári ÁÁ. Liggur það þá í hinn, að útflutningurinn hafi verið minni síðan núv. fjmrh. tók við völdum? Nei, því að hin 3 heilu ár núv. fjmrh. hefir útflutningurinn verið að meðaltali 52 millj. eftir skýrslu hans sjálfs. En hin 2 heilu ár fyrirrennara hans var meðalútflutningurinn ekki nema 48,8 millj., eða á 4. millj. minni.

Það skal að vísu játað, að ein útflutningsvara vor, saltfiskurinn, hefir minnkað. En þar á móti kemur hitt, að ýmsar aðrar útflutningsvörur vorar hafa vaxið meira en því svaraði, bæði að magni og verðgildi, svo að meira hefir gert en að bæta upp þann halla, svo sem gleggst sést af því, að heildarútflutningurinn hefir vaxið úr 18,8 millj. að meðaltali árin 1932 og 1933 upp í 52 millj. að meðaltali árin 1935–1937.

Nákvæmastur samanburður á verzlunarjöfnuðinum, miðað við útflutningsframleiðslu landsmanna í tíð núv. fjmrh. og fyrirrennara hans, fæst með því, að draga innflutningsverðmætin frá útflutningnum árlega, og sjá svo, hvað afgangurinn hefir numið mörgum prósentum eða hundraðshlutum af útflutningnum að meðaltali í tíð hvors þeirra um sig. Þá kemur í ljós, að á þessum 3 heilu árum, sem núv. hæstv. fjmrh. hefir farið með fjármálin, hefir þessi afgangur, eða hinn hagstæði verzlunarjöfnuður, verið 5,3 millj. að meðaltali af 52 millj. meðalútflutningi á ári, eða um 10,2% af útflutningnum. En ef 2ja ára tímabil fyrirrennara hans er tekið á sama hátt, þá var afgangurinn, eða hagstæður verzlunarjöfnuður, um 6,5 millj. að meðaltali af 18,8 millj. kr. meðalútflutningi, eða um 13,5% af útflutningnum.

Nú er það öllum skiljanlegt, hve miklu auðveldara er að ná hagstæðum verzlunarjöfnuði með miklum útflutningi en litlum. Þó hefir núv. hæstv. fjmrh. ekki náð eins hagstæðum verzlunarjöfnuði með sínum 52 mill. meðalútflutningi eins og fyrirrennari hans náði meðan meðalútflutningurinn var aðeins 48,8 millj. Verzlunarjöfnuðurinn er 1½ millj. kr. lakari árlega að meðaltali hjá núv. fjmrh., með mikla útflutninginn, heldur en hjá hinum mjög gagnrýnda fyrirrennara hans, með litla útflutninginn. En ef aðeins er miðað við það, hvað hinn hagstæði verzlunarjöfnuður séu margir hundraðshlutar af útflutningnum, þá eru þeir 33% fleiri hjá fyrrv. fjmrh. en hjá núv. eftirmanni hans.

Af þessu sést, að þegar alls er gætt, þá hefir verzlunarjöfnuðurinn verið 33% lakari hlutfallslega eftir útflutningnum í tíð Eysteins Jónssonar en í tíð fyrirrennara hans. Þetta eru þá öll afrekin!

Hæstv. fjmrh. hefir aldrei sparað það að taka munninn fullan. Hann ætlaði sér að verða mikill maður á því að gagnrýna fjármálastjórn fyrirrennara sinna, nema þess eina, sem enn er flokksmaður hans. Hann ætlaði sér að umskapa fjármálastjórnina með því að hækka gjaldaáætlun fjárlaganna, svo að hún yrði sem réttust mynd af hinum raunverulegu greiðslum. En reynslan hefir sýnt, að eyðslan hefir orðið meiri, og umframgreiðslurnar eru enn nær því í sama farinu, þrátt fyrir stórhækkaða áætlun. Hann ætlaði sér og að umskapa verzlunarjöfnuðinn, svo að alltaf væri nægur gjaldeyrir afgangs innflutningi fyrir afborgunum og vöxtum og öðrum duldum greiðslum og skuldbindingum til útlanda. Hann fékk alla þá löggjöf, sem hann óskaði, til þess að hann gæti haft fullt vald á innflutningnum og gjaldeyrismálunum. Hann var svo heppinn. að ársútflutningurinn var á 1. millj. kr. hærri að meðaltali í tíð hans heldur en í tíð fyrirrennara hans. Hann var svo heppinn, að á síðastl. ári varð útflutningurinn nær 60 millj., og hefir hann aldrei verið neitt nándar nærri svo hár síðan 1930, og aðeins 5 sinnum í allri sögu landsins að nokkrum verulegum mun hærri en hann var nú.

En samt er nú allt dottið úr reipunum. Gjaldeyrismálin eru nú komin í svo mikið öngþveiti, að slíkt hefir aldrei fyrr þekkzt. Mörg heilbrigð verzlunar- og iðnfyrirtæki hafa nú svo gersamlega tapað lánstrausti sínu erlendis, að þau fá ekki venjulegan 3ja til 6 mánaða gjaldfrest hjá sínum gömlu viðskiptamönnum, af því að ekki hefir verið hægt að yfirfæra skuldagreiðslur þeirra að undanförnu, þó að þau hafi haft gjaldeyrisleyfi og staðið með íslenzka peninga í höndunum. Alkunnugt er, að margt ísl. námsfólk sveltur nú í útlöndum, vegna þess, hve örðugt er að fá handa því erlendan gjaldeyri héðan að heiman. Alkunnugt er, að mesta verzlunarfyrirtæki bændanna hefir, þrátt fyrir verðhækkun landbúnaðarvara erlendis orðið að auka skuld sína utan lands á 2. millj. kr. Og hlýtur það að stafa af gjaldeyrisvandræðunum, því að samtímis hefir hagur þess stórbatnað hér innanlands. Alkunnugt er, að tóbakseinkasalan, sem nú hefir mjólkað, að tolli meðtöldum, á 3. millj. kr. í ríkissjóðinn, hefir, þrátt fyrir þenna gróða sinn, verið í svo miklum vanskilum ytra að forstjórinn varð sjálfur að sigla til útlanda f. h. ríkisins til að fá greiðslufrest eins og vanskilamaður. Allir vita, að áfengisverzlunin er nú á síðustu 3 árunum búin að selja áfengi fyrir á 11. millj., eða fyrir nær þrisvar sinnum hærri upphæð en allt landverð allra jarða í Austuramtinu. Menn skyldu því ætla, að þegar ríkisstjórnin er búin að selja vín og spíritusblöndur fyrir þrefalt landverð allra jarða í heilum landsfjórðungi og græða á því á 4. millj. kr. árlega, — þá gæti hún borgað sínar vinskuldir í útlöndum. Svo er það þó ekki. Áfengisverzlunin og aðrar einkasölur ríkisins hafa nú aukið vanskil sín á síðastl. ári á 6. hundrað þús., af því að gjaldeyrir er ekki til.

Allir vita, hvaða áhrif slíkt ástand hlýtur að hafa á viðskiptatraust landsins út á við, þegar þvílík vanskil eru hjá þeim stofnunum, er allir erl. viðskiptamenn hljóta að líta á svo sem þar væri að eiga við ríkið sjálft. Það er og ekki að undra, þó að lánstraust almennra verzlunar- og iðnfyrirtækja og annara atvinnufyrirtækja, og svo bæjarfélaganna, verði ekki mikið erlendis, þegar jafnvel gróðamestu fyrirtæki sjálfs ríkisins eru í vanskilum, af því að gjaldeyrir er ekki til. Það er og vitað, að árlega safnast nú saman svo milljónum skiptir innifrosið erlent fé í landinn, vegna vanskila við útlönd. En innifrosið fé er ekkert annað en erlend skuld, sem er í vanskilum.

Það er því ljóst mál, að því að hæstv. fjmrh. hafi fengið alla þá löggjafaraðstoð, sem hann óskaði, til þess að hafa hemil á gjaldeyrismálunum, þá hefir hann misst vald á þeim málum, og því hefir nú allt snarazt af hjá hæstv. ráðh.

Þetta sitt aðalverkefni, að koma lagi á gjaldeyrismálin út á við, hefir hæstv. fjmrh. því ekki heldur tekizt. Og nú er svo komið, að hæstv. fjmrh., sem áður tók munninn svo fullan, hefir nú þegar gefið upp alla von um að geta með sömu stjórn náð þeim greiðslujöfnuði, að unnt verði að standa í skilum við útlönd um næstu þrjú ár. Og því hefir hann nú beðið um heimild þingsins til þess, auk 3ja millj. lánsins, sem hann er að taka, að mega nú taka erlent lán upp á 12 millj. Þar af á að vísu 1 millj. að fara í nýja síldarverksmiðju. En hitt á að nota til að létta á gjaldeyrisþörfinni um nær 4 millj. kr. á ári, það sem eftir er kjörtímabilsins, eða á meðan að hann sé við völd.

En fær þá hæstv. fjmrh. þetta lán? Hvað tekur við, þegar þarf að fara að borga þetta lán, — ef það fæst? Hvað tekur við, ef að lánið fæst ekki?

Nú í vetur þegar Leon Blum foringi sósíalistafylkingarinnar frönsku var að fara frá völdum, þá lýsti hann ástandi stj., sem hann veitti forsæti. Hann sagði, að hún væri eins og illa kominn kaupsýslumaður, sem lægi andvaka í svitabaði og væri að velta fyrir sér, hvar og hvernig hann gæti slegið sér út víxil til að komast hjá gjaldþroti á morgun. „Þannig má stjórn Frakklands ekki vera“, sagði hann. Og því vildi hann vinna það til að fara sjálfur frá völdum, til þess ef hægt væri að mynda þjóðstjórn, eða trausta meirihluta þingræðisstjórn, til að reyna að kippa í lag fjármálum ríkisins.

Svona er nú einnig komið fyrir landsstjórn vorri, og raunar mestöllu atvinnulífi þjóðarinnar, fyrir atbeina sósíalfylkingarinnar íslenzku. Ég vil því enn af nýju skora á stærsta þingflokkinn að beita sér fyrir myndun þjóðstjórnar eða traustrar meirihluta þingræðisstjórnar til þess að reyna að koma fjármálum og atvinnulífi þjóðarinnar aftur á réttan kjöl. Því að svona má stjórnin ekki heldur vera á Íslandi.