02.05.1938
Sameinað þing: 23. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

1. mál, fjárlög 1939

*Finnur Jónsson:

Það fór svo að vonum, að hv. þm. Dalm. skildi ekki við Framsfl. á þessari nóttu, án þess að hann klæddi sig í biðilsbuxurnar að vanda, enda þótt hann fengi hryggbrot sem fyrr. Ég hélt að hv. þm. væri að tala upp úr svefninum, er hann sagði, að gjaldeyririnn hefði ekki verið notaður til annars en að kaupa tóbak og brennivín. Hann kvað fjárhag ríkisins illa komið af þeirri ástæðu, að Framsfl. hefði sýnt þróttleysi gagnvart fjárkröfum Alþýðuflokksins. En þessar fjárkröfur hafa verið í því fólgnar, að Alþfl. hefir fengið á fjárl. fé til alþýðutrygginga, elli- og sjúkratrygginga. Þetta telur hann eftir. Alþfl. hefir líka fengið aukið framlag til atvinnubóta. Það telur hann einnig eftir. Alþfl. hefir fengið því framgengt, að aukin voru framlög til að bæta úr stórvandræðum og raunar hungursneyð, sem stafað hefði getað af því, að markaðir brygðust fyrir sjávarafurðirnar. Þetta telur hann eftir. — Að svo mæltu sé ég ekki ástæðu til að gera þessum hv. þm frekari skil. Fjárkröfur Alþýðuflokksins hafa allar miðað að því að bæta kjör alþýðunnar við sjóinn, og er það hv. þm. samboðið, að hann skuli sjá eftir hverjum eyri, sem til þess hefir farið.

Hv. þm. A.-Húnv. söng hér að miklu leyti sama sönginn. Hann blandaði saman öllum kaupkröfum á þessu ári og fyrr og kallaði kröfur sjómanna nautnagirni og heimtufrekju, er þeir vildu fá mánaðarkaup sitt hækkað úr 214 kr. Ætli hann myndi ekki hafa sömu orð um útgerðarmenn, sem vaðið hafa í bankana og tekið þaðan það fé, sem þeim sýndist.

Hv. þm. barði mjög lóminn og sagði tap á öllu og til dæmis tók hann það, að 435 þús. kr. halli hefði orðið á Síldarverksmiðjum ríkisins síðastliðið ár. Þetta er alveg tilhæfulaust. Þrátt fyrir mikið verðfall vantaði aðeins 120 þús. kr. til þess, að síldarverksmiðjurnar gætu borgað að fullu sjóðagjöld sín, sem námu, með fyrningargjaldi o. fl., um 500 þús. kr. Á þeim tveim árum, sem fyrrv. stj. verksmiðjanna sat, bættu þær hag sinn um 1 millj. kr. Þetta kallar hv. þm. tap. Væri gott, ef hann gerði sömu kröfur til þeirra fyrirtækja, sem stjórnað er af sjálfstæðismönnum, er vaðið hafa í bankana og sóað milljónum á milljónir ofan af fé landsmanna. — Læt ég svo þessi orð nægja um hv. þm. A.-Húnv., en sný mér að hv. 3. þm. Reykv. Sú stranga húðstrýking, sem hann fékk hjá hv. þm. N.-Ísf. á laugardagskvöldið, hefir auðsjáanlega farið svo í taugarnar á honum, að hann hefir tapað stjórn á skapi sínu. Það er skiljanlegt, að menn geti misst stjórn á skapsmunum sínum á deilufundum, þar sem menn hafa lítinn tíma til umhugsunar. En hv. þm. hafði skrifað heima hjá sér þessa dæmalausu ræðu, sem hann hélt hér, og er hún því yfirveguð óskapstillingarræða. Hann byrjaði með því öfugmæli, að í hópgöngu Alþýðuflokksins í gær hafi verið 260–270 manns, en 1800–2000 í kröfugöngu hans manna og kommúnista. Ég læt áhorfendur um að dæma um þetta. Ég hefi komizt að því af óhlutdrægra manna sögn, að þátttakan í báðum göngunum hafi verið svipuð og í fyrra. Svo að þó að hann færi yfir í kröfugöngu kommúnista, hafa aðrir komið í hans skarð í hópgöngu Alþýðuflokksins, þannig að hún varð ekki minni en í fyrra.

Þá dró hv. þm. nöfn utanþingsmanna inn í umr. á ósæmilegan hátt. Hann fór ósæmilegum orðum um Guðmund Hagalin, og sýnir þetta meðal annars, hve mjög hv. þm. skortir getu til að stjórna skapi sínu.

Hv. þm. talaði um, að Alþýðusambandið hafi falsað meðmæli með vinnulöggjöfinni. Það þótti ekki góður siður hér áður að höggva alltaf í sama farið, en það er þetta, sem hv. þm. gerir. Það var eitt af síðustu verkum Jóns Baldvinssonar, að hann sendi út bréf með frv. En hv. þm. nægir ekki að hafa traðkað á Jóni Baldvinssyni í Dagsbrún og siðan svívirt minningu hans. Hann heldur áfram að svívirða minningu Jóns Baldvínssonar með því að segja, að hann hafi falsað meðmæli með vinnulöggjöfinni. Og þó vill hv. þm. halda því fram, að hann standi enn á grundvelli Alþfl. Hamingjan hjálpi þeim Alþfl., sem ætti eftir að hafa hann fyrir forystumann.

Þá sendi hv. 3. þm. Reykv. hv. þm. N.-Ísf. tóninn. Ég ætla ekki að bera blak af hv. þm. N.-Ísf. Hann stendur jafnréttur eftir þrátt fyrir þessi ummæli. En ég bendi á það, að hv. 3. þm. Reykv. viðurkenndi á laugardaginn, að hann hefði ætlað að flytja frv. um vinnulöggjöf, án þess að verklýðsfélögin eða hann sjálfur hefði séð það.

Hv. þm. kvaðst standa á grundvelli Alþfl. og aldrei verða kommúnisti. Það getur verið, en hann notar þó allar bardagaaðferðir kommúnista gegn Alþfl. Hann skiptir Alþfl. í hægri og vinstri arm og lætur sem hann sé sjálfur frjálslyndur vinstri maður, en við séum hægri menn, sem ekki stöndum lengur á grundvelli Alþfl. Nú eru þeir menn almennt kallaðir vinstri menn, sem vilja hrinda sem flestu í framkvæmd á sem skemmstum tíma. En ég veit ekki til, að hv. 3. þm. Reykv. hafi nokkurn tíma viljað fara hraðar en aðrir alþýðuflokksmenn, heldur miklu fremur hægar. Þegar hátekjuskatturinn var hækkaður 1936, greiddi hann með ólund atkv. með þeirri hækkun. Það má vera, að slíkar skoðanir eigi nú orðið heima í Kommfl. En ég held a. m. k., að aðrar orsakir liggi til þess en frjálslyndi hv. 3. þm. Reykv., að hann leitar nú samstarfs við Kommfl.

Það verða að teljast grátleg örlög hv. þm., að hann skuli nú vera farinn að berjast gegn öllu því, er hann barðist fyrir áður fyrr. Hann veit, að hann verður í minni hl. á næsta alþýðuflokksþingi, og því leitar hann nú aðstoðar kommúnista og íhaldsins. Í l. Alþýðusambandsins hefir t. d. verið ákvæði um það, að fulltrúar á þing sambandsins skuli jafnan vera alþýðuflokksmenn. Við 2. umr. báru kommúnistar fram brtt. við vinnulöggjafarfrv. (þskj. 306), sem hljóðar svo:

„... allir meðlimir stéttarfélaganna skulu kjörgengir til allra stjórnarstarfa og trúnaðarstarfa sambandsins og félaga þess, án tillits til þess, hvaða stjórnmálaflokki þeir fylgja eða tilheyra“.

Þessari till. greiddu atkv. Bændaflokksmaður, hv. 3. þm. Reykv., kommúnistar og íhaldið. En við 3. umr. bera íhaldsmenn fram brtt. á þskj. 373, sem hljóðar svo:

„Allir félagsmenn skulu hafa jafnan rétt til trúnaðarstarfa félagsins og stéttasambands þess, án tillits til þess, hvaða stjórnmálaflokki þeir fylgja“.

Samfylking hv. 3. þm. Reykv., kommúnista og íhaldsins, greiddi þessari till. einróma atkv. Með öðrum orðum: Hv. 3. þm. Reykv. nægir ekki lengur að leita aðstoðar kommúnista til að eyðileggja Alþfl., heldur gengur hann til samvinnu við íhaldið til að eyðileggja ákvæði í l. Alþýðusambandsins, sem verið hefir bezta vörn þess hingað til. Ég vona þó, að hv. 3. þm. Reykv. gangi ekki greitt, þrátt fyrir þennan liðssafnað, að gera allt að engu, sem hann hefir áður unnið til gagns. — Hv. 3. þm. Reykv. talar um hægri alþýðuflokksmenn, sem vilji hindra sameingaræfintýri alþýðunnar á Íslandi. Hann viðurkennir með því, að hann rekur æfintýrapólitík. En pólitík Alþfl. er hinsvegar engin æfintýrapólitík, heldur þrotlaus barátta, sem Jón heitinn Baldvinsson talaði um. 1. maí í gær sýndi það. yfir hópgöngu Alþfl. var þá sami blær og áður hefir verið. yfir kröfugöngu kommúnista var einnig sami blær og áður. Þó söknuðu sumir eins kröfuspjalds sem áður hafði verið þar, en var nú horfið. Það hljóðaði svo: Niður með olíuokrið! En í staðinn var hv. 3. þm. Reykv. sjálfur kominn sem kröfuspjald. Alþýðuflokksmenn vita, að hér er ekki um að ræða neina sameiningu Alþfl. og Kommfl., heldur aðeins það, hvort hv. 3. þm. Reykv. tekst að kljúfa stórt eða lítið brot út úr Alþfl. Alþýðuflokksmenn eru nú búnir að átta sig á því, hvert stefnir í þessu máli. Þeir eru búnir að átta sig á því, að Alþfl. hefir unnið sína miklu sigra á grundvelli laga og réttar, og að það er öruggasta vörnin gegn fasismanum, að stór og sterkur alþýðuflokkur vinni hér á landi á þessum grundvelli. Flokkur, sem ynni hér á grundvelli kommúnismans og talaði um byltingu, sem hann raunar meinti ekki neitt með, yrði til þess eins að æsa upp fasismann hér á landi, og þá mætti svo fara, ef alþýða manna ber ekki gæfu til þess að sjá við slíkum öfgum, eins og fór í Þýzkalandi, þar sem nazisminn náði völdum, að 1. maí, hátíðisdagur verkalýðsins, yrði einskonar háð og spé fyrir verkalýðinn eða hátíðisdagur, sem haldinn væri í minningu þess, að verkalýðurinn beið ósigur í baráttu sinni.

Ég vil ljúka þessum orðum mínum með þessu ávarpi til alþýðuflokksmanna, sem mál mitt heyra: Látið ekki fjörráð kommúnistanna eða æsingar hv. 3. þm. Reykv. villa ykkur sýn. Látið ekki siga yður út af lýðræðisgrundvellinum. Veljið frjálsa hugsun og verndið hagsmuni ykkar og Alþfl. gegn hvers konar árásum, hvort sem þær koma frá kommúnistum eða Héðni Valdimarssyni. Góða nótt.