05.04.1938
Efri deild: 41. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

88. mál, þilplötur o. fl. úr torfi

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Mig langaði aðeins til að gera fyrirspurn. Ég er í engum vafa um það, að ef hægt er á fjárhagslega heilbrigðum grundvelli að vinna slíkt efni og það, sem við sáum hjá hv. 2. þm. Eyf., þá hefði það ákaflega mikil og víðtæk áhrif fyrir okkar þjóðlíf, sérstaklega til sveitanna.

Það er búið að vinna eitthvað töluvert mikið að þessum málum, hve mikið, veit ég ekki. Og reiðingurinn mun ná yfir afarstór svæði, sérstaklega Staðarmýrarnar. Það, sem mig langaði til að fá upplýsingar um, er, hvað rannsóknirnar hafa sýnt, að fengist mikið af þessu efni úr ákveðnu magni af reiðingi, og hversu miklar þær birgðir eru, sem fyrir liggja þarna í Eyjafirði. Þær birgðir eru töluverðar til annarsstaðar í landinu, t. d. í Skagafirði. Þetta eru þau tvö svæði, sem geyma mikið af þessu efni. Þetta er nú kannske meira fyrir forvitnissakir, en þá má lita á það, að ef mikið af reiðingsefni þarf í þessar plötur, og sá efnisviður, sem til er til að vinna úr í Staðarmýrunum í Eyjafirði, er ekki nema tiltölulega fárra ára forði, þá gæti orkað tvímælis, hvort það væri ekki réttara að hafa verksmiðjuna á öðrum stað, þar sem forðinn entist lengi eða miklu lengur. — Ég er ekki að segja, að þetta eigi að vera svona. En eftir því, sem ég veit bezt, munu langmestar birgðir af reiðingi vera í Skagafirði, þar sem hann nær yfir margra mílna svæði og einn til tveggja metra djúpt niður alstaðar. Þótt þetta svæði sé stórt í Eyjafirði, er hitt miklu stærra. Ef rannsóknin er komin svo langt, að hægt sé að gera sér hugmynd um þetta, þá vil ég gjarnan fá upplýsingar hjá hv. flm.