05.04.1938
Efri deild: 41. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

88. mál, þilplötur o. fl. úr torfi

Flm. (Einar Árnason):

Það er ekki óeðlilegt, þótt um þetta sé spurt, en því miður get ég ekki leyst úr þessu til hlítar. Það hafa verið rannsakaðar mýrarnar af sænskum sérfræðingi, og hann felur, að það séu margra ára birgðir þarna, en hve margra, er ekki gott að segja um. En það er eitt í þessu máli, sem verður að taka með í reikninginn. Það er það, hvað verksmiðjan er stór, sem á að framleiða efnið. Ef settur væri upp stóriðnaður, sem er hugsanlegt, verður að byggja á því, að þarna yrði útflutningsvara, en sú verksmiðja yrði svo dýr, að það yrði lítt hugsanlegt að ráðast í svo stórt fyrirtæki. Og ég hygg, að það sé nokkuð sama, hvort það er gert í Eyjafirði eða Skagafirði, að verksmiðjan hlýtur að verða mjög dýr. Hinsvegar, ef það er byggð minni verksmiðja, sem framleiðir aðallega til að fullnægja þörfinni innanlands, þá verður allt miklu viðráðanlegra, og þá endist efnið líklega um fleiri tugi ára. En eins og stendur, er ekki hægt að reikna með því yfirleitt, að þetta verði útflutningsvara. Það er mjög vafasamt, að hægt verði að keppa með byggingarefni á erlendum markaði. Og þegar verið er að ræða um það, hvort það sé gerlegt yfir höfuð að fara út í það, þá verðum við að reikna með því, að það, sem selst innanlands af efni, sé fullkomlega samkeppnisfært, og ekki ætlazt til, að þessi iðnaður sé settur upp með það fyrir augum, að hann sé verndaður með tollum á innfluttum vörum. sem jafngilda þessum. Ég skal ekkert um það að segja, nema kunni að vera í Skagafirði eins mikið eða meira efni. En ég hygg, að Kaupfélag Eyfirðinga muni a. m. k. ekki ráðast í að fara að byggja verksmiðju í öðru héraði en Eyjafirði. Ef rannsóknirnar sýndu, að það væri betra að byggja í öðru héraði en Eyjafirði, þá er náttúrlega ekkert því til fyrirstöðu, að það sé heldur gert, en ég geri tæplega ráð fyrir því, að Kaupfélag Eyfirðinga gengist fyrir því.

Þetta, sem ég nú hefi sagt, er hvergi nærri fullnægjandi svar við því, sem hv. þm. spurði um. Þessar mýrar hafa verið rannsakaðar, bæði hvað víðáttan er mikil, sem efnið fæst úr, og eins, hvað það nær djúpt niður. Og ég geri ekki ráð fyrir því, að þar sé jarðvegsefni, sem nothæft sé verulega í þennan iðnað, sem nái tvo metra niður í jörð. Þegar svo djúpt er komið, er kominn svo mikill leir og sandur í jurtatrefjarnar, að það borgar sig tæpast að láta vinna úr því, því að vinnslan fer þannig fram, að það verður að hreinsa alla möl og leir og sand úr því, sem tekið er upp, svo að aðeins verði eftir jurtatrefjar.