13.04.1938
Efri deild: 48. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

88. mál, þilplötur o. fl. úr torfi

*Frsm. (Erlendur Þorsteinsson):

Herra forseti ! Allhsn. hefir athugað frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 157, og leggur til, að það verði samþ. með þeirri breyt., að aftan við 2. málslið 1. gr. frv. bætist: „Óheimilt er þó að framselja einkaleyfið, nema samþykki atvinnumálaráðherra komi til“. Telur n. rétt, að þetta sé bundið samþykki atvmrh., vegna þess að í frv. er um það talað, að einkaleyfið megi framselja til félags, sem stofnað kunni að verða fyrir tilhlutun þessa kaupfélags (K. E. A.) í þeim tilgangi, að hagnýta einkaleyfið. Hv. 1. flm., 2. þm. Eyf., hefir tjáð mér, að hann sé þessari breyt. samþykkur.

Brtt. á þskj. 247 er ekki annað en orðabreyt., sem breytir ekki efni frv.

Þá hefir einn hv. nm. skrifað undir nál. með fyrirvara að því er snertir sérleyfistímann, og telur hann hann óhæfilega langan. Mér þykir hann líka nokkuð langur. En með tilliti til þess, sem fram hefir komið, hversu mikill kostnaður hlýtur að verða við það að koma þessu fyrirtæki á stofn, og eins af því, hve mikla nýjung hér er um að ræða, sem mundi hafa sparnað á erlendum gjaldeyri í för með sér, þá tel ég ekki rétt að gera ágreining út af þessu og hefi því lagt til, að frumvarþið verði samþykkt óbreytt, og hv. þm. Hafnf. líka, þó að hann geri fyrirvara um tímalengdina.