03.05.1938
Sameinað þing: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

1. mál, fjárlög 1939

*Stefán Stefánsson:

Herra forseti! Hæstv. forsrh. og landbnrh. reyndi að þvo sig í gærkvöldi, eins og Pílatus forðum, af öllum afskiptum af ríkisbúunum á Kleppi og á Vífilsstöðum og skaut sér á bak við þáv. atvmrh., HG, núv. hv. þm. Seyðf. Hæstv. ráðh. gat samt ekki komizt hjá því að vera með nokkrar blekkingar í sambandi við ríkisbúin. Hann kom inn á það, að búin væru ekki sambærileg við bú bændanna, því að þau væru rekin í sambandi við sjúkrahús. En það er ekkert samband á milli sjúkrahúsanna og ríkisbúanna annað en það, að mjólkin er seld frá ríkisbúunum til spítalanna 9–10 au. hærra verði en þeir bændur almennt fá fyrir þá mjólk, sem þeir selja til mjólkurbúanna. Það stendur því óhaggað, sem ég sagði í gærkvöldi, að búreksturinn á ríkisbúunum er sá aumasti sem hugsast má. Ég benti á það, að á síðasta ári hefði orðið um 20 þús. kr. taprekstur á búunum, ef búin hefðu greitt vexti af því fé, sem bundið er í búunum. — Annars skal ég bæta því við til viðbótar því, sem ég sagði í gærkvöldi, að svo aumur er hagur búanna, að ríkisstj., eða ráðh. sá, sem er yfirmaður búanna, hefir ekki séð sér annað fært en að hækka verð mjólkurinnar úr 28 au. upp í 32 au., svo að búin selja mjólkina 13 au. hærra til búanna heldur en meðalverðið er til bænda.

Þá kom hæstv. fjmrh. hér fram í gærkvöldi og bar á okkur hv. þm. Snæf., að við værum að ljúga skuldum upp á ríkissjóðinn. Ég byggði mína reikninga á tölum, sem útvarpið flutti, og tók úr riti því, sem skipulagsnefnd atvinnumála hefir látið semja. Ég skora á hæstv. ráðh. að fletta þessum tölum upp og sjá, hvort þar er ekki rétt með farið. Ef hann gerir það ekki, þá stimplar hann ekki aðeins mig sem lygara, heldur líka skipulagsnefnd atvinnumála, en í henni áttu sæti m. a. hv. þm. S.-Þ., JJ, hv. 2. þm. Skagf., StgrS, og hv. 7. landsk., EmJ. Það er gott fyrir þær n., sem hafa starfað og munu starfa í framtíðinni, að fá að vita það, að hæstv. ráðh. viðurkennir því aðeins niðurstöður þeirra, að hann geti notað þær sér til pólitísks framdráttar, en segir þær ósannindi og lygar, ef þær ganga á móti því, sem hann vill vera láta.

Við hv. þm. Dal., ÞBr, höfum flutt till. til þál. í fimm liðum um að jafna og samræma laun starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana, um að lækka laun þeirra starfsmanna um 15%, er laun taka utan launalaga og hafa samanlagt yfir 4500 kr., um að takmarkaður væri réttur starfsmanna ríkisins til að hafa með höndum mörg störf og taka fyrir margföld laun, um að nöfn þeirra manna væru birt í starfsmannaskrá ríkisins, er hefðu yfir eitt þúsund kr. fyrir aukastörf, og um að birt væri yfirlit yfir ferðakostnað og dagpeninga þeirra manna, er ferðast fyrir ríkisfé. Enda þótt allir þessir liðir séu réttmætir og sjálfsagðir, lagðist hæstv. fjmrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar mjög á móti till.

Óréttlætið og ósamræmið er mjög áberandi um launagreiðslur hjá hinu opinbera. Má t. d. aðeins á það minna, að prestar landsins hafa að byrjunarlaunum sömu laun og skrifstofudömur hjá ríkiseinkasölunum. Kennarar menntaskólans hafa sömu laun og þeir, er afgreiða tóbak og sígarettur hjá tóbaksverzlun ríkisins. Prófessorar við Háskóla Íslands hafa sömu laun og þeir, sem skrifa vinnótur í áfengisverzlun ríkisins. Það er ekkert um það spurt, hvort menn hafi fórnað beztu árum æfi sinnar til undirbúnings starfi sínu, eða hvort þeir eru teknir án undirbúnings upp af götunni í Reykjavík.

Á þessu þarf að ráða bót. Ennfremur er það með öllu óverjandi að hlaða fleiri störfum á einstaka starfsmenn ríkisins, svo sem gert er, og greiða þeim fyrir margföld laun. Slíkar margfaldar launagreiðslur eru spilling ein, sem útrýma þarf, aðeins gerðar til uppkaupa og þóknunar bitlingasjúkum lýð. Eitt starf, ein laun, að því ber að stefna, og að hver starfsmaður ríkisins hafi sómasamleg laun, svo að hann geti fórnað sér og sínum starfskröftum óskiptum fyrir starfið. Við leggjum því til, að takmarkaður verði með lögum eða á annan hátt réttur starfsmanna ríkisins til að hafa með höndum mörg störf og taka fyrir margföld laun, og ennfremur, að nafna bitlingamannanna verði getið sérstaklega í starfsmannaskrá ríkisins og launa þeirra fyrir hvert einstakt starf, aukastörf sem aðalstörf. Myndi slík birting vissulega draga úr bitlingunum.

Þá hefir það og tíðkazt, a. m. k. við sumar stofnanir ríkisins, að forstjórar þeirra, sem eru á háum, föstum launum taka dagpeninga, þegar þeir ferðast fyrir stofnunina, hvort heldur er utanlands eða innan. Hafa þessir dagpeningar komizt upp í 50 kr. á dag í ferðum erlendis, en 15 kr. innanlands. Slíkur fjárdráttur af ríkisfé er með öllu óþolandi. Menn, sem eru á föstum launum, og góðum launum, eiga að sjálfsögðu að ferðast án þess að fá aðra greiðslu en ferðakostnaðinn einan. Til að fyrirbyggja slíkt höfum við lagt til, að birt yrði yfirlit með hverju fjárlagafrv. yfir ferðakostnað og dagpeninga starfsmanna ríkisins.

Ég vil nú að nokkru bera saman, hvernig ástatt var með þjóðinni 1933, þegar ráðuneyti Ásgeirs Ásgeirssonar fór hér með stjórn, og hversu nú er ástatt, þegar fyrra ráðuneyti Hermanns Jónassonar lét af stjórn. Má af þeim samanburði ráða, hver gifta hefir fylgt ráðuneytinu og samstarfi stjórnarflokkanna undanfarið, og hver árangurinn hafi orðið.

1) Í árslok 1933 voru heildarskuldir þjóðarinnar við útlönd 74,6 millj. Allar líkur benda til þess, að þær séu nú a. m. k. 105–110 millj. En þrátt fyrir tugi millj. kr. skuldaaukningu segir fjmrh., að það sé staðreynd, að skuldirnar við útlönd hafi eigi vaxið í tíð núverandi stjórnar. Ekki er hreinskilninni fyrir að fara.

2) Í árslok 1933 voru engir teljandi erfiðleikar um yfirfærslu gjaldeyris. Í tíð núv. stj. hafa vandræðin á þessu sviði aukizt með ári hverju, og aukast nú með hverjum mánuði. Þetta viðurkennir fjmrh., þegar hann segir, að gjaldeyriserfiðieikarnir muni eiga eftir að vaxa og gripa verði jafnvel til ráðstafana, sem ég tel neyðarráðstafanir, svo sem þess að takmarka og jafnvel skammta nauðsynlegar matvörur.

3) Árið 1933 var öll fátækraframfærsla í landinu um 1,9 millj. Árið 1936 nam fátækrabyrðin nálega helmingi hærri upphæð. Síðastl. ár mun upphæðin hafa farið allverulega vaxandi, frá því sem áður var. Þessi aukning fátækrabyrðarinnar byggist fyrst og fremst á vaxandi atvinnuleysi, enda þótt það væri eitt af því, sem gera átti, að útrýma atvinnuleysinu með öllu.

4) Í febrúar 1933 voru skráðir 623 atvinnuleysingjar í Reykjavík. Á sama tíma 1937 voru þeir 933. Atvinnuleysið í höfuðborginni hefir aldrei verið meira en nú síðan um áramótin.

5) Skattar og tollar hafa stóraukizt. Árið 1933 greiddi þjóðin til ríkisþarfa sem svaraði 119 kr. á hvern einstakling. En 1937 155 kr. Aukningin er því 36 kr. á hvert nef. Eitt af því, sem stjórnarflokkarnir ætluðu að gera, var að aflétta tollum og sköttum.

6) Árið 1933 voru atvinnuvegir landsmanna yfirleitt reknir með tapi. Svo hefir einnig verið áframhaldandi í tíð núv. stj. Og er nú svo komið, að aðalatvinnuvegir landsmanna liggja í meiri og minni rústum, einkum þó sjávarútvegurinn. Svo hefir nú farið, enda þótt stjórnarflokkarnir ætluðu að færa nýtt fjör í atvinnuvegina.

7) Árið 1933 flýði fólkið sveitirnar. Þannig er það enn, þrátt fyrir alla vellíðan og alla sælu, er stjórnarflokkarnir stæra sig af, að hafa flutt út í byggðir landsins.

8) Árið 1933 var það engum erfiðleikum bundið fyrir ríki eða einstaklinga að fá lán í útlöndum. Nú er lánstraust ríkisins og þegnanna þrotið. Má í því sambandi benda á ummæli hv. þm. S.-Þ., JJ, í Nýja dagbl. 20. apríl síðastl., þar sem hann ræðir um lánið til hitaveitu Reykjavíkur, og hvers vegna það hafi ekki fengizt í Englandi. Hann segir meðal annars: „Neitun stjórnarvaldanna þýðir ekki annað en það, að þeim þykir ekki öruggt að lána hingað meira fé, að óbreyttum kringumstæðum.

9) Sjálfsbjargarhvöt einstaklinganna er æ meir og meir lömuð með allskonar ófrelsi og einokunum, þannig kippt styrkustu stoðum undan framtíð einstaklinganna, og þá jafnframt undan afkomu og hag ríkisins.

10) Árið 1933 átti kommúnisminn hér mjög erfitt uppdráttar. Nú dafnar hann sem gorkúla á þeim haug upplausnar og glundroða, er skapazt hefir með þjóðinni í tíð núv. stjórnarflokka. Vera má, að hv. stjórnarflokkum sé eigi með öllu sjálfrátt um, hversu öll þeirra vopn, er þeir ætluðu að beita til fjár og frama þjóðinni, hafa snúizt í höndum þeirra og orðið til ógæfu einnar. Mun það hvorttveggja, að stjórnarflokkarnir kunna ekki vel til vígs — eru eigi færir um að fara með stjórnina á þessum erfiðu tímum, — enda fylgir þeim lánleysi mikið.

Ástæðan til vandræða þjóðarinnar er fyrst og fremst það ósamræmi á verðlagi innanlands, er stj. hefir átt sinn þátt í að skapa. Því til sanninda vil ég benda á mjög ýtarlega grein, er hinn merki bóndi, Jón Gauti Pétursson á Gautlöndum, hefir skrifað að tilhlutun S. Í. S. um afkomu landbúnaðarins fyrrum og nú. Hefir grein þessi birzt í blaði Kaupfélags Þingeyinga og mun hafa verið ákveðið á sambandsfundi að birta hana einnig í „Samvinnunni“. En þegar betur var að gáð, mun hafa verið horfið frá því, þar sem greinin kynni að varpa nokkrum skugga eða fölva á hina fölsku gyllingu þeirra framsóknarmanna á vellíðan og batnandi hag bænda. Kemst greinarhöfundur að þeirri niðurstöðu, að það séu eigi viðskiptin við útlönd, verzlunarárferðið, sem erfiðleikunum valdi en að það sé ósamræmið eða misvægið í afurðaverði annarsvegar, og í kaupgjaldi og opinberum gjöldum hinsvegar, sem ófarnaðurinn byggist fyrst og fremst á. Ég vil aðeins minna á, að því er kaupgjaldið snertir, að hann segir, að hækkað kaupgjald og afurðaverð hafi haldizt í hendur á árunum 1900–1919. Þaðan frá dregur svo í sundur, að 1920–1929 þarf til jafnaðar 18 ærafurðir til greiðslu sömu vinnu, sem 10 ærafurðir þurfti áður. Og 1930–1935 þarf 35 ærafurðir. Alveg sama eða svipuð hlutfallshækkun segir hann, að hafi orðið á opinberum gjöldum til sveita. Lýkur Jón grein sinni þannig: „Þetta misvægi þarf að hverfa, ef allt atvinnulíf í landinu á ekki að fara í kaldakol. Og það er fávíslegt að halda, að það lagist af sjálfu sér, þannig að markaðsverð afurða okkar í útlöndum hækki teljandi frá því, sem orðið er. Miðað við verð á öðrum matvælum og hráefnum, er framleiðsla okkar keypt furðu háu verði eftir gæðum og meðferð. Jafnvægi milli afurðaverðs og annars verðlags í landinu fæst því ekki, nema með gengislækkun krónunnar eða öðrum aðgerðum, sem hafa sviplík áhrif til sérstakrar hækkunar á verðgildi afurðanna, sem út eru seldar. Ennfremur segir höfundur, að það þurfi að beita sér fyrir að skapa samræmi í innanlandsverðlagi, ef fólkið á að geta lifað í landinu.

Hróp kommúnista um það að auka kaupgetuna, án þess að gæta þess á nokkurn hátt, hvað framleiðslan þolir, hafa stjórnarflokkarnir tekið sér í munn og framkvæmt í verki, skapað þannig falska kaupgetu og gert hvorttveggja í senn, lagt framleiðsluna í rústir og skapað atvinnuleysi og örbirgð hjá verkalýðnum.

Heyrzt hefir, að stjórnarflokkarnir, vegna lánleysis sins og hinna auma ávaxta af samstarfinu, hafi nú þegar gefið upp alla von um, að þeim takizt að bjarga þjóðinni frá hruni, og hafi því ákveðið að láta allt fljóta sofandi að feigðarósi. Í krafti þessarar ákvörðunar er sagt, að þeir ætli að taka upp 10 ný boðorð, er þeir segja í fullu samræmi við ávextina af samstarfinu. Eru þau svohljóðandi:

1) Aukum skuldirnar.

2) Blómgist gjaldeyris- og yfirfærsluerfiðleikar.

3) Vaxi fátækrabyrðin.

4) Eflist atvinnuleysið.

5) Tvöföldum tolla og skatta.

6) Lömum atvinnuvegina.

7) Flýjum sveitirnar.

8) Eyðum lánstraustinu.

9) Kyrkjum einkaframtakið.

10) Sköpum góðæri fyrir kommúnismann. Það, sem ef til vill er ljósasta táknið um það ófremdarástand, er nú ríkir með þjóðinni, er sá vöxtur, sem hlaupið hefir í Kommfl. í tíð núverandi stj., enda er Kommfl. mjög þakklátur stjórnarflokkunum fyrir það ástand, er þeir hafa átt beztan þátt í að skapa með þjóðinni. Einustu aðfinnslur þeirra eru, að ástandið eigi er aumara en það er, samanber að eigi hafi verið stjórnað nægilega í anda kommúnismans.

Þar, sem sæmileg afkoma er með þjóðunum, þar, sem atvinnulífið stendur í blóma, þar eru engin skilyrði fyrir kommúnismann. Kommúnisminn er byltingarstefna og hlýtur að skapa af sér aðra byltingarstefnu, fasismann, eigi hann eftir að dafna hér frekar en orðið er. Og því ber öllum Íslendingum að vinna að því að uppræta þetta illgresi með þjóðinni. Núv. stjórnarflokkar hafa bæði viljandi og óviljandi skapað það ástand, er hæfir kommúnisma og eflir hans lífsskilyrði. Er slíkum mönnum treystandi til að fara fram með stjórn landsins? Mönnum, sem gengið hafa undir jarðarmen með kommúnistum, blandað við þá blóði? Eru þeir líklegir til að hrinda þessum ófögnuði af þjóðinni? Því aðeins má vænta þess, að Ísland verði áfram í tölu fullvalda ríkja, að allir andstæðingar kommúnismans í hvaða mynd, sem hann kann að birtast, taki höndum saman til viðreisnar landi og þjóð. Og fyrsta skilyrðið til þess, að það megi takast, er að útrýma öllum kommúnisma og hálfkommúnisma úr þessu landi. Og það verður bezt gert með því að efla framleiðsluna, og að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir taki sér í munn kjörorð Bændafl.: Framleiðslan verður að bera sig. Verði því kjörorði fylgt og það framkvæmt og allt við það miðað, þá er einhver von um batnandi tíma.