22.03.1938
Neðri deild: 31. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

61. mál, ríkisborgararéttur

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Ég var fyrir mitt leyti ánægður með það um daginn, þegar þessu máli var frestað hér í d., vegna þess að svo stóð á, líkt og með málefni hv. þm. A.-Húnv., að það voru menn frá Akureyri, sem höfðu beðið um ríkisborgararétt, en höfðu ekki náð að komast inn í till. allshn., vegna þess að þá vantaði þetta svokallaða hegningarvottorð, sem n. er tekin upp á að heimta, en mun eiga að vera hegðunarvottorð. Báðir umsækjendurnir voru þess arna óafvitandi og höfðu því ekki gert ráðstafanir til þess að ná í þessi plögg. Nú er mér í öðru tilfellinu kunnugt um, að norska aðalræðismannsskrifstofan hér í bænum hefir sent skeyti út vegna þessa norska manns á Akureyri, sem er búinn að vera hér í 14 ár og fullnægir því öllum settum skilyrðum, nema þessu vottorði. Mér væri því ljúft, að þessu máli yrði ekki hraðað svo, að ómögulegt væri að afla þessa vottorðs. Skeytið var sent á föstudagskvöld, og get ég ímyndað mér, að svarskeyti bærist í dag.

Hinn maðurinn er Þjóðverji. og er eins ástatt fyrir honum, að hann vantar þetta hegðunarvottorð, sem ég hygg, að sé búið að gera ráðstafanir til að ná í frá Þýzkalandi. En ég veit ekki, hvernig ég á helzt að snúa mér í þessu máli, hvort það þýðir að fara fram á frestun ennþá, til þess að geta veitt þessum mönnum, a. m. k. Norðmanninum, tækifæri til þess að geta komizt inn undir þetta lagaákvæði í ár, og vænti ég þess, að hæstv. forseti geti gefið mér upplýsingar um þetta.