09.04.1938
Efri deild: 45. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

61. mál, ríkisborgararéttur

Bernharð Stefánsson:

Ég verð að segja það, að eftir því, hvernig þetta mál ber að með þennan mann, sem ég ber fyrir brjósti, þykir mér hart að tefja þetta fyrir honum í heilt ár, þar sem hann á enga sök á því sjálfur, að öll gögn þessu viðvíkjandi liggja ekki fyrir. Og ég verð að halda því fram, að ég beri ekki mikla sök á því, þótt mér hafi láðst að láta skrásetja þetta á skrifstofu Alþingis.

Það liggur þannig í þessu, að þetta mál kemur fyrst fram á þinginu 1935, sem var tvískipt. há er frv. um veiting ríkisborgararéttar tekið fyrst fyrir 9. marz, og gengur í gegn í Nd. á fyrri hl. þingsins. En svo er það aftur tekið fyrir hér síðari hluta þings, og þá ekki fyrr en 26. nóv. Á tímabilinu milli þinghlutanna er það svo sem skjölin glatast hjá allshn. Nd. En hér er það tekið fram af frsm. allshn. í Ed., Magnúsi sáluga Guðmundssyni, að þær aðrar beiðnir, sem n. hafi haft til meðferðar og ekki tekið upp í till. sínar, hafi hún ekki séð sér fært að taka til greina vegna þess. að umsækjendurnir hafi ekki verið búnir að dvelja hér nógu lengi, og nefnir engar aðrar ástæður. Einn af þessum mönnum, sem n. þá treysti sér ekki til að mæla með, var einmitt sá, sem hér um ræðir. Ég álit því, að það sé nokkurn veginn sannað mál, að í þessu tilfelli sé öllum skilyrðum fullnægt raunverulega, þótt það liggi ekki skjalfest fyrir. Þessar upplýsingar er að finna í umræðuparti í þingtíðindum frá 1935.

Ég man glöggt eftir þessu og hv. 1. þm. S.-M. sömuleiðis, og ég veit, að formaður allshn. 1935 mundi vel eftir þessu í fyrra, og var þá reiðubúinn til að votta, að skjölin hefðu legið fyrir n. og að ekkert hafi verið við þau að athuga annað en þetta, að n. þótti maðurinn ekki vera búinn að dvelja hér nógu lengi.

Eftir að hafa heyrt hinar góðu undirtektir frsm. allshn., vil ég óska þess, að till. verði borin undir atkv., hvernig sem með þá atkvgr. fer.