12.03.1938
Neðri deild: 20. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

59. mál, byggingar- og landnámssjóður

*Bjarni Ásgeirsson:

Til viðbótar ræðu hv. frsm. skal ég geta þess, að frv. þetta var tilbúið í aðalatriðum í þingbyrjun, en ástæðan til þess, að það var ekki lagt fram, var sú, að nefndin gerði sér far um það við stjórn Búnaðarbankans, að fá frá henni brtt. við frv., vegna þess að nefndin komst að því í þingbyrjun, að ágreiningur var um nokkur atriði. — Brtt. Búnaðarbankans voru tvennskonar; fyrst og fremst ýmsar smábreytingar við einstakar lagagreinar um það, hvernig framkvæmd þeirra yrði varið gagnvart bankanum; allar þær brtt. tók nefndin til greina; en í öðru lagi var ágreiningurinn um það, hvort lögin ættu að vera í einum bilki eða tveimur; — lánastarfsemin í einum, styrktarstarfsemin í öðrum. Bankastjórinn áleit, að hið síðarnefnda ætti ekki að heyra undir bankann. En eins og hv. frsm. benti á, raskast skipulagið á framkvæmd laganna ekkert við það, þó að þau séu höfð öll í einum bálki, og okkur finnst það eðlilegra og hentugra fyrir almenning, að hafa þau í einu lagi.

Þegar búið var að taka til greina allar brtt. bankastjórans um einstakar greinar, fannst okkur nm., að ágreiningsatriðið, sem eftir var, skipti ekki svo miklu máli, að það mundi valda árekstri. Enda veit ég svo mikið, að bankastjóri Búnaðarbankans leggur ekki mjög mikið kapp á það. Ég sé ekki betur en útrætt sé um það mál við hann. Ef einstakir þm., eins og hv. 1. þm. Rang., vilja kynna sér frá báðum hliðum, hvað millí ber, þá er hægurinn hjá að tala um þetta við bankastjórann. En ég sé ekki neina ástæðu fyrir nefndina að taka málið til nýrrar meðferðar.