08.04.1938
Efri deild: 44. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

59. mál, byggingar- og landnámssjóður

*Páll Hermannsson:

Mér skilst, að fram hafi komið svo mismunandi skilningur á 4. brtt. á þskj. 187, að við það megi ekki una. Þegar hv. frsm. skýrði brtt., fannst mér hún afareðlileg, miðað við það, að þeir sætu fyrir hjálp til húsabóta, sem orðið hafa fyrir tjóni á húseignum. En þetta er ekki greinilega fram tekið í till., og ég er sammála hv. 6. landsk. um, að hún þurfi að því leyti endurbóta við. Ég vil því skora á hv. landbn. að taka till. aftur til 3. umr. og breyta henni þannig, að hv. nefndarmönnum geti samið um skilning hennar. Um till. eins og hv. 6. landsk. vill láta framkvæma hana, er ég honum alls ekki sammála. Mér finnst engin ástæða til að blanda bótum fyrir fjárfelli inn í þessi lög, þegar allir vita, að því tjóni verður hvort sem er að mæta á allt annan hátt.