08.04.1938
Efri deild: 44. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

59. mál, byggingar- og landnámssjóður

*Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti! Ég vildi skýra afstöðu mína í n. til 4. brtt. Eins og hv. 6. landsk. skýrði frá, vorum við búnir að semja aðra brtt. En þar sem þriðji nm., hv. 1. þm. N.-M., var henni algerlega mótfallinn, varð að samkomulagi að orða brtt. eins og gert er á þskj. 187. Ég benti hv. 1. þm. N.-M. á það, að 2. liður 7. gr. mundi koma í veg fyrir það, að farið yrði að reisa hús þar, sem ekki væru nóg efni til búrekstrar á jörðinni, eins og hann orðar það. Hinsvegar er mér ómögulegt að skilja annað en að það eigi að hlynna að sveitum sem beðið hafa mest tjónið af völdum mæðiveikinnar. Bændur þar eiga ekki fremur en í öðrum sveitum að sætta sig við óhæf húsakynni. Ég álít rétt að samþ. 4. brtt. eins og hún er. Vitanlega verða þá þeir, sem lánin veita í hvert skipti, að athuga ástæður umsækjenda, m. a. með tilliti til 2. liðar. 7. gr., svo að frá sjónarmiði hv. frsm. þarf ekkert að óttast, og hinsvegar með tilliti til tjónsins, hvort sem er á húsum eða öðru. Ef breyta ætti till., gæti ég gengið inn á það eitt, að þeir sætu sérstaklega fyrir, sem tjón hafa beðið við fjármissinn.