11.04.1938
Efri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

59. mál, byggingar- og landnámssjóður

*Guðrún Lárusdóttir:

Ég hefi leyft mér að bera fram 2 brtt. við frv. þetta. Hin fyrri er við 42. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að haldið sé uppi teiknistofu, sem eigi að hjálpa mönn­um til þess að eignast smekklega hluti í hý­býli sín. Um þetta er vitanlega ekki nema allt það bezta að segja, en ég vil aðeins benda á, að í þessu tilfelli verða það mest konurnar, sem láta sig skipta þetta mál, því að það eru jafnan þær, sem mestu ráða um húsgögn og aðra hluti, sem til hýbýlaprýði teljast. Mér hefir því dottið í hug, að bætt verði inn í 42. gr., þar sem taldir eru upp þeir aðiljar utan stofnunarinnar, sem teiknistofunni er heimilt að leita aðstoðar til um gerð hús­gagna: viðurkenndum hannyrða konum. — Ég fæ ekki annað séð en að þetta eigi vel við og sé í raun og veru sjálfsagt, því að konur geta oft verið listamenn á sínu sviði, þó að þær séu kannske ekki kallaðar listamenn í venjulegri merkingu þess orðs.

Þá hefi ég og lagt til, að við 43. gr. verði gerð sú breyt., að á eftir orðinu „bændaskóla“ komi: húsmæðraskóla. Er þessi breyt. gerð til þess, að húsmæðraskólarnir falli einnig undir þá skóla, sem hugsanlegt er, að komið verði upp verkstæðum við til þess að annast smíði á húsgögnum, hentugum fyrir alþýðu manna. Og í framhaldi af því leyfi ég mér að leggja til, að upp í gr. verði einnig tekið fleira, sem að húsgagnagerð lýtur, en þar er nefnt, og teikni­stofan skuli veita nauðsynlega aðstoð við, svo sem vefnaður á húsgagnafóðri og gluggatjöld­um. Það er nfl. vitanlegt, að við húsmæðra­skólana er kenndur vefnaður, sem notaður er til þess að yfirklæða húsgögn með, og við þekkj­um öll, hvernig sá vefnaður er, að hann er hreinasta prýði, sem allir geta verið stoltir af að hafa í hýbýlum sínum. Það myndi því geta orðið til mikils menningarauka fyrir almenn­ing, ef þessum iðnaði okkar yrði meiri sómi sýndur en verið hefir. Í brtt. minni hefi ég aðeins nefnt vefnað á húsgagnafóðri og gluggatjöldum, en það hefði mátt nefna fleira, þó að þetta sé það algengasta, sem kennt er. Það hefði t. d. líka mátt nefna gólfábreiður, veggteppi o. fl.

Síðasta brtt. mín er afleiðing hinna. Það kann ef til vill að þykja óviðeigandi að tala um húsgagnagerð í sambandi við húsmæðra­skóla, en við það finnst mér ekkert að athuga, þar sem dæmi eru t. d. fyrir því, að stúlkur stundi smíðar. Ég hefi t. d. komið í skóla er­lendis, þar sem stúlkurnar höfðu smíðað hús­gögnin að mestu leyti sjálfar, höfðu aðeins fengið hjálp til þess að renna borðfætur og þess háttar.

Ég vænti nú, að hv. dm. fallist á þessar brtt. mínar og samþ. þær, því að þær raska ekkert við frv. sjálfu, rýmka það aðeins og gera það um leið sanngjarnara og meira fyrir alþýðu manna en það er nú.