11.04.1938
Efri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

59. mál, byggingar- og landnámssjóður

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Ég er sammála hv. 1. þm. Reykv. um það, að ég tel tímabært, að þetta mál sé athugað rækilegar en gert hefir verið. Það er búið að ræða um þetta efni á fundum og í útvarpi nú í nokkur ár. Það eru til menn, sem álíta, að það eigi að stiga þetta spor nokkuð djarft, og það eigi að neita að veita lán, nema býlin liggi á þeim stað, sem hentugur sé fyrir framtíðina. Við fórum nú ekki svo langt í brtt. okkar, því að við byrjuðum aðeins að fitla við þetta mál. Ég tel tímabært að athuga það, þótt það verði líklega ekki gert á þessu þingi, hvort ekki er hægt að taka fastari tökum á þessu en gert var með þeirri litlu brtt., sem samþ. var sem 7. liður við 7. gr.

Ég held ekki, að ég hafi misskilið hv. 2. landsk., sem á brtt. á þskj. 217. Það er tekið fram í 2. lið brtt., að ætlazt sé til, að þessum húsgagnaverkstæðum sé komið upp á húsmæðraskólunum, svo að þar með er ætlazt til, að kvenfólk fari að gefa sig við húsgagnasmíð. Það er svo ætlazt til, að teiknistofan geti gefið þarna leiðbeiningar, og þá þarf hún helzt að hafa á sínum vegum mann eða konu, sem geti gefið þær. Ég held því, að það sé ekki tímabært að samþ. 2. lið brtt. Það gegnir dálitið öðru máli með 1. lið brtt. við 42. gr. Eftir honum á teiknistofan að standa í sambandi við viðurkenndar hannyrðakonur, til þess að geta gefið leiðbeiningar um, hvaða „munstur“ séu bezt á húsgagnafóðri og gluggatjöldum. Þetta skiptir öðru máli heldur en með 2. liðinn, en þó mun ég sennilega hvoruga brtt. samþ.

Hv. 6. landsk. þarf ég í raun og veru engu að svara. Hv. dm. eru ljós þau mismunandi sjónarmið, sem þar koma til greina. Það er í stuttu máli það, hvort bónda á fjárpestarsvæðinu, sem kannske hefir misst ? af fé sínu, sé nokkur greiði gerður með því að veita honum lán, sem hann þarf að borga af ekki minna en 200 kr. á ári. Hann þarf jafnframt að eiga sjálfur eða fá sér skyndilán með víxli og ábyrgðarmönnum, sem þarf að nema 1600–2000 kr., til að geta byggt fyrir lánið. Ég tel, að þessi bóndi sé mikið verr settur, ef hann fer að taka þetta nýja lán, og kannske af því, að ýtt hafi verið undir hann að gera það. Ég álit, að það eigi síður en svo að gefa honum neitt undir fótinn með nýtt lán, á meðan svo stendur á fyrir honum, að hann hefir sama sem engan bústofn. við eigum að hjálpa honum til þess að lifa og koma bústofni upp aftur, og þegar það er búið, þá á að veita honum sömu aðstöðu og öðrum, sem geta staðið undir þessum lánum.