28.04.1938
Efri deild: 56. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

59. mál, byggingar- og landnámssjóður

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Nd. féllst ekki á allar þær breyt., sem við hér í d. gerðum á frv. Hún felldi alveg niður eina breyt., sem við höfðum gert, og breytti annari í sama form og hún var í áður en frv. kom í þessa d.

Landbn. þessarar d. hefir nú haft þetta til athugunar, og höfum við í landbn. talað við menn úr landbn. Nd., sem fjölluðu um þetta mál, og fengið að vita hjá þeim, hvað það væri, sem þeim sérstaklega hefði fundizt athugavert við þessi tvö atriði, sem nú er um deilt milli deilda. Fyrri liðurinn, sem um er deilt, er viðbót, sem við settum við 7. gr. sem 7. tölul. Það vakti fyrir okkur hér í d., að það væri gengið inn á þá braut að reyna að tryggja það, að hús, sem byggð væru fyrir lán eða styrki frá því opinbera, væru sett þar á jörðunum, sem haganlegast væri um alla aðstöðu. Það barst í tal í þessari d., þegar þetta var til umr., að þetta ætti að vera spor í þá átt að koma upp í sveitunum svipuðu skipulagi og nú er í kaupstöðum, svo að húsin væru byggð þar, sem haganlegast og ódýrast er fyrir heildina. Um þetta er n. í Nd. okkur sammála. Það, sem henni þótti að þessu var, að það væru trúnaðarmenn frá Búnaðarfélagi Íslands, sem ættu að segja til um þetta. Þeir eru þannig settir, að þeir hafa sumir stór svæði og koma ekki nema einu sinni á ári í bæina. Þeir í landbn. í Nd. litu því þannig á, að með því að láta trúnaðarmenn Búnaðarfélags Íslands segja til um þetta, þá gæti það staðið í vegi fyrir, að menn gætu náð í þessi vottorð, og þess vegna felldu þeir þetta niður. Til þess að fyrirbyggja það, að þetta geti staðið í vegi fyrir því, að menn geti náð í þessi vottorð; þá höfum við breytt þessu nokkuð og leggjum til, að þessi 7. liður verði orðaður lítið eitt öðruvísi, þannig að upp í hann sé tekið, að ef trúnaðarmenn Búnaðarfélags Íslands ekki af einhverjum ástæðum geti gert þetta, þá skuli það vera trúnaðarmenn nýbýlastjórnar, sem eru í hverjum einasta hreppi, og til þeirra er alltaf hægt að ná. Ég hygg, að n. í Nd. geti sætt sig við þessa breyt., eins og hún nú er orðuð.

Ég skal ekki vera að nefna mörg dæmi upp á það, hvaða þýðingu þetta getur haft, en það eru ekki nema 3 ár siðan ég kom á bæ, þar sem nýbúið var að byggja stórt hús, sem byggt var á gömlu bæjarrústunum. En það kom í ljós, að vatnsbólið var 3 metrum of neðarlega til þess, að hægt væri að taka vatnið upp í dælu. Það eru ótal svona dæmi, sem sýna, að nauðsynlegt er að samþ. svona skilyrði. Ég hygg, að um þetta verði ekki neinn ágreiningur úr þessu.

Þá kem ég að hinu atriðinu. Við hér í d. lækkuðum fasteignamat bæjarhúsanna úr 2000 kr., sem það var í, þegar það kom hér í d., niður í 1500 kr. Við gerðum þetta af því, að það er á allra manna vitorði, að umsóknir berast frá miklu fleiri mönnum en hægt er að sinna, sem eiga það léleg bæjarhús, að fasteignamat þeirra er fyrir neðan 1500 kr. Við lítum þannig á, að það væri ekki ástæða til að örva þá menn, sem ættu skárri hús, til þess að sækja um lán eða styrk, þar sem hér um bil væri víst, að þeir myndu fá neitun. Þess vegna álítum við, að meðan til væri í landinu um 800 jarðir, þar sem bæjarhúsin væru fyrir neðan 1000 kr. að mati, og miklu fleiri fyrir neðan 1500 kr. að mati, þá væri ekki ástæða til að hækka hámarkið og færa þetta upp í 2000 kr. N. í Nd. leit þannig á, að til væru í landinu einstök gömul timburhús, sem hefðu verið það hátt metin 1930, að mat bæjarhúsanna væri fyrir ofan 2000 kr. þrátt fyrir það, þótt þau væru mjög léleg. Til þess að það gæti náð til þessara húsa, þá vildi n. færa þetta upp í 2000 kr.

Það hefir nú orðið að samkomulagi hjá okkur, að hafa þetta ekki 1500 kr., heldur taka upp tölu, sem er hér um bil mitt á milli, og hygg ég að ekki verði mikið um það deilt í Sþ. Við höfum tekið upp töluna 1800 kr. Annars er rétt að benda á það, að gert er ráð fyrir því, að millimöt geti farið fram, ef ástæða er til, og mundu þeir, sem búa í húsum, sem mikið ganga úr sér milli aðalmata, vitanlega nota sér það, et ástæða væri til. Við, sem erum í landbn., leggjum til, að þær breyt., sem eru á þskj. 338, verði samþ., og ég held, að óhætt sé að segja það ákveðið, að eins og nú er komið, verði lítill ágreiningur um frv., komi það svo breytt í sameinað þing.