16.03.1938
Efri deild: 23. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

64. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Það hefir orðið að samkomulagi í sjútvn. þessarar d. að flytja frv. hetta. sem hér liggur fyrir á þskj. 84.

Eins og mönnum er kunnugt, hafa á undanförnum þingum legið fyrir frv. til breyt. á l. um fiskveiðasjóð Íslands, sem Sjálfstfl. hefir flutt. Og á síðasta þingi var slíku frv. vísað til sjútvn. þessarar hv. d., og var nokkur ágreiningur í sjútvn. þá um frv. Meiri hl. n. hafði gert nokkrar brtt. við frv., eins og það lá fyrir þá, og voru þær lagðar fram og prentaðar, en komu ekki til umr. Málið dagaði svo uppi á því stigi. Nú hefir sjútvn. tekið málið upp að nýju, og hefir það orðið að samkomulagi, að n. bæri fram þetta frv., sem er að miklu leyti í samræmi við þær brtt., sem meiri hl. sjútvn. gerði við frv. sjáifstæðismanna um þetta efni á síðasta Alþ. Nokkrar smærri breyt. á því eru þó gerðar, sumpart til leiðréttingar, frá því sem verið hefir.

Aðalbreyt., sem í frv. þessu felst frá núgildandi l. um fiskveiðasjóð Íslands, er. að í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður taki nú við greiðslum á því lánsfé, sem sjóðurinn var stofnaður með árið 1930, en í 1. um fiskveiðasjóð er svo fyrir mælt, að stofnfé hans skuli vera 1 millj. kr., sem ríkissjóður leggi fram og að það skuli vera að fullu greitt sjóðnum árið 1940. Nú var það svo, að þegar eftir gildistöku þessara 1. var sjóðnum ekkert greitt úr ríkissjóði, heldur var tekið lán til stofnfjár sjóðsins hjá Landmandsbanken í Kaupmannahöfn, að upphæð 1 millj. kr. Sjóðurinn hefir staðið undir vöxtum og afborgunum af þessu láni, og hefir þetta starfsfé sjóðsins því komið honum að miklu minni notum heldur en ef l. um hann hefði verið fullnægt á þann hátt, að ríkissjóður hefði lagt fram stofnféð, þó að það hefði verið smátt og smátt. Þetta hefir staðið sjóðnum fyrir þrifum, og sérstaklega hefir það valdið því, að sjóðurinn hefir ekki getað veitt viðskiptamönnum sínum þau lánskjör, sem þeim er lífsnauðsyn að hafa, og ella hefði verið hægt.

Nú hafa á undanförnum þingum, í þeim frv., sem fyrir þeim þingum hafa legið um þetta mál, komið fram ýmsar till. um það, að auka stofnfé sjóðsins með útgáfu vaxtabréfa, því að í 1. sjóðsins er heimild til þess. En eins og tímarnir eru nú, er sýnt, að það væri ákaflega litil hjálp fyrir sjóðinn að gefa út slík bréf og reyna að selja þau, því að nú er svo þröngt á vaxtabréfamarkaðinum hér hjá okkur, að ekki yrði hægt að selja slík skuldabréf nema með afföllum. Af þessu leiðir, að starfsfé sjóðsins verður svo dýrt, að lánakjör þeirra, sem fá lán úr sjóðnum, verða lántakendum um megn. Hinsvegar gerir sú leið, sem hér er stungið upp á. það tvennt að verkum, að í fyrsta lagi fær sjóðurinn fyrst um sinn vaxandi útlánsmöguleika, því að sjóðinn munar um fullar 100000 kr. árlega, og í öðru lagi verður starfsfé sjóðsins eingöngu eigið fé, og verður sjóðnum því fært að gera lánakjörin betri. Og það leggur sjútvn. mesta áherzlu á, að sjóðnum verði unnt að gera. Ég held því, að það þurfi ekki að valda miklum ágreiningi — þó að ég viti, að ríkissjóður hefir nú í mörg horn að lita með greiðslur —, að ef á annað borð á að sinna nokkuð þeim kröfum, sem nú eru uppi um það að auka starfsfé fiskveiðasjóðs, þá sé tæplega hægt að finna færari leið til þess en einmitt þessa.

Hitt meginatriðið í breyt. þeim, sem felast í þessu frv., er fólgið í ákvæðunum um vaxtakjörin. Í núgildandi 1. eru vextirnir 61/4 c. Með þessu frv. er lagt til, að vextirnir verði færðir niður 5%, að 1% lántökugjaldið verði fellt alveg niður og einnig tryggingarsjóðsgjaldið. M. ö. o., vextirnir lækka um 11/4 %, og auk þess er lántökugjaldið, sem er 1%, fellt niður. Ef ákvæði 1. gr. frv. verða samþ., þá hygg ég, að sjóðnum verði kleift að gera þessa vaxtaívilnun. Og ég hygg meira að segja, að ekki væri útilokað, að vextir gætu hækkað um meira, eftir því sem starfsfé sjóðsins vex.

Nú eru eignir fiskveiðasjóðs sem næst 2300000 kr. En þar á hvílir auðvitað skuld sú, sem nefnd er í 1. gr. þessa frv., 666 þús. kr., og eru því, eins og nú standa sakir, eignir sjóðsins raunverulega ekki nema 1 millj. og tæplega 600 þús. kr. Af fé þessu mun vera í útiánum nú sem næst 1600 þús. kr. hjá bátaeigendum og öðrum stofnunum, sem sjóðnum er heimilt að lána, og auk þess 40–50 þús. hjá hafnarsjóði Reykjavíkur, sem eru eftirstöðvar af láni, er veitt var úr sjóðnum, löngu áður en stofnfé hans var aukið og lög þau, sem nú gilda, voru sett, Þá er í varasjóði, sem ekki má nota til útlána, 150 þús. kr. auk þess um 10 þús. kr. í tryggingarsjóði. Þá hefir sjóðurinn því átt í reiðufé nálægt 400 þús. kr. við síðustu áramót.

Ég get vel ímyndað mér, að einhverjum detti í hug, að sjóðurinn sé ekki févana, þegar hann um síðustu áramót hefir átt um 400 þús. kr. í handbæru fé, en á það ber að líta, að síðastl. ár var í raun og veru óvenjulegt tekjuár fyrir fiskveiðasjóðinn, vegna þess að á því ári voru gerð skuldaskil fyrir allmarga af hinum smærri vélbátum, sem lán hafa fengið hjá sjóðnum. en hjá þeim sumum höfðu safnazt vextir til tveggja ára, og hjá einstaka bát afborganir fyrir sama tímabil. Tekjur sjóðsins á árinu urðu því hærri heldur en vænta hefði mátt, eftir því fé, sem hann hefir í útláni. Auk þess ber á það að líta, að gjalddagi á lánum fiskveiðasjóðs er 15. nóvember, svo að afborganir og vextir eru greiddir rétt fyrir áramót. Þess vegna er það ekkert óeðlilegt, þótt við síðustu áramót væri þetta mikið af handbæru fé í sjóðnum. Svo vil ég geta þess, að við nýár lágu fyrir loforð um lánveitingar að upphæð kringum 50 þús. til 60 þús. kr., sem ekki voru útborgaðar, og auk þess lágu fyrir allmargar umsóknir um lán, sem ekki var búið að taka ákvörðun um, og mér er kunnugt um, að nú er ýmist búið að veita eða lofa lánum úr sjóðnum fyrir á annað hundrað þúsund krónur, og þegar á það er litið, að sjóðurinn verður eins og lög standa til nú, að vera öruggur með að geta greitt á gjalddaga afborganir og vexti af danska láninu, þá sjá allir, að þessi sjóðseign, sem var um síðustu áramót, er ekki óeðlileg. Ég tek þetta fram, af því að ég hefi heyrt, að einstaka maður hafi litið svo á, að sjóðurinn væri ekki févana og fé hans væri ef til vill notað af stjórnendum sjóðsins, Útvegsbankanum, en ég fullyrði, að þetta er alveg ástæðulaus uggur, því að mér er kunnugt, að sjóðurinn hefir á mörgum tímum lánað það mikið, að hann hefir ekki átt meiri innstæðu í Útvegsbankanum en eðlilegt verður að teljast. Ef þetta frv. yrði að l., þá hefði sjóðurinn til útlána fullar 2 millj. kr. eigin fjár, og ég geri ráð fyrir, að það megi reikna með, að sjóðurinn hafi í vexti af útlánum um 100000 kr., og ennfremur má gera ráð fyrir, að afborganir af lánum muni nema svipaðri upphæð. Þá er ennfremur svo fyrir mælt í l., og því er ekki raskað með þessu frv., að fiskveiðasjóður fái 1/8% af útflutningsgjaldi af öllum sjávarafurðum, og eftir reynslu undanfarinna ára mætti vænta þess, að þetta mundi nema milli 40 og 50 þús. kr. Má þá gera ráð fyrir, að tekjur af þessu mundu vera um 250 þús. kr. Það er náttúrlega ekki mikið fé til útlána, en það er þó stórum mun meira heldur en það, sem sjóðurinn getur haft nú. Ég vil vænta þess, að ef sjóðnum verður stjórnað svipað og hingað til. sem engin ástæða er að efa, þá muni hans raunverulega eign geta vaxið einmitt um þessa upphæð árlega, þ. e. c. 250 þús. kr., því að sannleikurinn er sá, að fram að þessum tíma hefir sjóðurinn ekki orðið fyrir neinum töpum. Auðvitað má alltaf búast við, að töp geti komið fyrir, en ef þeirri reglu, sem er í núgildandi h og ekki er breytt með þessu frv., er fylgt um tryggingu sjóðsins, þá vil ég vænta þess, að hann þurfi ekki að vera í neinni hættu, og eftir þeim verði að dæma, sem sjóðurinn er búinn að ná síðan 1930, að líf fór að færast í hann og hann fekk þetta lánsfé til starfsemi sinnar, þá vil ég vænta þess, að innan ekki mjög langs tíma yrði sjóðurinn orðinn það stór, að hann yrði einfær um að standa undir stofnlánum til a. m. k. alls smærri fiskiflotans. En á það ber að leggja áherzlu, að í engu verði hvikað frá því, að tryggja lánin svo, að það sé undir flestum kringumstæðum öruggt, að sjóðurinn verði ekki fyrir töfum. Á það verður að leggja megináherzlnna og svo hitt, að láta viðskiptamennina njóta svo hagstæðra vaxtakjara, sem hagur sjóðsins leyfir. Ég hefi verið svo margorður um þetta frv., af því að ég allt, að það sé ein af þeim ráðstöfunum, sem óumflýjanlega verður að gera, til þess að reyna að bæta og tryggja hag sjávarútvegsins, þó að segja megi ef til vill, að það nái ekki eins langt og það þyrfti að ná, og ég vil vænta þess, að Alþ. taki þessu frv. vel og fitji ekki upp á gömlu leiðinni um sölu á vaxtabréfum, því að reynslan hefir sannað, að hún er ekki nema pappírsgagn, og ef hún væri notuð, þá væri spursmál, hversu mikið gagn sjávarútveginum væri unnið með því, því að eins og nú standa sakir, er það ekki aðalskilyrðið að geta veitt sjávarútveginum aðgang að stofnlánum, heldur er það aðalskilyrðið, að stofnlánin fáist með þeim kjörum, sem útvegurinn getur risið undir. Að því ber að vinna, og ég tel, að þetta frv. sé spor, og það ekki lítið spor í þá átt, þó að ég játi, að það þyrfti að ganga lengra á þeirri braut.