04.05.1938
Sameinað þing: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

1. mál, fjárlög 1939

Haraldur Guðmundsson:

Hv. þm. Snæf. lét svo um mælt, að ég væri allt of mikill oflátungur; ég hefði sagt, að í minni ráðherratíð hefði ég bjargað landinu. Þessi ummæli hv. þm. eru fjarri öllum sanni. Ég sagði, að meðan ég hefði verið atvmrh., hefði tekizt þrátt fyrir það ástand, sem var, þegar ég tók við, og þrátt fyrir ýmislegt það óviðráðanlegt, sem fyrir kom, á meðan ég var ráðh., að halda útveginum nokkurn veginn gangandi með óskertri útgerð. Þetta veit hv. þm., að er rétt. Og hann veit líka, að ef ekki hefði verið varið því fé til stuðnings sjávarútveginum eins og gert hefir verið, hefði ástandið hér á landi nú verið fullkomið neyðarástand.

Það var eftirtektarvert við ræðu þessa hv. þm., að .hann ámælti sjömenningunum, sem hann svo kallaði, en talaði ekkert styggðaryrði til hv. 3. þm. Reykv., HV. Sýnir það, hverjum augum hann litur á það starf, sem hann vinnur nú í stjórnmálum landsins.

Hv. þm. Snæf., TT, sagðist vera á móti stjórninni. Honum þótti það á skorta, skildist mér, að Framsfl. vildi ekki taka sjálfstæðismann inn í hana, sem þjóðstjórnarmann, skildist mér. Og hv. þm. Dal., ÞBr, sagði, eins og vant er: Ég líka.

Um kommúnista og Héðin er það að segja, að þrátt fyrir þeirra löngu orð og löngu ræður er enn óupplýst, sem hlustendur hefðu væntanlega kosið að heyra, hver er afstaða þeirra til ríkisstjórnarinnar. Kommúnistar hafa lýst stjórninni sem verkalýðskúgurum og verkalýðsböðlum og talið upp hermdarverk, sem þeir segja, að hún hafi unnið í garð alþýðu manna. En þegar vantraustið var hér til umr. fyrir nokkrum dögum, lyppuðust þeir niður og voru hvorki með því né móti. Þeirra hlutskipti hefir hinsvegar verið að tala og tala ábyrgðarlaust, en losna við að ráða nokkru um úrslit mála eða sýna yfir höfuð að tala nokkra viðleitni til þess.

Hv. 1. landsk., BrB, og þeir aðrir kommúnistar, hafa talað margt um till. kommúnista, um það allt, sem þeir hafi viljað láta gera, sem svo að segja ekkert atkv. hefir fengizt fyrir hér á þingi, nema frá hv. 3. þm. Reykv., HV, sumpart vegna þess, hve fjarstæðar þær eru, og sumpart vegna þess, að búið er að gera þessar ráðstafanir á annan hátt. Ég vil spyrja hv. 1. landsk., BrB, hvaða réttindaaukningu eða hvaða máli til hagsbóta fyrir alþýðuna Kommfl. hafi nokkru sinni komið fram hér á landi? Ég spyr í fullri alvöru. Mér er ekki kunnugt um eitt einasta slíkt mál. Hinsvegar er mér kunnugt um það, það verður að játa sem staðreynd, að hvarvetna blasir það við, að ávinningur alþýðunnar í baráttu sinni fyrir auknum réttindum og hags- og kjarabótum stendur að jafnaði og viðast hvar í öfugu hlutfalli við styrk kommúnista í löndum. Hver var styrkur kommúnista í Þýzkalandi, Ítalíu og Spáni? Eru bezt kjör alþýðunnar í þessum löndum? Hver er styrkur kommúnista á Norðurlöndum? Eru verst kjör alþýðunnar og minnst hennar réttindi í þessum löndum? Ég segi nei. Það er öfugt. Og það vita kommúnistar og Héðinn, að svo er.

Hv. 5. þm. Reykv., EO, fagnaði því, að hv. þm. 1.-Ísf. hefði viðurkennt, að Bucharin hefði verið svikari. Hann rómaði mjög ástandið í Rússlandi. Skal ég ekki margt um það segja og ekki leggja neinn dóm á málaferlin þar. En annaðhvort eru þessar sakir, sem á þessa menn sem þar hafa verið ákærðir fyrir landráð, sannar eða lognar. Ef þær eru sannar, þá hafa svo að segja allir stjórnendur þess ríkis á seinni árum verið eins og þeim er lýst; þeir hafa þá brugðizt landi sínu og stjórnarfyrirkomulaginu. Og það ástand er vissulega gífurlega alvarlegt, ef svo er. Allir þessir spámenn kommúnista, sem þeir svo mjög hafa vitnað til, eru þá falsspámenn, ef ekki eitthvað enn verra. Ef hinsvegar hafa á þessa menn verið bornar lognar sakir, — hvernig er þá réttarfarið í þessu landi? Ég hefi fengið bók, sem mér hefir verið send, um þessi réttarhöld, sem virðist vera nákvæm skýrsla um þau. Ég veit ekki, hvort þessi skýrsla er þyngri áfellisdómur um ástandið í þessu landi á þessu sviði, ef ákærurnar eru sannar eða ef þær eru lognar.

Alþfl. lítur ekki svo á, að það sé heldur hans hlutverk að leika kappleik við kommúnista eða Héðin, hvorki á þingi eða utan þings, um að koma með till., sem eingöngu eru til þess að sýnast. Hann skoðar það hinsvegar hlutverk sitt hér á þingi og annarsstaðar að koma fram með mál til hagsbóta fyrir alþýðuna og varna því, að óþurftarmái annara nái fram að ganga. Alþfl. hefir komið fram ýmsum nauðsynjamálum fyrir verkalýðinn í landinu, svo sem styrk til verkamannabústaða, auknum kosningarétti alþýðunnar, kjördæmamálinn o.fl. málum. Hann hefir einnig varnað vinnulöggjöf Eggerts Claessens.

Þeir segjast vilja sameiningu verkalýðsins, kommúnistarnir. Hv. 1. landsk., BrB, sagði hér þessi orð: „Það versta, sem hægt er að gera, er að nota málskrúð um sameiningu verkalýðsins sem skálkaskjól fyrir annað“. En í þessu efni hafa kommúnistar gerzt sekir. Þeir hafa neitað því eina raunverulega sameiningartilboði, sem kom fram frá Alþfl. nú, því að sameining alþýðu Íslands getur því aðeins orðið, að hún sé gerð á þeim grundvelli, sem meiri hl. getur sameinað sig á. Það, að alþýðan sameini sig á þeim grundvelli, sem meiri hluti hennar getur sameinað sig á, er að vinna að valdatöku alþýðunnar í landinu á lýðræðisgrundvelli, en ekki eftir þeim aðferðum, sem kommúnistarnir vilja fara, sem er að mega ekki vilja ná völdum í landinu eftir lýðræðis- og þingræðisreglum.

Hv. 3. þm. Reykv., HV, hefir talað um, að lýðræðinu væri áfátt í Alþfl. og að skipulagi hans þyrfti að breyta. En þeim málum á ekki að skipa hér á hæstv. Alþ. Þeim hlutum ræður Alþfl. sjálfur sem slíkur, hvernig reglur hann setur fyrir stjórn flokksins og á hvern hátt mönnum er vísað löglega brott úr flokknum fyrir brot á löglegum samþykktum. Og hv. 3. þm. Reykv. var vísað úr flokknum fyrir brot á löglegum samþykktum hans. Og þá, eins og kunnugt er, vísaði hann Jóni heitnum Baldvinssyni úr Dagsbrún. Svo er hann farinn að gefa út blað, sem stefnt er á móti þeim flokki, sem hann kennir sig þó við, Alþfl.

Héðinn og kommúnistar segjast vilja ganga að stefnuskrá, sem sé samhljóða stefnuskrá norska alþýðuflokksins. En þeir neita að sameinast norska alþýðuflokknum. (EOl: Við?) Kommúnistar í Noregi, og það er sami rassinn undir kommúnistum hér eins og þar. Nei. Skraf kommúnista allt um sameiningu er ekkert annað en yfirvarp. Og Héðinn hefir því miður af ýmsum ástæðum látið leiðast til þess að vera erindreki í þessu skemmdarstarfi.

Góða nótt!