18.03.1938
Efri deild: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

57. mál, eftirlit með skipum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Það hefir viljað svo til af ástæðum, sem ég hirði ekki um að tilgreina. að ég gat ekki verið við 1. umr. þessa máls og veit ekki, að hve miklu leyti hafa verið reifaðar þær breyt., sem því kunna að fylgja. Undir meðferð málsins í n. gat ég ef til vill ekki tekið svo fullnægjandi þátt sem þurft hefði. Að vísu var ég við yfirlestur þess. Hinsvegar skilst mér, að meiri hl. n. hafi upp á eigin spýtur komið sér saman um breyt., án þess að leita eftir samkomulagi við mig um þær brtt., sem hann hefir gert. Um frv. skal ég vera fáorður. Ég skal geta þess, að samkvæmt þál., sem var samþ., var málinn visað til stj., og nefnd kjörinna manna skyldi fara yfir löggjöf um þetta ásamt skipaskoðunarstjóra. Menn hafa séð, hvernig n. var skipuð, hvaða starf hún hefir og hvaða till. um það fullnægja ósk hv. þm. Vestm. Málið hefir fengið þann undirbúning, sem hann taldi skilyrði frá minni hendi, þegar ég hafði flutt það á tveim þingum í röð. Hann virðist hafa löngun til að bregða fæti fyrir þetta mál, og leggur ekki alllítið kapp á að halda gildandi lögum um þetta efni, ef litið er á það, að hann hefir fengið hv. 2. þm. S.-M. í lið með sér. Meðnefndarmenn mínir hafa ekki reynt að leita samkomulags við mig um þessar brtt., að ógleymdu því, að þeir hafa ekki á nokkurn hátt borið sig saman við skipaskoðunarstjóra um það, hvort kleift væri að framkvæma 1. með þeim breyt., sem gerðu fyrirkomulagið flóknara og þeir vilja gera á allri framkvæmdastjórn þess. Ég vil mælast til þess, að þeir tækju þær aftur til 3. umr. N. hefir tekið kostnaðinn til athugunar án þess að ráðfæra sig við skipaskoðunarstjóra, hvort unnt sé að framkvæma frv. eins og það er hugsað með þeim brtt., sem n. hefir gert. Mig grunar, að lítt mögulegt yrði fyrir hvaða skipaskoðunarstjóra sem er, að framkvæma l. með því fyrirkomulagi, sem meiri hl. n. ætlast til.

Þá vil ég rekja, að hvaða leyti þetta frv. er frábrugðið l., eins og þau eru nú. Frv. er að efni og orðalagi shlj. þeim breyt., sem ég hafði flutt við sömu l. og hv. 2. þm. S.-M. flutti á síðasta þingi. Þó vikur þetta frv. nokkuð frá okkar till., sérstaklega mínum till. á tveim atriðum, sem ég tel veigamikil. Þó er ég ekki ráðinn í því, hvort ég ber fram brtt. við þessi atriði við 3. umr. Það þykir ekki byrvænlegt, þar sem hinir nm. hafa komizt að annari niðurstöðu, og samkomulag er á milli hv. þm. Vestm. og hv. 2. þm. S.-M.

Samkvæmt frv. ber að skipa eftirlitsmenn, sem hafi eftirlit með því, hvernig lögunum er framfyIgt, hver í sínu umdæmi um ákveðið skoðunartímabil. Þessir eftirlitsmenn eiga að vera algerlega óháðir skipaskoðunarstjóra. Þessir menn eiga ekki að dæma um sin eigin verk, heldur hafa þeir leyfi til að gagnrýna störf skipaskoðunarmannanna og líta eftir því, að l. verði framfylgt. N. mun hafa fallizt á mín rök í þessu efni. að svo miklu leyti sem hún taldi það framkvæmanlegt að hafa þesskonar eftirlitsmenn í hverjum landsfjórðungi. Það hefir ekki verið talið byrvænlegt á Alþ. með þeim kostnaði, sem það myndi hafa í för með sér fyrir ríkissjóð, að bera fram brtt. um mikla útgjaldahækkun á þessu sviði, þar sem á að gæta hinnar ströngustu takmörkunar um öll útgjöld. Fiskiþing það, sem hefir nú nýlokið störfum, tók þessi mál til grandgæfilegrar athugunar. Höfuðatriði skipaskoðunarinnar er að tryggja öryggi mannslífanna sem bezt, en henni er mjög áfátt. Þetta er eitt af þeim stórmálum, sem varðar sjómennina. Eins og fiskiþingið heldur fram, virðast ekki allir gera sér ljóst, hve mikil nauðsyn er hér á ferðum. N. fiskiþingsins komst að þeirri niðurstöðu, að mín till. væri sú rétta. Hér ættu að vera óháðir eftirlitsmenn.

Nefndarálit fiskiþingsins hefi ég ekki við höndina, en geri ráð fyrir að verða búinn að afla mér þess, áður en þetta mál verður tekið fyrir til 3. umr. Hin önnur brtt., sem fiskiþingið hefir fallizt algerlega á, er sú, að ég hafði gert till. um, að hleðslumerki yrðu gerð að skyldu á öllum skipum niður að ákveðnu lestamarki (stærð skipa). Ég sannfærðist um það undir meðferð málsins á síðasta þingi. En ýmsir töldu, að þetta myndi lítt framkvæmanlegt á síldveiðiskipunum, og til þingsins bárust alger mótmæli frá ýmsum útgerðarmönnum. Þeir sögðu, að með þessu væru skertir möguIeikar fyrir því, að geta hlaðið skipin eins og fært væri, þegar afli væri fyrir hendi.

Við hv. 2. þm. S.-M. komumst að þeirri niðurstöðu, að réttast væri að skipa fyrir um þessi mál með reglugerð, settri af ráðh. Þar með væri sköpuð einhver regla, eftir því sem mannlegt hyggjuvit næði, án þess að lögfesta hleðslumerki á síldveiðiskipum. Á öðrum skipum, stærri eða minni að ákveðnu marki, væri skylda að hafa hleðslumerki. En er mþn. hafði athugað málið, féll hún frá því atriði og hefir búið til reglugerð. sem tryggir öryggi manna með tilliti til þess eingöngu.

Þetta eru þær veigamestu breyt., er hafa verið gerðar á frv. frá þeim till., sem við bárum fram á síðasta Alþ. Ég er ekki ráðinn í því, hvort ég ber fram nokkrar breyt. við frv., en hygg þó, að réttast sé að láta frv. ganga gegnum þessa deild eins og það liggur fyrir frá mþn. En nú kem ég að aðalatriðinn í brtt. mþn.

Ég hafði lagt til, að skipaskoðunarstjóri væri með öllu óháður útgerðinni og skipaeftirlitinu umfram það, sem embætti hans tilheyrir. En hvað þau rök mín snertir, þá er mþn. þar alveg ósammála mér. Ég hygg, að sú nefnd, er fjallaði um málið á fiskiþinginu, hafi einnig litið sömu augum á þetta. Ég hefi áður fært rök fyrir því. á hverju ég byggi það, að skipaskoðunarstjóri eigi að vera með öllu óháður. Í fyrsta lagi er það nauðsynlegt um mann, sem gegnir jafnábyrgðarmiklu starfi og það er, að sjá um, að allur farkostur landsmanna sé í sem beztu lagi, og tryggja öryggi 7–8 þúsund manna, sem að staðaldri eru á sjónum. Hann ber mikla ábyrgð á herðum sér. Hann má ekki vera háður neinum, sem eigi þann farkost, sem hann hefir eftirlit með. Ég skal benda á, að það hefir þótt nauðsynlegt að tryggja það, að þeir, sem skipa æðsta dómstól landsins. væru eins óháðir öðrum sem unnt er, svo að ekki væri hægt að segja, að þeir væru hluldrægir. Frá þjóðfélagsins hlið hefir þótt sjálfsagt, að þeir, er skipa hann, hafi þannig aðstöðu, að þeir séu óháðir valdaátökunum innan þjóðfélagsins. (JJós: Hvað er sagt?) Það kemur ekki málinn víð, hvað er sagt, en ég tel liggja í augum uppi, að maður, sem gegnir jafnábyrgðarmikilli stöðu sem skipaskoðunarstj., verði að vera öllum óháður í sínu starfi. Hv. þm. Vestm. færir sem rök fyrir því, að ekki sé nein hætta á ferðum gagnvart Eimskipafél., þótt skipaskoðunarstjóra sé falið eftirlit með skipum þess, því að hann hafi áður haft aukastörf. Þegar skipaskoðunarstjórastarfið var stofnað, var gert ráð fyrir, að hann hefði nokkur aukastörf, og á þeim tímum voru laun hans því ekki ákveðin hærri, en um leið var honum heimilað að hafa aukastörf með leyfi ráðh. Skip Eimskipafélagsins voru þá háð erlendu eftirliti. Hv. þm. er kunnugt um, að það var þá í höndum Dana. En fyrir tveim árum var þeim löggjafarákvæðum breytt, og eftirlit með öllum íslenzkum skipum skyldi framvegis fara fram hér á landi. Var það gert meðal annars með tilliti til þess, að með því móti væru möguleikar fyrir því, að láta ýmsar viðgerðir á skipunum fara fram hér á landi og auka atvinnu í landinu. En um leið og eftirlitið er komið í hendur Íslendinga, er hinum æðsta valdsmanni í þessum efnum, skipaskoðunarstjóra, falið eftirlit fyrir hönd vátryggingarfélags, og þar sem hann er orðinn háður því, getur hann eigi lengur verið trúnaðarmaður Eimskipafélagsins um leið, þar eð eftirlitið með skipum þess er orðið innlent. Ég hygg, að hv. þm, Vestm. hafi alls ekki athugað þessa hlið málsins, þegar hann var að mæla fyrir því, að skipaskoðunarstjóri gæti haldið áfram sama eftirliti sem áður og tekið laun fyrir. Þessi ástæða er í mínum augum veigamest. Það er ekki rétt með farið hjá honum, að eftirlitið með skipum ríkisins sé hindrað með samningum, heldur lögboðið, án þess að tala um hina hreinustu vanþekkingu, er kemur fram í því, að ætla skipaskoðunarstjóra að hafa einnig á hendi eftirlit með skipum Skipaútgerðar ríkisins, þótt hann eigi að vera öllum óháður. Ekki er hægt að vera dómari í sjálfs sök. Vitanlega hefir skipaskoðunarstjóri ekkert fyrir þetta, því að svo var fyrir mælt af Alþ. því að það er ekki gerður svo nokkur hlutur, sem nokkra þýðingu hefir við skipaeftirlitið, að hann sé ekki kallaður til. Og það er eitt, sem sannar, að jafnvel þetta eftirlit með ríkisskipunum og Eimskipafélagsskipunum, sem skipaskoðunarstjóra er ætlað að hafa nú, tekur allmikinn tíma hans frá öðrum störfum, sem hann gæti varið í þágu skipaeftirlitsins. Mér er manna kunnugast um það, að skipaskoðunarstjóri er svo upptekinn oft og einatt, að það er eigi hægt að ná honum til fundar um nauðsynleg mál; það er svo til hans kallað úr ýmsum áttum. Ég er því á móti, að þessi regla verði lögfest eins og nú er í lögum. Ég skal ekki segja. að ég geri till. n. að minni till. um það. að skipaskoðunarstjóri hafi 10 þús. kr., en ég endurtek það, að ég vil gjarnan hafa samstarf við meiri hl. n. um þetta atriði og kalla skipaskoðunarstjóra til ráðuneytis við n., þótt þetta sé jafnvel tilfinningamál, þar sem það eru laun hans, og vita nokkurn veginn, hvort hægt er að framkvæma það, sem lögin ætlast til, með því fyrirkomulagi, sem nú er á skoðuninni, og með því starfsfólki, sem ráð eru á. Ég er ekki í nokkrum vafa, að starfsfólkið nú á skipaskoðunarskrifstofunni er ófullnægjandi. Það þýðir ekki að koma eins og hv. þm. Vestm. með blekkingar og segja þm., að starfsliðið sé fullnægjandi, því að þar talar hann af hreinni vanþekkingu eða móti betri vitund. Þess er getið í grg., að það séu 18 þús. kr., sem ætlazt er til á fjárlögunum, að veitt sé til þess mikilvæga starfs. En þetta er ekki rétt; það er gamla blekkingin í þessu. Því að einum lið í þessum 18 þús. er varið til skipaskráningar, það stendur sérstaklega í fjárlögunum. Sigurjón Markússon hefir það sem algert aukastarf utan við ráðuneytið, sem lögfræðingur ráðuneytisins, með skoðunarstjóra, og þar dragast 1800 kr. frá beinum kostnaði við skipaeftirlitið, þeim 32 þús., sem n. hefir gert ráð fyrir, að sé varið til þessa. Sú hækkun. sem kemur frá mþn. er, að laun skipaskoðunarstjóra hækki um 4000 kr. byggt á þeirri höfuðtill., að hann hafi sitt aukastarf. Um þetta atriði hefi ég ekki úttalað, og vil ég gjarnan hafa samstarf við meiri hl. n.. hvar eigi að fara á milli núverandi launa og þess, sem hér er lagt til. Í öðru lagi er það eitt af till. —mþn., að aðstoðarmanni sé aukið við á skrifstofunni, sem hafi 4800 eða 3600 kr., ég man ekki hvort heldur. Í ferðakostnað ætlast mþn. til, að aukið sé 1600 kr. frá því, sem nú er á fjárlögunum. Og ég verð að segja það, að þegar fjórir menn, sinn í hvorum landsfjórðungi, eiga að ferðast um á hinum ýmsu stöðum, er ekki of mikið að áætla 1600 kr. í ferðakostnað, því að enginn getur ætlazt til, að þessir menn ferðist á eigin kostnað fyrir lítil laun. Þess vegna hefir n. hækkað ferðakostnaðinn. Þessar ferðir eru til þess að fylgjast yfirleitt með ástandi skipanna á hverjum stað. Hinsvegar skilst mér, að mþn. ætlist til, að hver eftirlitsmaður í landsfjórðungi hafi og nokkra þóknun. Ég get ekki talið það bein laun, sem nemur 750 kr. Það þýðir 3 þús. kr. fyrir fjóra menn. Ég verð að segja það, að ef litið er yfirleitt á starfslaunin í okkar þjóðfélagi, jafnvel þótt um hin smæstu störf sé að ræða, þá er ekki hægt að segja, að stigið sé út í óhæfilega eyðslu, þó að maður, sem allan ársins tíma eftir þörfum er til taks til að fylgjast með ástandi skipanna og ferðast þorp úr þorpi, þótt hann fái 750 kr. í árlega þóknun. Meiri hl. n. vili að það sé fjvn., sem ákveði þetta; ráðh. má ekki einu sinni gera áætlun í samráði við skipaskoðunarstjóra. En ég hygg, að þegar ekki er komin reynsla á, hvað þetta er umfangsmikið starf, þá sé ekki kleift fyrir fjvn. að binda það með föstum tölum. Þess vegna hefði ég talið það heppilegra eins og er í frv., að það væri bundið ákveðið af ráðh. í samráði við skoðunarstjóra, hvað þóknunin ætti að vera, sem myndi á byrjunarstigi aldrei fara hærra en mþn. í sinni till. Ég er af eðlilegum ástæðum algerlega mótfallinn þessari brtt. meiri hl. n. eins og hún liggur fyrir. Öðrum till. hefir og verið lýst af formælendum till., og er það rétt, að 3. brtt. er leiðrétting. Við 19. gr. er 4. brtt.; get ég verið meiri hl. n. sammála, að það sé ekki ástæða til að heimta fullt stimpilgjald fyrir áritun skírteinis.

Ég hefi nú skýrt það í öllum aðalatriðum, sem ég tel vera skemmd á lögunum, ef á að samþ. þessar brtt. meiri hl. n. Ég get ekki betur séð en með þessu sé verið að gera allt, sem í lögunum felst, ónýtt. Það er verið að búa til lög, sem krefjast réttarbóta. en heimta eftirlit, og það er verið að eyðileggja eftirlitið. Ég tel betra að hafa minna af reglum, og fylgja þeim fram, heldur en að hafa þær margar og enga möguleika að fylgja þeim fram. En hitt er ljóst, að það þarf fjármagn til að geta framfylgt nauðsynlegum lögum. Ef hnigið er að því ráði, sem ætlazt er til af meiri hl. n., að láta sitja við það sama og áður um starfsmannahald og laun til eftirlits, þá er víst, að eftirlitið nær ekki þeim tilgangi, sem lögin ætluðust til. Ég er ekki að væna hv. þm. Vestm., að þetta séu hans hugsanir, að gera lögin að hégóma. Ég hygg, að maður, sem er uppalinn við sjóinn, innan um menn, sem bætta lífi sínu á sjónum, hafi fullan vilja á, að eftirlitið og öryggi manna á sjónum verði sem allra bezt. Og einmitt í þessu efni þykir mér það ekki sæma honum, að vilja stuðla að því með sinni till., að gera eftirlitið sízt betra en verið hefir, með því að vilja ekki leggja til nokkrar þús. króna í viðbót í þeim efnum. Ég vil endurtaka það, og ég geri það að mínum síðustu orðum um þetta mál hér, að ef ekki má verja 20–30 þús. kr. af almannafé til þess að vernda 7–8 þús. manna líf, — ja, hvers má þá sjómannastéttin vænta af hinu háa Alþingi ?