18.03.1938
Efri deild: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

57. mál, eftirlit með skipum

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Hv. 3. landsk. ræðir þetta mál alla jafna á dálítið einkennilegan hátt; þ. e. a. s., mér virðist hann hafa tilhneigingu til að gera úr því meira hitamál en rétt sé og sanngjarnt, þótt allir séu ekki á sömu skoðun og hann, sem hann á orð við. Hér er að ræða um mál, sem snertir framkvæmd á algerlega praktískum atriðum og hægt er að ræða alveg rólega og æsingarlaust, og að ég hygg hjá öllum venjulegum mönnum án þess að bera saman heilan haug af getsökum á aðra menn. Hv. þm. sama sem hóf nú mál sitt með því að fara fram á það við meiri hl. n., að frestað væri brtt. eða þær teknar aftur til 3. umr. Í raun og veru hefði nú verið réttara af honum að bíða fyrst eftir afstöðu okkar tveggja meirihl.-manna til þessa atriðis, áður en hann færi að taka okkur í gegn fyrir þessar brtt. okkar. Ég skal segja þegar í stað, að ég hefi borið mig saman við form. sjútvn., sem er meðflm. minn að þessum brtt., og við erum mjög fúsir til þess að ræða þetta mál við hv. 3. landsk. enn á ný, og ennfremur við skoðunarstjóra, ef þessir aðiljar vilja gefa sér tíma til þess að ræða við okkur um þessi mál. En það hefir hingað til verið svo, að skipaskoðunarstjóri hefir ekki sýnt sig. Hann sagði einu sinni í sima við mig, síðan málið kom fram, að hann væri að hugsa um að tala við okkur, og taldi ég fara vel á því. Hv. 3. landsk. mun af eðlilegum ástæðum hafa verið nokkuð mikið með hugann annars staðar, þótt hann læsi nú málið í gegn með okkur, eins og hann lýsti. Sem sé, það stendur ekki á okkur með þetta, því að það er ekkert annað, sem við óskum og viljum í þessu máli, en að það sé sem allra bezt af hendi leyst, og í því skyni flutti ég á sínum tíma þá dagskrá við frv. hv. 3. landsk., sem beindi því inn á betri athugunarbraut en það átti kost á að vera áður.

Ég veit ekki, hvort undir þessum kringumstæðum er þörf fyrir mig að vera að eltast við það í einstökum atriðum, sem fram kom hjá hv. 3. landsk., vegna þess, að þegar við nú tökum till. aftur til 3. umr., þá býst ég við. að við þá umr. verði einmitt tækfæri til þess að rifja upp þessi atriði. Hv. 3. landsk. getur verið viss um það, að ég er ekki að setja fótinn í eða spyrna á móti verulega nauðsynlegum framkvæmdum í þessu efni. Ég er hv. þm. sammála, þar sem hann segir, að það sé betra að hafa færri lög og sjá um, að þeim sé hlýtt, ekki eingöngu á því sviði, heldur og á mörgum öðrum. Og ef við berum saman bækur okkar, þá held ég nú, að það sé ekki beinlínis hægt að saka mig um það, að ég sé svo mikið gefinn fyrir að tylla upp allra handa reglum og skipulagi, sem enginn ræður svo við að framkvæma. Það er sumum öðrum, sem hættir meira við því, en mér. Ég vil segja að lokum, án þess að fara frekar út í aths. hv. 3. landsk., að ég tel, eins og málið liggur fyrir, og ég held, að við hv. 2. þm. S.- M. séum sammála um, að sjálft öryggi skipanna ætti ekki að þurfa að líða við það, þótt í stórum dráttum sé fallizt á þann sparnað, sem við erum með. Hitt kann að vera, að „apparatið“, ef svo mætti segja, verði ekki eins stórt á að líta, en það skiptir minna máli, heldur, hvaða gagn er að ráðstöfuninni. Hv. 3. landsk. vill setja eftirlit með eftirliti, þ. e. a. s. eftirlitsmenn og svo skoðunarstjóra. Ég er ekki viss um, að það sé markvissasta leiðin að æskilegu takmarki. Mér virðist í svo mörgu að það sé alltaf heldur til að spilla, þegar ábyrgð er dreift í sem flestar áttir. En eins og nú horfir við, og þar sem við erum því samþykkir í meiri hl. að fara að óskum hv. 3. landsk., eins og við í raun og veru viljum allt fyrir hann gera í þessu máli, þá vil ég ekki orðlengja þetta mál frekar að sinni, en ég bið hæstv. forseta að taka til baka þessar brtt. til 3. umr.