21.03.1938
Efri deild: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

57. mál, eftirlit með skipum

Jóhann Jósefsson:

Síðan 2. umr. þessa máls fór fram hér í hv. deild, hefir sjútvn. átt kost á að tala við þá, sem upphaflega sömdu frv. þetta, ásamt skipaskoðunarstjóra. Og þrátt fyrir það, þó að við hv. 2. þm. S.-M. höfum ekki viljað gera neitt það, sem á einn eða annan hátt getur orðið til þess að draga úr öryggi sjómanna, höfum við ekki getað fallizt á röksemdafærslu hv. minni hl., eins og t. d. það, að vilja hækka laun skipaskoðunarstjóra úr 6 þús. upp í 10 þús., með þeim forsendum, að tekið sé af honum eftirlit það, sem hann hefir nú með skipum Eimskipafélagsins. Við erum hvert á móti á þeirri skoðun, að það út af fyrir sig hafi engin áhrif á öryggi sjómanna, hvort hlutaðeigandi starfsmaður fái nokkurn hluta launa sinna frá þessu eina sérstaka félagi. Um þetta höfum við líka spurt skipaskoðunarstjóra, og telur hann slíkt fjarri lagi. Hann neitar því líka, að nokkur árekstur hafi orðið á milli aðalstarfs sins og þessa eftirlits með skipum Eimskipafélagsins. Þá var hann og spurður að því, hvort hann óskaði eftir að sleppa þessu eftirliti hjá Eimskip, en því svaraði hann neitandi, taldi það ekkert trufla aðalstarf sitt, það útheimti aðeins dálitla aukavinnu fyrir sig. Þá má og benda á það í þessu sambandi, að þegar skipaskoðunarstjóri þarf að framkvæma hina fyrirskipuðu skoðun á skipum Eimskipafélagsins, þá léttir það eðlilega ekki svo lítið undir með honum, að hafa haft stöðugt eftirlit með skipunum. En eigi að banna honum að hafa þetta eftirlit með höndum fyrir Eimskipafélagið, vill hann eðlilega fá þann skaða bættan. Á það má líka benda, að skipaskoðunarstjóri hefir einnig eftirlit með skipum ríkissjóðs, en fær ekkert fyrir það. Um það talar hv. minni hl. ekkert.

Samkv. brtt. hv. minni hl. er stefnt að því, að rýra kjör skipaskoðunarstjóra, en til þess finnum við enga ástæðu.

Það er alveg rétt hjá hv. minni hl., að þeir, sem mættu hjá n. til að ræða um þetta mál, færðu rök að því, að nauðsynlegt væri, að skipaskoðunarstjóri hefði aðstoðarmann, og það mun einnig vera rétt hjá honum, að við munum ekki leggjast á móti því. Hv. 2. þm. S.-M. og ég erum honum sammála um, að slíkt er mjög heppilegt, og má heita nauðsynlegt, að ef skipaskoðunarstjóri á einhvern hátt forfallast, að þá sé til maður, sem hafi verið í starfinu og geti komið í hans stað. En auk þess er þetta sjálfsagt orðið nokkuð umfangsmikið starf í heild sinni, og verður sjálfsagt ekki minná, þegar frv. er orðið að l., sem ég geri ráð fyrir að verði. En úr því myndi mikið bætast, ef aðstoðarmaður fæst, eins og gert er ráð fyrir í frv., og brtt. minni hl. Það styður líka að því, að þá er síður ástæða til að amast við því, þótt skipaskoðunarstjóri sé látinn starfa að þessum málum, eins og hann hefir gert hingað til, og hvorki kippt frá honum aukastörfum hans né aukin laun hans. Þetta virðist miklu framkvæmanlegra, ef honum er fengin meðhjálp við þessi störf, sem sé eins og frv. ætlast til, fullfær maður og komi í framtíðinni til með að vera góður og gildur staðgengili fyrir skipaskoðunarstjóra.

Hv. minni hl., 3. landsk., kvaðst álíta, að það væri löglegt samkvæmt sinni till., að skipaskoðunarstjóri hefði önnur störf með höndum, sem ekki koma í bága við skipaskoðunina. Ég get ekki séð, að það sé hægt. Ef hans till. er samþ., þá er fallin alveg í burtu heimild skipaskoðunarstjóra til þess að hafa önnur störf með höndum, því að í frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Skipaskoðunarstjóri má engin aukastörf hafa á hendi önnur en þau, er lúta að yfirlitsskoðun á þeim skipum, sem eru flokkuð í flokkunarfélögum þeim, sem viðurkennd eru af ráuðuneytinu“.

Hv. 3. landsk. hlýtur að vera ljóst, að samkvæmt hans brtt. má skipaskoðunarstjóri ekki hafa störf á hendi, þótt þau séu ekki talin koma í bága við skipaskoðunina. Annars virðist mér og okkur, sem erum í meiri hl., að með því að samþykkja aðstoðarmann handa skipaskoðunarstjóra, þá sé gengið alveg nægilega langt til móts við þær kröfur, sem gerðar hafa verið í þessu efni, svo að framkvæmd l. samkvæmt þessu frv. þurfi á engan veg að stranda á því, að mannafli eða tilkostnaður sé ekki nægilegur fyrir hendi, ef málið er afgreitt samkvæmt okkar till., að viðbættum þeim breyt., að aðstoðarmaður verði samþ. Hitt er svo annað mál, að framkvæmd þessara l., eins og allra l., getur oft aflagazt, ef illa er á haldið af einhverjum ástæðum. Það er svo með hvert og eitt starf. Það er út af fyrir sig ekki alltaf örugg trygging fólgin í því, að spara hvergi til á tilkostnaðinum.

Hv. 3. landsk. sagðist lita svo á, að þær 1800 kr., sem varið er til að skrá á skipin, muni geta sparazt, ef aðstoðarmaðurinn er lögfestur. Það kann vel að vera. Ég þekki það ekki svo vel, að ég þori um það að dæma, hvort hann getur sparazt. Annars hélt ég, að hans starf ætti að vera meir miðað við það, að uppala hann til þess að verða það, sem sjálfsagt allir vilja, að hann verði, sem sé fullkominn staðgöngumaður skipaskoðunarstjóra, og þess vegna ætti að leggja höfuðáherzlu á að hafa hann með skipaskoðunarstjóra í hans starfi og fyrir hann, að svo miklu leyti sem hægt er að koma því við, en síður skrifstofustarf, eins og þarna er um að ræða. Ég geri jafnvel ráð fyrir, að þessi starfsmaður stjórnarráðsins, sem er við þetta, sé við þetta starf af því, að hann sé nokkuð lágt launaður við sitt aðalstarf.

Það er enginn vafi á því, að það má undir vissum kringumstæðum, og sérstaklega ef kappsamlega er að því unnið, koma upp óánægju með starf skipaskoðunarstjóra, eins og öll önnur störf hjá þeim aðiljum, sem við það eiga að búa. Fyrir það verður tæplega girt með nokkrum l., að ekki sé hægt með undirróðri eða áróðri að gera sjómenn tortryggna í garð skipaskoðunarstjóra. Það hefir bryddað töluvert á því í n., að vitnað væri til óánægju sjómanna í garð skipaskoðunarstjóra, þótt ekki hafi verið dregnar fram neinar sannanir í n., sem sýni. að slík óánægja sé réttlætanleg. En á svona sviði er ákaflega hægt um vík að gera menn óánægða. Það getur oft verið mikið álitamál, hvað er það rétta í skipaskoðun, og hvað er ekki að öllu leyti það rétta eða jafnvel það ranga. Ég hefi ekki trú á því, að lagasetning ein geti girt fyrir slíka óánægju, og sérstaklega trúi ég því ekki, ef kappsamlega er að því unnið af einhverjum aðilja, að ala á henni. En það er álit okkar hv. 2. þm. S.-M., að þetta frv., ef það er samþ. með brtt. okkar, og sérstaklega, ef fallizt er líka á brtt. hv. 3. landsk. um sérstakan aðstoðarmann, sem ég býst við, að við fylgjum báðir, þá sé, hvað lagasetninguna sjálfa snertir og það, sem þar er til kostað, svo búið um þetta mál, að framkvæmdin, ef hún lendir í höndunum á réttum mönnum, geti orðið forsvaranleg.