25.03.1938
Neðri deild: 34. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

57. mál, eftirlit með skipum

*Haraldur Guðmundsson:

Ég get fallizt á það með hæstv. fjmrh., að ef til vill sé ekki ástæða að binda með 1. laun aðstoðarmanns, en ég get þó varla álitið, að hægt sé að fá hæfan mann fyrir minna en 4800 kr., samanborið við laun yfirleitt hjá ríkisstofnunum. (Fjmrh.: Það eru 6000 kr.) Hámarkslaunin, en byrjunarlaunin eru 4800 kr. Það er ef til vill ekki ástæða til að binda þetta í l., heldur sé það ákveðið í fjárl.

En ég vil biðja n. að taka til athugunar næstu málsgr. á undan þeirri, sem er um laun aðstoðarmannsins. sem er um laun skipaskoðunarstjórans sjálfs, því að þar segir, að skipaskoðunarstjóri megi engin launuð aukastörf hafa á hendi nema með leyfi ráðh. Þegar frv. var flutt, þá var ætlazt til, að girt væri fyrir það, að hann hefði tekjur af öðrum störfum. En í Ed. hafa verið gerðar miklar breyt. á launum þessa manns, sem ef til vill hafa verið sett í hæsta lagi. En eins og frv. lítur út frá Ed., þá er gert ráð fyrir, að byrjunarlaun hans séu 5000 kr. en eigi að hækka um 200 kr. annaðhvort ár upp í 6000 kr. Ég tel þetta svo umfangsmikið starf, að ef á að banna honum að hafa nokkur launuð aukastörf, þá séu þessi laun hans svo lág, að ekki sé hægt að búast við því að fá vel hæfan mann til þessa starfs fyrir svo lág laun. Það er varla hægt að launa það minna en með 7500 –8000 kr. hámarkslaunum. Ég vil því biðja n. að taka þetta til athugunar.